06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er nú svo um áhuga þeirra Alþb.-manna fyrir því að verja rétt hinna lægst launuðu í þessu landi, að ekki einn einasti þeirra er inni í þingsalnum nú á þessari stundu til að fylgjast með þeim umr. sem hér fara fram um þessi mál. Lýsir það raunar betur en flest annað hvílík sýndarmennska felst í málflutningi þeirra að þessu leyti, eins og líka glöggt kemur fram í því, að í því frv., sem verið er að samþykkja, hafa þeir ekki gagnrýnt það atriði að nú er í fyrsta skipti hreyft við grunnlaunum með lagasetningu á Alþingi.

Það er veruleg ástæða til þess í sambandi við þá atburði, sem gerðust í nótt milli flugmanna og Flugleiða, að vekja athygli á því, að einungis annað tveggja getur gilt um það samkomulag. Annað er það, að það ákvæði, sem fjallar um kjaradóm í sambandi við jöfnun launa flugmanna, sé í raun marklaust, þar sem það falli niður við gildistöku þessara laga, þar sem kveðið er á um að marslaun skuli gilda. Veit ég ekki hvort megi skilja þetta frv., sem hér liggur fyrir, svo að það leggi bann við kjaradómum af þeim sökum. En ef það er ekki, þá er komið í ljós að búið er að hrinda þessari löggjöf áður en hún er sett, þessari frávíkjanlegu löggjöf, vegna þess að nái þessi dómur fram að ganga má búast við því að kjör flugmanna innan Félags ísl. atvinnuflugmanna, grunnlaun þeirra, hækki um 6%. Einungis annað tveggja getur átt við. Undir þessa samninga verður skrifað kl. 11 í fyrramálið, en sýnt er að þessi löggjöf nær ekki fram að ganga fyrr en eftir hádegi, og verður þá fróðlegt að fylgjast með hvort undirskriftum verður frestað fram yfir gildistöku laganna eða undirskriftin fari fram á hinum boðaða tíma. Þá verður og fróðlegt að fylgjast með því, hvert framhaldið verður, hvort þessi kjaradómur sé óþarfur orðinn og marklaus eða hvort hann nær að gilda og hin frávíkjanlegu ákvæði frv. taki til, sem ég álít að ekki muni vera.

Höfuðtilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs nú í kvöld, er það, að Alþb.-menn láta mjög í veðri vaka að þeir séu einu talsmenn láglaunafólksins í landinu, þeir einir vilji berjast fyrir rétti þess. Þó er það svo, að Alþb.-menn hafa ekki síður en aðrir tekið þátt í því að breyta kjarasamningum lægst launaða fólksins með lögum. Það samkomulag, sem varð við flugmennina í nótt, er líka gert með vitund og vilja Alþb.-manna. Og við vitum að þessi deila hefur dregist svo á langinn vegna þess að Alþb. setti fótinn á hemilinn á stjórnarvagninum, stöðvaði það að löggjöf yrði sett sem byndi enda á þessa deilu og ákvæði flugmönnum sömu laun og áður. Svo langt gekk undirlægjuháttur Alþb. í sambandi við flugmenn, að hæstv. samgrh. þeirra treysti sér ekki til þess að fara með það mál, baðst undan því, lét félmrh. taka það að sér, og þegar síðan kom að því að ákveða hver skyldi flytja frv. hér á Alþ. um þvert bann við verkfalli flugmanna, þá heyktist Alþb. og ráðh. þess á því að flytja það frv. með þeim orðum að Alþb. væri ekki kaupránsflokkur.

En hvað segir svo helsti talsmaður Alþb. á þingi nú í fjarveru hv. 1. þm. Austurl. um það? Við heyrðum áðan að hann telur að í þessu frv. felist 6% kjaraskerðing til hinna lægst launuðu. Hann segir að 4% bein kjaraskerðing hafi falist í desemberlaununum. Hann segir að hann væri reiðubúinn til þess að slá af um 2%. M. ö. o. er þessi helsti talsmaður Alþb., þessi sjálfkjörni fulltrúi lægst launaða fólksins í landinu, reiðubúinn til þess að skerða kjör lægst launaða fólksins um 9% á einu ári, — sá maður sem hæst talaði um „samningana í gildi“ fyrir einu ári eða svo.

Sannleikurinn er raunar sá, að Alþb. er hinn eini sanni kaupránsflokkur í þessu landi, vegna þess að hann er allajafna og ævinlega reiðubúinn til þess að veita kjaraskerðingarfrv. framgang á Alþ., ef hann fær að sitja í ráðherrastólum. En hann vill fá að fela kjaraskerðinguna, hann vill ekki að það komi hreint fram í hverju hún er fólgin.

Þegar ég í þessu sambandi tala um kjaraskerðingu, þá geri ég það í þeirri merkingu sem þeir Alþb.-menn gera. Að sjálfsögðu er nákvæmara orðalag að tala um skerðingu kaupgjaldsvísitölunnar, en kaupmáttarskerðing er að sjálfsögðu minni. Við vitum að ákvæðin um skerðingu kaupgjaldsvísitölunnar eru sett fram með þessum hætti til þess að ná fram tilteknum niðurskurði á kaupgjaldsvísitölunni. Markmiðið var allan tímann að skerða kaupgjaldsvísitöluna eins og felst í þessu frv. Spurningin var einungis um leið til þess. Ef þess vegna tenging viðskiptakjaravísitölunnar hefði orðið önnur, hefði orðið að skerða kaupgjaldsvísitöluna með öðrum hætti til að ná fram sömu markmiðum. En það er svo eftir öðru, að þeir Alþb.-menn treystast ekki til að standa á bak við þessa ríkisstj., sem þeir þó segjast vilja styðja, í þeim verkum sem þeir halda að séu óvinsæl.

Það er einnig eftirtektarvert að því samkomulagi, sem hv. 3. þm. Vestf., Kjartan Ólafsson, kallar reginhneyksli, sagði hæstv. iðnrh. að væri út af fyrir sig ástæða til að fagna. Og í því kemur fram sami hráskinnaleikur og ævinlega hjá þeim flokki. Hæstv. iðnrh. talaði um það í ræðu sinni í dag, að það hefði verið fyrsta verk þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að reisa atvinnuvegina við úr köldum rústum. Ef við rifjum upp það sem þessi ríkisstj. hefur gert fyrir útflutningsatvinnuvegina, þá er það ein gengisfelling, en síðan stöðugt gengissig og annað ekki. Á hinn bóginn lét hæstv. iðnrh. viðgangast að fyrningarreglur voru mjög skertar, afturvirkur skattur lagður á fyrningar s. l. árs, sem veldur því að þau iðnfyrirtæki, sem eru burðarásinn í þeirri atvinnugrein, eiga torveldara með það en áður að endurnýja framleiðslutæki sín. Má þar taka t. d. sambandsverksmiðjurnar á Akureyri, sem urðu fyrir mjög þungum búsifjum af völdum þessarar skattlagningar. Þessi afturvirki skattur bitnaði fyrst og fremst á þeim iðnaði sem veitti flestum mönnum vinnu, heldur uppi atvinnu í landinu. Þessi skattlagning bitnaði einnig mjög þungt á útgerðinni, á hraðfrystiiðnaðinum fyrst og fremst, hverjum þeim atvinnurekstri sem þarf á örri endurnýjun að halda í vélabúnaði. Í kjölfar þessa komu svo mjög þungir skattar, sem enn gerðu rekstur atvinnuveganna erfiðari, ásamt þeim auknu hömlum sem hafa verið settar á atvinnureksturinn á marga lund.

Hv. 3. þm. Vestf., Kjartan Ólafsson, gerði mikið úr því, að Lúðvík Jósepsson hefði beitt sér sérstaklega fyrir því að 2% láglaunauppbót fengi að standa 1. des. Hann hafði orð á því, að lítil tala gæti orðið stór — þessi litlu 2% hefðu orðið stór þegar kom að því hjá Alþfl. að fallast á að láglaunabæturnar yrðu áfram í gildi. En hann gleymdi að segja frá hinu, að þessi 2% urðu agnarlítil þegar kom að því hjá Alþb. að kokgleypa þessa kröfu sína, eins og það gerði án þess að klígja við því, eins og við þekkjum.

Ég vil svo að síðustu, vegna þess að ég sé að það er næsta tilgangslítið að hefja hér almennar umr. um þau skrýtnu viðhorf sem hafa komið fram í málflutningi Alþb.-manna, aðeins ítreka það, sem ég sagði í gær um þetta frv., að í því felst það, að menn eru ekki jafnir fyrir lögunum. Ef svo fer, að kjaradómur flugmanna gildir, er það enn sýnna en áður. Sumar stéttir manna eiga að fá þær grunnkaupshækkanir sem áður hafði verið samíð um, aðrar stéttir ekki. Og það er þetta sérstaka ákvæði sem mér finnst fyrir neðan allar hellur og ég hlýt að gagnrýna alveg sérstaklega.

Hæstv. viðskrh. hrósaði sér mjög af því við 1. umr. þessa máls, að fyrir hans tilstilli væri gert ráð fyrir að síðari mgr. 12. gr. laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti félli niður. Þetta ákvæði hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan, hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Hæstv. forsrh. vék ekki að því í grg. sinni fyrir þessu frv., hvaða skýringar liggja á bak við þennan tillöguflutning. Og ef flett er upp í grg. frv., stendur um þetta atriði einungis þetta:

„Með greininni er lagt til, að 2. mgr. 12. gr. verðlagslaganna falli niður, því að þörf er á að taka tillit til fleiri sjónarmiða en þar getur.“ — Meira er það nú ekki.

Nú er út af fyrir sig afskaplega forvitnilegt að fá vitneskju um það, hvaða fleiri sjónarmið þarna eru, hvað annað það er. Ég hygg að það geti næsta fátt þar til greina komið. En á hinn bóginn er það í samræmi við stefnu Alþb. að geta ekki hugsað sér að neinn atvinnurekstur sé rekinn með hagnaði. Þeirra yfirlýsta atvinnustefna er sú — þeir kalla það innlenda atvinnustefnu — að sérhver rekstur skuli rekinn með halla. Menn sjá að sjálfsögðu til hvers það leiðir þegar til lengdar lætur. Það hlýtur að leiða til atvinnuleysis og stöðvunar. Það hindrar, að hagræðing geti átt sér stað í framleiðslunni, og kemur í veg fyrir aukna framleiðni. Úr þessu á að bæta með því að ríkisstj. stofni sjóð, 1 milljarð á þessu ári, 2 milljarða á því næsta, til þess að færa ákveðnum fyrirtækjum á silfurdiski svo og svo miklar fjárhæðir. Ekki er skilgreint eftir hverju skuli farið í þeim efnum og ekki hefur fengist svar við því, hvort fyrirtækjum verði mismunað eftir rekstrarformum. Þetta má ekki ræða. Í þessu efni sættir meiri hl. Alþ. sig við að vera í algeru myrkri.

Ég sé að hv. 3. þm. Vestf. er kominn í stólinn. Væri kannske ástæða til umræðna í sambandi við þau orð sem hann sagði áðan, þar sem hann gerði lítið úr þeirri geysilegu þyngingu tekjuskattsins sem hann var manna ákafastur í að setja á með lögum nú fyrir áramótin. Það væri t. d. afskaplega skemmtilegt fyrir hann að eiga orðastað við sjómenn þá fyrir vestan sem hann ásamt ríkisstj. sinni stendur nú að því að takmarka sem mest þorskveiðiheimildir hjá, þar sem er togaraflotinn fyrir vestan, og hygg ég að þeir sjómenn, sem fram að þessu hafa kosið hann, kunni honum litlar þakkir fyrir það ráðslag þegar kemur að því að borga ?0% skattinn af aflahlutnum s. l. ár. Ég hitti einn slíkan niðri í miðbæ nú eftir hádegið, og það bar ekki núverandi stjórnarmeirihluta fagurt vitni sem hann sagði við mig þar. Ætla ég að hv. þm. væri hollt að kynna sér viðhorf manna, launafólksins þar fyrir vestan, sem sækir sjó eða vinnur langan vinnudag í frystihúsum, og spyrja þetta fólk, hvernig það líti á þennan háa tekjuskatt sem hv. þm. hefur manna mest barist fyrir að koma á. Ég geri ráð fyrir að þessi þm. muni svara því til, að þetta sé hátekjufólk, því að slíkur er málflutningur hans. En í mínum huga er þetta rétt og slétt verkafólk sem sjóinn sækir. Ég álít að fólkið í frystihúsunum, sem vinnur langan vinnudag til þess að afstýra því að verðmæti skemmist, eigi skilið að fá að halda eftir meira af afrakstrinum síðustu stundirnar í hverjum sólarhring sem það vinnur en 30% — það daglaunafólk sem flokkur þessa hv. þm. núna nær allur styður að skuli svipt láglaunabótum 1. des. Þessi þm. er ekki ákveðnari í afstöðu sinni gegn því en svo, að hann lýsir yfir að hann muni áfram styðja þessa ríkisstj., hefur ekki einu sinni manndóm í sér til þess að taka af skarið um það, að hann fylgi ekki slíkri ríkisstj. framvegis. Svo talar þessi hv. þm. um að verkalýðshreyfingin í landinu sé einörð í andstöðu sinni við þetta ákvæði.

1. maí er fram undan. Við munum hvað Guðmundur Jaki sagði þá fyrir einu ári. Það var sett útflutningsbann á. Þá þótti það gott. Þá var verkalýðshreyfingin einörð. Þá var hún hörð. Þá hikaði hún ekki við að fara út í skemmdarstarfsemi gagnvart þjóðarbúinu sem hefur kostað þjóðfélagið mikið og veldur því nú að lífskjör í landinu eru verri en ella hefði orðið. Á þessu ber sá hluti verkalýðshreyfingarinnar ábyrgð sem er í sama flokki og þessi hv. þm., og hann sjálfur líka, því að hann stjórnaði þeim æsingaskrifum sem þá voru í Þjóðviljanum. Og þegar hann talar nú um að nauðsynlegt sé að skerða verðbótavísitöluna um 11% á hálfu ári með löggjöf í des. og löggjöf núna, þá ætti hann líka að rifja upp hvað hann skrifaði um slíkt tiltæki meðan hann enn var ritstjóri Þjóðviljans.

Ég geri á hinn bóginn ekki ráð fyrir því, að hv. þm. muni neitt hrökkva í kút þó að hann rifji upp ummæli sín þá og nú. Hans pólitísku aðferðir eru allar þess eðlis, að þær mótast af því einu að tilgangurinn helgi meðalið, að vera óvandur að virðingu sinni, að horfa ekki í það þótt heildin beri skaða, æsa til þess að þeir menn, sem til forustu hafa verið kjörnir í verkalýðshreyfingunni, noti það fé, sem launþegarnir þar eiga, í pólitískan hráskinnaleik til þess að styðja einn flokk öðrum fremur hér á landi.

Það er lágt risið á formanni Verkamannasambandsins þegar hann hefur ekki annað að segja um þau skerðingaráform, sem gerð voru á kaupgjaldsvísitölunni, en það eitt, að hann hafi farið niður í pylsuvagn til þess að færa forsrh. pylsu, þegar ekki fékkst annað svar frá honum en það, og lagði síðan sjálfur fram till. um hvernig ætti að skerða kaupgjaldsvísitöluna hjá því fólki sem vinnur í Dagsbrún. Og hvað segir verkalýðshreyfingin núna, þegar við verðum vitni að því, að það, sem á að bjarga Eimskipafélagi Íslands, er að segja upp nokkrum körlum sem orðnir eru sjötugir? Heyrist þá orð? Ekki eitt einasta orð. Markmiðið hjá Alþb. með því að komast inn í verkalýðsfélögin er ekki að berjast fyrir það fólk sem þar er, heldur að nota þá fjármuni, sem þetta fólk greiðir í félagsgjöld, og það vald, sem í því felst að vera valinn til forustu í verkalýðsfélagi, til illra verka, til að auka áhrif götunnar, til að brjóta niður það skipulag, sem er í þessu landi, eins og margyfirlýst er af starfsmönnum Alþb., m. a. í umr. hér í dag.

Svo segir þessi hv. þm. að hann muni áfram styðja þessa ríkisstj. af því að hann sé svo hræddur um að Sjálfstfl. muni skerða laun fólksins í landinu meir en þessi ríkisstj.! Ég þori að fullyrða að ef við hefðum verið búnir að marka þá stefnu í samráði við Alþýðusamband Íslands að ekki skyldi koma til grunnkaupshækkana á árinu 1979, hefðum við ekki verið hræddir við að setja lög á flugmenn. Það hefði ekki staðið á Sjálfstfl. eins og stóð á Alþb. að taka á því máli. Og það þýðir lítið fyrir þennan hv. þm. að reyna að fegra sig gagnvart fólkinu fyrir vestan með því að hann hafi þar einhverja sérstaka skoðun, þegar það er hans flokkur og hans ráðh. sem bera pólitískt ábyrgð á því, hvernig þetta mál hefur farið, eins og þeir bera pólitíska ábyrgð á flestum höfuðslysum sem orðið afa í íslenskri verkalýðsbaráttu á undanförnum áratugum. Framkoma þeirra í verkalýðshreyfingunni hefur valdið því, að það verður nú að taka til algerrar endurskoðunar og enduruppbyggingar hvernig á þeim málum skuli haldið, hvernig skuli tryggja að einhverjir pólitískir dindlar geti ekki leikið lausum hala innan verkalýðshreyfingarinnar, — menn sem fyrir löngu eru komnir úr sambandi við það fólk sem hefur kosið þá til forustu, menn sem lifa allt öðru lífi en alþýðan í landinu og eru búnir að gleyma hvernig þeir voru sjálfir meðan þeir voru í þessum hópi, menn sem miklast af þeirri miklu ábyrgð og þeim miklu áhrifum sem þeir hafa fengið.

Þó að ég sé andvígur því frv., sem hér liggur fyrir, vegna þeirrar meginstefnu sem í því felst, get ég ekki annað en viðurkennt það og sagt það, að nauðsynlegt er að reyna að sporna við. Ég hefði kosið að fara þar öðruvísi að. Þessi hæstv. ríkisstj. kýs að fara svona að. Og hún gerir þessa tilraun. En það er ekki einu sinni búið að lögfesta frv. þegar Alþb. boðar það, og þ. á m. þessi hv. þm., að hann ætli að brjóta niður það sem í þessu skjali felst. Hann er ekki sá maður né hans flokkur sá flokkur að þora að bera pólitíska ábyrgð á þessu frv, einn einasta dag, ekki hálfan dag, ekki einu sinni þann fund sem atkvgr. stendur hér á hinu háa Alþingi, ekki meðan þeir rétta upp hendurnar. Einnig þá liggur fyrir, að óðar og þeir eru komnir út muni þeir berjast fyrir því, að þeim ákvæðum, sem þó eru í þessu frv., verði hrundið. Þetta er það pólitíska siðferði sem við eigum að venjast úr þessari átt. Það er því ekki undarlegt þótt flokkur við flokk, stjórnmálamaður á eftir stjórnmálamanni, ekki í einu landi, ekki bara hér, heldur úti um lönd og álfur, segi allir það sama, að það er ekki hægt að vinna með þessum mönnum. Það getur engin sú ríkisstj. staðið til lengdar sem er komin upp á náð og miskunn kommúnista, vegna þess að vinnubrögð þeirra eru þannig og vegna þess að þeir trúa því, að þeir séu einhvers konar Lúðvík 14., vald þeirra komi frá einhverri æðri veru, einhvers konar Stalín sem feli sig í morgunroðanum. Svo syngja þeir: Sjá roðann í austri!

Þetta vildi ég sagt hafa um þessi mál almennt. Það er raunar ekki undarlegt, þótt fólkið í þessu landi sé ekki verulega trúað á að þessi lög muni verka til góðs, hafa mikil áhrif, þegar sjálfir ráðh., sem að þeim standa, hæstv. ráðh. Alþb., koma hér upp hver á fætur öðrum til þess að afsaka sig. En að hinu leytinu bendir þögn krata til þess, að þeir séu ánægðir og hafi loksins séð sinn draum rætast í því plaggi sem hér liggur fyrir.