06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni í dag, að við sjálfstæðismenn hefðum ekki talað mikið, andstaða okkar við frv. væri ekki hörð. Ég skil mætavel þreyttan mann, eins og hæstv. forsrh. hlýtur að vera orðinn við að leiða þessa ríkisstj. sem setið hefur frá 1. sept. í haust. Það fer auðvitað ekki mikið fyrir ræðum okkar miðað við allt það rifrildi sem hann hefur orðið að þola á stjórnarheimilinu þessa mánuði. Það er ekki að furða þó að maður, jafnvel þó að yngri væri að árum, væri orðinn þreyttur í hans sporum.

Ég skal taka undir með hv. síðasta ræðumanni, okkar ágæta forseta Sþ., ég tek alveg undir það með honum að skora á stjórnarliðana að koma upp úr mógröfunum, því að vinnan í mógröfunum hefur verið með þeim hætti að sumir hafa kastað mónum upp á bakkann og hinir fleygt aftur mónum í þá sem eru niðri í mógröfunum. Þeir eru orðnir heldur subbulegir, stjórnarþm., eftir þetta mókast allt, svo að ég tek fyllilega undir með okkar varfærna og prúða forseta Sþ., að menn hætti þessum mokstri og mókasti sem búið er að standa langan tíma.

Þegar hæstv. ríkisstj. var mynduð var það ekki þrautalaust, sem ekki er von, að mynda slíka stjórn. Annars vegar komu sigurvegarar kosninganna, Alþfl., hins vegar Alþb., sem var smásigurvegari á við kratana, og í þriðja lagi kom flokkur sem hafði verið í stjórn 4 ár á undan, Framsfl., en varð minnstur þessara flokka eftir úrslit síðustu þingkosninga. Samkomulagið og heilindin á milli hinna flokkanna var með þeim hætti, að þeir gátu hvorugur unnt hinum að hafa stjórnarforustuna á hendi. Þá var leitað til þáv. formanns Framsfl., núv. hæstv. forsrh., og hann beðinn að taka að sér að verða húsbóndi á þessu heimili, svo skemmtilegt hlutverk sem það hefur verið fyrir hann.

Þessi ríkisstj. setti sér þá stefnu að berjast við verðbólguna, koma henni niður. Einn hæstv. ráðh., sem talaði áðan, hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson, virtist vera býsna glaður yfir árangrinum sem hefði náðst. Hann sagði að þeir hefðu tekið við öllu í kaldakoli og það væri búið að leiðrétta allt, allt væri á hraðri uppleið og allt í stakasta lagi. Það var á honum að skilja að þegar flokkur núv. hæstv. forsrh. fór úr ríkisstj. á s. l. hausti hefði hann ásamt þáv. samstarfsflokki sínum skilið við landið alveg í rúst. Þetta segir iðnrh. Ólafs Jóhannessonar í dag. Við skulum líta á hvernig var umhorfs í þessu landi.

Verkalýðsleiðtogi Alþfl., maðurinn sem kemur oft við í pylsuvagninum eftir að hann er búinn að borða á Borginni, sagði að fiskiskipastóllinn hefði verið kominn að því að stöðvast. Sannleikur málsins er sá, að ástand í rekstrarhorfum fiskiskipa hefur ekki marga áratugi verið betra en var á s. l. hausti. Ég trúi því ekki að þessi pylsuæta viti ekki betur — eða hv. þm. á maður víst að segja. En hitt er alveg rétt, að fiskvinnslan stóð höllum fæti. Þar bera fyrst og fremst sökina nokkrir sjálfskipaðir landsfeður sem unnu skemmdarverk í þjóðfélaginu á s. l. sumri og vori. Það voru mennirnir sem voru að berjast fyrir því að fá „samningana í gildi“. Þeir stöðvuðu útflutning landsmanna, börðust fyrir því að brjóta niður þá löggjöf sem fyrrv. þingmeirihluti hafði sett — löggjöf sem stuðlaði að því að hægja verulega á verðbólguhraðanum og koma verðbólgunni niður í um 25%, sem hún hafði þá staðið í. Það eru þessir menn sem fyrst og fremst bera ábyrgðina á því, hvernig verðbólgan var þegar núv. ríkisstj. var mynduð. Þetta ætti hæstv. iðnrh. að hafa í huga og gleyma ekki.

En núv. ráðh. í ríkisstj. hafa verið að hæla sér af því af og til í vetur, á milli þess sem þeir hafa verið að rífast innbyrðis, hvað þeim hafi tekist sérstaklega vel að koma verðbólgunni niður og það með þeim hætti að velta undan sér svo þungum hlössum að þeir geta það engan veginn miklu lengur — þeir bifa ekki þessum milljarðahlössum. Það er fölsk lækkun verðbólgunnar sem þessir menn eru að tala um. Allir vita að verðbólgan er á fullri ferð, og jafnvel þó að þeir ætli sér að lögfesta hana í 35–40% koma þeir ekki til með að ráða neitt við hana með sama áframhaldi. Það er alveg merkilegt — og að mörgu leyti tekur mig sárt að hryggja einlægan vinstri mann eins og Gils Guðmundsson með því að segja það, en það er hryggilegt að þegar vinstri flokkar taka sig saman er eins og allt, sem gert er, sé gert með öfugum klónum.

Sjálfur forsrh. talaði í dag um að nú væri búið að lyfta launaþakinu. Ég held að það sé búið að gera meira en að lyfta launaþakinu. Ég held að þakið sé fokið af. Og þessi ríkisstj. á ekki eftir að sjá þetta þak meira. Það er farið veg allrar veraldar. Og hæstv. forsrh. sagði réttilega: Hver er ástæðan? — Ástæðan er slysið sem Reykvíkinga henti, að kjósa yfir sig vinstri meiri hluta. Það er ástæðan fyrir þessari bölvun allri. Og þetta er ekki fyrsta og eina bölvunin. Þá þurfti að fara í kapphlaup, afnema launaþakið. Ég vil ekki taka undir það með hæstv. forsrh., að þessi Guðrún hafi ráðið þessu öllu. Ég trúi því ekki að hún sé svo mikil valdamanneskja. Það hljóta fleiri að hafa komið þarna við sögu, og ég held að þeir geti ekki alveg hvítþvegið sig, framsóknarmenn í borgarstjórn Reykjavíkur, þó þeir reyni að strjúka framan úr sér með jafnvel hreinu handklæði. Ég held að þessir þrír flokkar, og sérstaklega má ég þá ekki gleyma aðalkaupránsflokknum, Alþfl., eigi allir þarna sök sameiginlega, einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og þegar menn skrifa á víxla. Þetta er höfuðástæðan fyrir forsendum meiri hl. Kjaradóms. Og svo koma þessir blessaðir englar hingað eftir allan þennan tíma og segja í lagafrv.: Grunnkaup þetta skal haldast óbreytt þar til um annað hefur verið samið! Ákvæði þessara laga breyta engum rétti til að gerðir séu nýir kjarasamningar, jafnt um grunnlaun sem verðlagsbætur á laun. Þetta er alveg stórkostlegur árangur eftir allt talið í marga mánuði, því að grunnkaupið á að haldast óbreytt miðað við mars, en svo er sagt við menn: En flýtið ykkur nú að semja um hækkun grunnkaupsins á eftir. — Og ein láglaunastéttin er búin. Hún gerði það í nótt. Blessaðir flugmennirnir. Þeir hækka mánaðarlaunin sín um 50–210 þús. eftir starfsaldri. Hvað eiga þá hinir að gera? Eiga þeir ekki að taka þessa blessaða engla til fyrirmyndar og leggja til grundvallar það sem landsfeðurnir eru að leggja til, þetta plagg hérna? Ég vil segja mönnum það í fullri vinsemd: Er ekki miklu viðfelldnara og skemmtilegra að taka þetta frv. aftur og segja bara: Þetta frv. er orðin svo mikil hörmung — það er búið að útþynna það — að það kemur engum að gagni. — Þessi ríkisstj. má líka eiga eitt, að um eitt er hún alveg sammála. Þeir eru allir hundóánægðir með þetta frv. Þar náðu karlar saman.

Hæstv. forsrh. gerði fremur lítið úr því sem hv. 1. þm. Reykn. tók fram í ræðu sinni og raunar hv. 9. landsk. þm., Ólafur G. Einarsson. Hann taldi að það væri nauðsyn að lögfesta með áætlun t. d. meginstefnu í ríkisfjármálum, líklega þróun ríkisbúskaparins, samræmi í heildarstefnu í efnahags- og atvinnumálum og stefnu í ríkisfjármálum, stefnumótun um öflun tekna og skiptingu gjalda ríkisins, stefnumótun um framlög á fjárlögum til fjárfestingar ríkis, fjárfestingarsjóða, sveitarfélaga og einkaaðila. Ég tek undir með báðum þessum flokksbræðrum mínum. Ég sé ekki að þetta skipti neinu máli eða sé bráðnauðsynlegt að gera. Hins vegar kemur þetta ekki að sök, það viðurkennum við allir. En ég spyr: Hvernig stendur á því, að þessi ríkisstj., sem hefur þó setið á áttunda mánuð, hefur ekki markað skýrari stefnu en hún hefur gert í þeirri stefnumótun sem hún hefur gert til skamms tíma? Er ekki fjárlagafrv. tillögur ríkisstj. um vissa stefnumörkun og síðan afgreiðsla þess? Hvað er svo með framhald þeirrar stefnumörkunar sem átti sér stað í desembermánuði? Í kjölfar þess frv. átti í raun og veru að leggja fram lánsfjáráætlun og frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1979. Þetta frv. er nú, 6. apríl, í nefnd í fyrri deild þegar komið er fram á annan ársfjórðung þessa árs. Þetta er stefnumörkun í lagi! Þetta er lag á þinghaldi: í fyrsta lagi að ríkisstj. skuli vera að gaufa með þetta frv. fyrstu tvo mánuði þessa árs og þá að í þinginu skuli spretta upp stjórnarþm. og gera ótal aths. við frv. Er það Sjálfstfl. sem hefur komið i veg fyrir afgreiðslu þessa frv.? Hefur hann beðið um frest á afgreiðslu þess? Nei, aldeilis ekki. Af hverju er það ekki afgreitt? Af hverju standa stofnlánasjóðir landsmanna núna eins og þvörur uppi gagnvart öllum lánsumsóknum og forráðamenn þeirra segja: Við getum ekki afgreitt neitt. Ríkisstj. hefur ekki enn þá afgreitt í hendurnar á okkur lánsfjáráætlunina. — Af hverju hefur ríkisstj. ekki gert það? Hún kemur sér ekki saman um neitt. Það er alltaf verið að kasta upp úr mógröfunum og aftur niður í þær. Er ekki kominn tími til þess að taka til höndum, eins og forseti Sþ. sagði áðan, og afgreiða eitthvað af þessum málum sem ber að afgreiða og á að vera búið að afgreiða fyrir löngu? Ég spyr hæstv. forsrh.: Hefur ríkisstj. þegar afgreitt till. um lánakjör fjárfestingarlánasjóðanna? Ég held að það sé alveg rétt að hún hafi ekki gert það. Hann leiðréttir mig þá ef hún hefur gert það í dag eða svo. Með hvaða kjörum á að lána? Eiga allir þeir, sem eru í framkvæmdum í atvinnulífinu og hafa sótt um lán til þessara sjóða, kannske að bíða til haustsins eða jafnvel til næstu áramóta? Núv. stjórnarflokkum tveimur, Alþfl. og Alþb., fannst lítið til fyrrv. ríkisstj. koma. En ég held að við verðum að viðurkenna það, að í fyrri ríkisstj. var lánsfjáráætlun afgreidd samhliða afgreiðslu fjárl., áður en það ár hófst sem lánsfjáráætlun átti að gilda.

Hvað með stefnumörkunina í sjálfum fjárl.? Jú, það var byrjað á því að auka niðurgreiðslur á vöruverði þegar þessi ríkisstj. tók við. Haldið var áfram að auka niðurgreiðslur á vöruverði frá 1. des., en í aths. með fjárlagafrv. segir: Við ætlum að lækka niðurgreiðslurnar snemma á árinu 1979 um 800 millj. Það er engin breyting enn orðin þar á. Þar er gat þegar í fjárl. upp á 2800 millj. Það átti að gefa út reglugerð um hækkun gjalda fyrir lyf, sérfræðiþjónustu og þess háttar, sem átti að gefa tæpan milljarð. Ekki veit ég til þess að hún sé komin. Það vita allir að á lífeyristryggingunum og þá ekki síður sjúkratryggingunum miklu frekar, skakkar milljörðum. Og eins og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Reykv. í fyrrakvöld fara uppbætur á útfluttum landbúnaðarafurðum langt fram úr áætlun. Það er þegar búið að greiða nærri 80 % af þeirri upphæð sem fjárl. gera ráð fyrir. Þannig má lengi telja. Hvar verður ríkisbúskapurinn í árslok með þessu áframhaldi? Ég er ansi hræddur um það, að þeir, sem áður tóku munninn fullan í þeim efnum, eigi bágt með að kyngja þegar kemur fram á vorið eða sumarið.

En það er margt sem hefur breyst nú í síðustu dögum. Það, sem er eftirtektarverðast og við þm. tökum helst eftir, er að þingflokkur, sem hefur 14 þm. sem hafa haldið upp þrotlausu kjaftæði síðan í haust, hefur steinþagað. Hann er mállaus. M. a. s. hv. 7. þm. Reykv. er orðinn mállaus. Það kveður svo rammt að, að það varð að senda einn málleysingjann úr landi til þess að taka varaþm. inn — þann eina sem hefur getað talað — og hann situr þarna, hinir eru allir mállausir. Hver skyldi hafa trúað þessu fyrir jólin, þegar þeir lokuðu ekki munninum og ekki komust aðrir að.

Hæstv. forsrh. sagði um einn þm., að hann væri hálfur í fylgi sínu við frv., hv. 3. þm. Vestf., sem er mikill reglumaður. Þá hljóta þeir, sem fylgja því að öllu leyti, allir að vera fullir. Ég tók þetta eins og hvert annað grín hjá hæstv. forsrh., en kannske er þessi mælikvarði notaður á stjórnarþm. á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég ætla að gera nokkuð að umræðuefni XI. kafla frv. Það er í fyrsta lagi 61. gr. Þar segir:

„Fyrir upphaf hvers árs eða framleiðslutímabils skal sjóðsstjórn að fenginni staðfestingu sjútvrn. ákveða verðgrundvöll þann, sem miða skal við verðhækkun samkv. 7. gr. eða verðlækkun samkv. 8. gr. Skal hún þá einkum hafa hliðsjón af verðlagi þriggja undanfarinna ára, svo og af mati á markaðs- og aflahorfum fyrir næstu ár, m. a. með tilliti til þess, hvernig þær hafi verið metnar af Verðlagsráði sjávarútvegsins, þó þannig, að tekið sé tillit til sérstakra ástæðna, svo sem óeðlilegra breytinga á erlendum mörkuðum, gengisbreytinga og annarra hliðstæðra atvika.“ Þetta var í fyrri drögum frv. en síðan er bætt við: „Við ákvarðanir sínar skal sjóðsstjórnin einnig líta til afkomu viðkomandi sjávarútvegsgreina eftir því sem það getur samrýmst tilgangi sjóðsins og raunverulegri verðjöfnun“.

Breytingin, sem gerð er, er skynsamleg. Hún er með síðustu setningunni eiginlega gerð óvirk. Það verður ekkert úr þessu. Þar af leiðandi mætti greinin alveg falla út. Það er engin breyting gerð. Ég hélt að þarna ætti að gera stefnubreytingu, fara fyrst og fremst eftir erlendum mörkuðum, gengisbreytingum og öðrum hliðstæðum atvikum, nú á sem sagt, verði verðfall, verði hækkun útgerðarkostnaðar, eð taka tillit til alls. — Það má kannske ekki segja það hér, að ég kann afar illa við að í lögum sé talað um í öðru orðinu Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en í hinu um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. En það skiptir ekki mjög miklu máli.

Þessi breyting er spor aftur á bak. Ég hélt að fyrra atriðið, sem kom fram í fyrri drögum, hefði verið mikið baráttumál Alþfl., því að Alþfl. gagnrýndi mjög fyrir kosningar, hvernig Verðjöfnunarsjóðurinn væri notaður, og taldi að það mætti ekki ganga svo langt að greiða úr Verðjöfnunarsjóði, það yrði að greiða til hans. Og sá, sem gekk einna lengst í þeim efnum fyrir kosningar, var hæstv. núv. sjútvrh. Varðandi Verðjöfnunarsjóðinn hefur ein grein fiskveiða staðið gersamlega upp úr, bæði hvað snertir afla og sömuleiðis verðlag, bæði til sjómanna og útgerðar og verðlag fyrir þá sem þennan afla vinna, en það eru loðnuafurðir. Þrátt fyrir að þetta er besta ár hvað snertir veiði, verð og sölu, greiða sölu á þessari afurð, á sér stað útgreiðsla úr Verðjöfnunarsjóði þvert ofan í stefnu núv. sjútvrh., því hann ætlaði að berjast fyrir gerbreytingu. Ég veit ekki hvort það þýðir nokkuð að spyrja Alþfl. eftir að hann missti málið, en það væri þá helst að snúa sér að Bjarna Guðnasyni. Hvernig stendur á því, að þessi stefnubreyting verður og undir slíkum kringumstæðum sé greitt úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins? Ég furða mig á þessu.

Þá kem ég að 64. gr. Þar segir:

„Á árinu 1979 verði lög um Aflatryggingasjóð tekin til gagngerrar endurskoðunar með það fyrir augum, að sjóðurinn gegni því hlutverki sínu að jafna aflasveiflur sem best við þær aðstæður, sem nú eru, m. a. vegna takmarkana á sókn í mikilvæga fiskstofna. Í þessu sambandi verði m. a. heimilað að beita fjármagni sjóðsins til þess að bæta upp verð á þeim tegundum, sem vannýttar kunna að vera, og leggja í því skyni sérstakt gjald á afla af þeim tegundum, sem taldar eru ofnýttar.“

Út af fyrir sig er furðulegt, að það þurfi að set ja í lög að endurskoða skuli önnur lög, að Alþ. þurfi í sex umr. í báðum d. að ákveða í lögum að endurskoða lög sem sjútvrh. er þegar búinn að taka ákvörðun um að endurskoða og skipa nefnd í. En þetta er samkomulag, segja þeir, og það má engu rifta í samkomulagi, það er alveg sama hvaða vitleysa er á ferðinni. Heyrandi heyra þeir ekki, sjáandi sjá þeir ekki o. s. frv.

En það er annað meira. Látum vera þó að þeir setji lög um að endurskoða önnur lög, en hitt er öllu alvarlegra. Það er stefnuyfirlýsingin að leggja sérstakt gjald á afla á þeim fisktegundum sem taldar eru ofnýttar. Fyrst gefur sjútvrh. út reglugerð þar sem hann takmarkar veiði á ofnýttum fisktegundum, sem er þá sérstaklega þorskurinn, og sennilega verður hér einnig um loðnuna að ræða, og síðan á að bæta gráu ofan á svart með því að leggja sérstakt gjald á þann afla þegar hann kemur að landi. Ég trúi því ekki, að hæstv. forsrh. standi og vilji standa að því að skattleggja eftir þessar aðfarir þá fiskstofna, sem eru fullnýttir, og ég trúi því ekki á marga aðra stjórnarþm. úr öllum þremur stjórnarflokkunum að þeir vilji standa að þessu. Samkv. 65. gr. þessa frv. hefur sjútvrh. heimild að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd XI. kafla, þ. á m. þetta, og hann hefur verið að sullumbullast með það á undanförnum mánuðum að hann vilji leggja sérstakt gjald á þorskafurðir. Ég veit ekki hvort hann guggnar á einhvern hátt, vegna þess að nú er loðnan talin fullnýtt eða jafnvel afnýtt. En ætla menn virkilega að veita slíka heimild, og hvað mundi það hafa í för með sér? Hvað verður gengið langt í þeim efnum? Gefur hann slíka reglugerð út, eftir að þetta frv. er orðið að lögum, án þess að bera undir samráðh. sína í ríkisstj.? Hefur hann sama hátt á og hann gerði fyrir nokkrum dögum? Ég er hræddur um að margir kjósendur þessara þm. allra þakki þá ,pent“ fyrir.

Ég tel að hér sé um alvarlega stefnuyfirlýsingu að ræða sem ég mun á engan hátt geta staðið að, og ég skora eindregið á stjórnarliðið að breyta þessu. Ég get ekki trúað því, að það verði eins og þegar minkur hleypur í hænsnahóp þó að þessu sé breytt, þó að ýmislegt sé að á stjórnarheimilinu.

Aðrir talsmenn Sjálfstfl. hafa rakið mjög ítarlega frv. En þó vil ég koma aðeins að 55. gr., að atvinnurekendum sé skylt að tilkynna vinnumálaskrifstofunni og viðkomandi verkalýðsfélagi með tveggja mánaða fyrirvara ráðgerðan samdrátt eða aðrar þær varanlegar breytingar í rekstri er leiða til uppsagnar fjögurra starfsmanna eða fleiri.

Ég skil ekki hvernig margur atvinnurekandinn geti gert þetta, þetta fái staðist í reynd. Hvernig er háttað t. d. í fiskvinnslu, ef hráefni bregst? Þar sem kannske eitt skip er aðaluppistaðan í öflun hráefnis er fáránlegt að setja slíkt ákvæði. Það er kapítuli út af fyrir sig, að í þessu frv. eru engin ákvæði um það, ef lögin eru brotin, engin sektarákvæði. Það er út af fyrir sig töluvert umhugsunarefni hvort ekki eigi að líta á þetta allt saman frekar sem einhverja uppsuðu sem menn eigi að taka mátulega alvarlega.

Það er mjög mikið og oft talað um það, að með því að efla sérstaklega Alþfl. verði spillingunni sagt stríð á hendur. Sá flokkur vann mörg atkv. út á það að setja upp mjög sakleysislegan svip og berja á spillingaröflunum í þjóðfélaginu, eins og þeir kölluðu það. (BGuðn: Var það ekki gott stefnumið?) Jú, það væri gott stefnumið ef það væri haldið, Bjarni, enda verðurðu leiður á því eins og þú varðst í Samtökunum. Ég spyr: Hvað hefur breyst í dómskerfinu eftir stórsigur Alþfl.? Hvað hefur batnað? Eru allir orðnir englar, sem áður voru djöflar, eða sakamenn orðnir heiðarlegir? Ég sé ekki að það hafi orðið neinar stórbreytingar. Þeir ætluðu að spara alveg stórkostlega. Það átti að minnka yfirbyggingu þjóðfélagsins. Í fyrri ríkisstj. voru átta ráðh., í þessari eru þeir níu. Aðstoðarmenn ráðh. voru í fyrri ríkisstj. þrír, en þeir eru sex í þessari og auk þess sérstakur blaðafulltrúi sjöundi. Fjölgun þeirra starfa er því um fimm með tilkomu hinnar miklu aðhaldsstjórnar. Þarna hefur Alþfl. heldur betur komið fram stefnumálum sínum. Ekki eru krataráðh. afskiptir. Þeir eiga tvo aðstoðarmenn af þessum sex. (Gripið fram í.) Jú, auðvitað þurfti að breyta með bílana. Þið vitið hvernig þetta var áður. Ný reglugerð var gefin út og einn ráðh. tekur lán og veðsetur húsið sitt, en þá skammast 7. þm. Reykv. svo að hann þorir ekki annað en borga allt aftur og hafði af þessu 50 þús. kr. rekstrarkostnað. Er nú ekki hræðilegt að fara svona að? Því geta kratarnir ekki skammað manninn innan sinna veggja í stað þess að gera svona lítið úr mönnum sem eru gerðir að ráðherrum og eiga að vera forsvarsmenn í þjóðfélaginu? Það er verst að maður sér ekki siðvæðingarstjórann.

Og hæstv. iðnrh. sagði: Nú hefur atvinnulífinu verið snúið við. Allt blómstrar nú, sagði hann áðan í ræðu sinni. Hvað blómstrar? Er ekki verið að hefta yfirleitt allt framtak og frelsi? Er ekki fram undan að binda í langan tíma meginþorra togaraflotans?Á ekki að fara alveg eftir vísindunum og ekki fiska eitt tonn yfir 600 þús. tonn af loðnu? Og hvað á svo að gera við flotann og verksmiðjurnar? Ekki lifa menn á þeim aðgerðalausum. Þessu er öllu snúið við, segir hann. Og hann segir að Alþb. hafi unnið stórkostlega varnarsigra, því að þessir vondu karlar, sem eru með þeim í stjórn, kratar og Framsókn, hafi gert óskaplegar kröfur um samdráttaraðgerðir, en þeir hafi, Hjörleifur og Svavar, unnið þar varnarsigra. — Ég tel ekki að Ragnar Arnalds hafi unnið neina varnarsigra, því að hann er kominn í Framsfl., að því er Vilmundur sagði í ræðu um daginn. — En hvar eru þessar samdráttaraðgerðir? Jú, þær eru í sambandi við framkvæmdir. En hefur nokkur árangur náðst í sparnaði varðandi þetta litla sem ég minntist á, aðstoðarmenn ráðh. og þess háttar? Það skiptir ekki höfuðmáli. Hvar eru aðrir sparnaðarliðir hjá hæstv. ríkisstj.?

Það kom eitt fram hjá hæstv. iðnrh., og hann var mjög drjúgur. Hann sagði: Og svo hefur m. a. s. komið hafís. Það var stórkostlegt að geta bjargað sér á flóttanum á því að ofan á hækkun olíuverðs hefði komið hafís! Allt er nú þessari ríkisstjórn til happs til þess að fegra málstaðinn.

Ég sakna þess í frv., sem er frv. um stjórn efnahagsmála o. fl., að ekki skuli vera minnst á skattamálin og ekki minnst á gjaldeyrismálin. Ég held að það skipti þó bæði atvinnurekstur og einstaklinga æðimiklu máli hver er stefnan í skattamálum. Hver verður hún? Á að halda áfram afturvirkni skatta? Á að halda áfram að leggja skatta á landsmenn þangað til búið er að taka allar tekjurnar af þeim? Á að halda áfram að pína þjóðina með sköttum, sem hefur það í för með sér, að þeir, sem hafa aflað hárra tekna, lagt mikið á sig, alllangan vinnudag, eru þegar farnir að hugsa sig um og að minnka vinnu sína og vera meira heima hjá sér? Það hefur allt miðast við meðalmennskuna og niður úr í skattamálum núv. ríkisstj. Það er eins og það sé refsivert athæfi ef menn vilja vinna og leggja á sig að hafa háar tekjur.

Það er kominn tími til þess að hætta þessu snobbi, sem sumir þm. og ákveðnir flokkar hafa verið með á undanförnum árum, að það eigi að borga öllum allt, sem ekki vinna og ekki hafa nema litlar tekjur, en taka það af hinum sem leggja á sig. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf haldið því fram og höldum því fram enn þá og munum gera, að samfélagið eigi að koma til móts við þá sem eru sjúkir, geta ekki aflað sér tekna, sem eru orðnir aldraðir, þeir eiga rétt, og að skylda samfélagsins sé að greiða þeim eftirlaun og ellilaun. Við það viljum við standa. En það eru takmörk fyrir því, hvað fullfrískt fólk má leyfa sér í landi þar sem hefur verið næg vinna, hvað eigi að borga mikið fyrir það. Þetta er að verða alvarlegt þjóðfélagsvandamál í mörgum velferðarríkjum. Þar eru menn hættir að halda áfram á þessari braut og eru nú farnir að spyrna við fótum. Það er til í öllum þ jóðfélögum fólk sem kærir sig ekkert um að leggja á sig vinnu, í hvaða þjóðfélagi sem er. Á það fólk að fá það miklar atvinnuleysisbætur eða tryggingabætur að það muni aðeins um 10% á því og þeim sem vinna fullan vinnudag? Ég tel að allt of langt sé gengið i þessum efnum og það sé affarasælla fyrir hvaða ríkisstj. sem er, hvort sem hún kallar sig hægri eða vinstri stjórn, að stuðla að því, að hver og einn fái möguleika til þess að vinna og afla sér sem mestra tekna, því að þeim mun meira borgar hann til samfélagsins og þeirrar óhjákvæmilegu þjónustu sem við deilum ekki um að samfélagið verður að halda uppi. En við ættum ekki að taka svo mikið af tekjum þeirra að menn fari að hugsa á þann veg: Við þurfum ekki að leggja þetta á okkur og við viljum ekki leggja þetta á okkur. Samfélagið er farið að taka jafnvel 70% eftir að tekjur eru komnar í ákveðna upphæð. Þá viljum við heldur vera heima. — Þetta hlýtur líka að draga úr þjóðarframleiðslu, það hlýtur hver maður að skilja.

Það eru líka takmörk fyrir því, hvað samfélag getur gengið langt í því að leggja eignarskatta á það fólk sem sýnir ráðdeild og eignast eitthvað, því að engir eignarskattar koma á þá sem kasta öllu frá sér jafnóðum og þeir afla teknanna. Hér verður þetta þjóðfélag eins og önnur að fara að setja eitthvert hámark, hve langt skal ganga í þessum efnum. Það er kominn tími til þess. Ég tel mig ekki vera neitt verri i garð þeirra, sem minna mega sín, en aðrir, þótt ég segi þetta, því að ég tel — og ég endurtek það — mikils virði að efla almannatryggingar og tryggingar þeirra sem eru sjúkir, aldraðra og annarra sem geta ekki unnið á hinum almenna vinnumarkaði. En við eigum hvergi að ganga svo langt að borga miskunnarlaust niður neysluvörur þeirra sem geta unnið og borga enga skatta til samfélagsins. Ég held að ríkisstj., sem nú situr, hafi gengið of langt í þeim efnum nú þegar. Það er erfiðara að snúa til baka en koma þessu á.

Ég sagði áðan, að um eitt væru stjórnarliðar sammála: Þeir eru orðnir leiðir á stjórnarsamstarfinu. Ég hefði mjög vel getað unnt þessari hæstv. ríkisstj. að ná árangri í baráttunni við verðbólguna, því að á því var full þörf. Ég taldi að hún ætlaði að taka mun betur til hendinni í þeim efnum. En samkomulagsleysið er svo algert, að það er aldrei hægt að ná samningum um skynsamlegar lausnir, t. d. á þessum verðbólguvanda. Þess vegna fer sem fer, að verðbólgan heldur áfram að flæða yfir og þar verður ekkert lát á þó að þessi skapnaður, sem hér liggur fyrir, verði gerður að lögum. Ég veit að það var góður tilgangur með fyrstu drögum að þessu frv. og það var góður tilgangur uppi hjá flestum mönnum að reyna að gera þetta sæmilega vel úr garði. En þessir sífelldu samningar og brotthlaup, eftir því hvor flokkanna taldi sig vera ofan á í það og það skiptið, kann ekki góðri lukku að stýra. Það var viðkvæðið þegar annar var orðinn undir: Nú skal ég ná mér niðri á þeim næst. — Þannig hefur taflið verið á milli Alþb. og Alþfl. Og þó að þetta frv. verði að lögum og þessir tveir flokkar ásamt Framsfl. telji að nú sé þetta komið í lag er ríkjandi alger leiði innan hóps stjórnarþm. og innan þessara þriggja flokka. Þeir eru búnir að missa trú á þessari ríkisstj., þó að þeir hafi uppi nokkra tilburði í þá átt að segja að þeir hafi trú á henni. Það er þó eitt sem heldur þeim saman. Enginn þeirra vill rjúfa þing og efna til kosninga. Það hentar engum þessara flokka nú. Þar eiga þeir samleið með hinum sjálfskipuðu landsfeðrum í verkalýðshreyfingunni. Þeir vilja líka að þessi stjórn lafi, ekki af því að þeir hafi neina trú á henni, heldur af því að það hentar þeim betur að hún lafi eitthvað áfram. Þess vegna eru þeir hinir rólegustu. M. a. s. sjálfur landsstjórinn, sem tók sig til og bannaði útflutning á íslenskum afurðum, tekur þessu mjög rólega. Hann er sá sem fólk hélt lengi vel að elskaði ríkisstj. mest, en sennilega elskar hann hana ekki neitt. En hann er leikari og eiginleg synd að hann skuli hafa gerst verkalýðsleiðtogi, því að ég hugsa að hann hefði náð miklu betri árangri á fjölum Þjóðleikhússins. Svona er það, það eru ekki allir menn á réttum stað í lífinu.(SighB: En hv. þm. sem er í ræðustól?) Nei, var formaður þingflokks Alþfl. að fá málið? Ég óska Alþfl. hjartanlega til hamingju. Það mun þá ekki standa á karli að koma upp og reisa sig svolítið, eins og hann hefur gert í vetur.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég endurtek það, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, er ekki með þeim hætti að við verðbólguna verði ráðið. Því miður sé ég það, og ég veit að jafnglöggur maður og hæstv. forsrh. sér það, að það muni halda áfram verulegar hækkanir launa eftir það sem á undan er gengið. Þess vegna skil ég vel bæði áhyggjur hans og allra annarra greindra og hygginna manna, að það muni ekki nást árangur þó að þetta frv. verði lögfest. En ríkisstj. mun sennilega lafa lengur eitthvað sjálfri sér til leiðinda og öllum öðrum.