06.11.1978
Efri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Flm. þessarar tillögu hreyfa hér máli sem er af skiljanlegum ástæðum mikið vandamál þeirra byggða sem í hlut eiga og um er rætt á þskj. 68, en það eru þeir þéttbýlisstaðir í landinu sem hafa ekki þegar lokið við lagningu bundins slitlags á vegi sína.

Þáltill. fjallar um fjárhagslegan stuðning af hálfu ríkisins til þessara sveitarfélaga, sem skuli vera m.a. fólginn í hækkun á beinum fjárframlögum og svo raunar útvegun aukins lánsfjár. Hv. fyrri flm., sem mælti fyrir till., gat þess, að þeir flm. gerðu ekki tillögu um ákveðna leið til fjármögnunar. Það er kannske skiljanlegt, því að það hefur lengi vafist fyrir fleirum. Ég efa því ekki, að það sé nauðsynlegt að halda áfram leit að viðunarlegri leið til fjármögnunar þessara hluta. Hv. flm. gat þó um einn möguleika sem hann eygði, og hann var að sveitarfélög fengju í sinn hlut sérstakan aukinn skatt af þeirri heildarfjárhæð sem inn fæst í bifreiðagjöldum. Ég verð að segja, að þetta finnst mér mjög hæpin till., að bifreiðagjöld og þær tekjur, sem inn koma af umferðinni, eigi sérstaklega að skammta til ákveðinna þéttbýlisstaða. Mér finnst miklu skynsamlegri sú hugmynd sem fram hefur verið sett af sjálfstæðismönnum, að þau gjöld, sem nú eru innheimt af bifreiðum og umferðinni yfirleitt, sem eru mjög há, verði í stórauknum mæli notuð til þess að bæta allt vegakerfið í landinu á þann veg, að meiri og betri samgöngur verði á milli landshlutanna, Í því tel ég vera fólgna eina mikilvægustu frambúðarlausn, ekki einungis í samgöngumálum, heldur og í ýmsum öðrum hagsmunamálum allrar landsbyggðarinnar, bæði höfuðborgarinnar, annarra þéttbýlisstaða og strjálbýlisstaða. Ég held að það verkefni að leggja bundið slitlag á aðalþjóðvegakerfi landsins sé stærsta verkefnið sem bíður okkar í framkvæmdum nú á allra næstu árum.

Að því er varðar þá hugmynd að fjármagna þetta verkefni að hluta til með gjöldum af umferðinni og þ. á m. bifreiðagjöldum má minna á eftirfarandi: Miðað við forsendur fjárl. þessa árs og þann aukna bifreiðainnflutning, sem menn töldu fyrirsjáanlegan þá, og þann aukna innflutning, sem varð umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárl., var áætlað að tekjur ríkisins af umferðinni yrðu um 25 þús. millj. kr. í ár. Nú hef ég því miður ekki handbæra tölu um það, hverjar tekjurnar raunverulega verða, en ekki hygg ég að þessi tala sé of lágt áætluð.

Einnig er gert ráð fyrir að á næstu 15 árum renni til ríkissjóðs tekjur af umferðinni og bifreiðainnflutningi, sem samsvara raungildi þessara tekna, hvað sem það verður í krónutölu þeirra ára. Við höfum of hæpnar forsendur í dag til þess að geta spáð nokkru um þá krónutölu. Má ætla að á næsta ári verði umframtekjur ríkisins af umferðinni og bifreiðainnflutningi ekki undir 2000 millj. kr., og má ætla að það vaxi að raungildi um 10% að meðaltali á ári a.m.k. um fyrirsjáanlega framtíð. Miðað við þessar forsendur og fast verðlag má ætla að fjármagn til þessara framkvæmda, sem hugleitt er að verja megi þessum tekjum til, verði um 27 þús. millj. kr. næstu 5 árin umfram það sem Vegasjóður fær með hefðbundnum aðferðum. Það má ætla að kostnaður verði um 27 þús. millj. kr. á næstu 5 árum við það að leggja bundið slitlag á sem svarar 100 km af ári á þjóðvegunum að meðaltali. Ég vil því undirstrika það, að þetta verkefni, endurbætur aðalþjóðvegakerfisins, ætti að hafa forgang að því er varðar framlög ríkisins til væntanlegrar vegagerðar í landinu.

Með þessu er þó ekki gert lítið úr þeirri þörf sem ýmsir þéttbýlisstaðir hafa fyrir að fá bundið slitlag á sína vegi. Þar kemur margt til, bæði betri meðferð tækja og hreinlætisatriði, eins og hv. flm. benti á áðan. Það ættum við best að skilja, sem búið höfum um langt árabil hér í Reykjavík við þær ágætu aðstæður að hafa hér varanlegt slitlag á götum og sem betur fer víðast hvar góðar gangstéttir líka.

Hv. 1. flm. vék síðan að síðari hluta þessarar till., sem fjallar um það, að ríkisstj. skuli undirbúa breytingar á löggjöf er fell í sér afnám takmarkana á afturvirkni heimildar til innheimtu gatnagerðargjalda og niðurfellingu söluskatts af kostnaði sveitarfélaga við snjómokstur af götum með eigin vinnuvélum.

Í þessum síðari hluta eru tvö algerlega ólík efnisatriði. Að því er það atriði varðar sem fjallar um niðurfellingu söluskatts af kostnaði við snjómokstur, þá get ég út af fyrir sig skilið rökin fyrir því. Okkur finnst oft sárgrætilegt hve stór hluti af kostnaði við ýmsar framkvæmdir fer í skatta til ríkisins. Það er vandi sem við er að etja á afskaplega mörgum sviðum og fleiri sviðum en þessum. En vel má vera að þá hugmynd, sem kemur fram í till. um hluta söluskatts í kostnaði sveitarfélaga við snjómokstur, megi leggja til grundvallar hugsanlegri lausn á þessu máli að einhverju leyti.

En að því er varðar hinn efnishluta síðari mgr. till., afnám takmarkana á afturvirkni heimildar til innheimtu gatnagerðargjalda, þá þykir mér ástæða til að vara alvarlega við þeirri hugmynd og undirstrika að slík hugmynd er í algeru ósamræmi við þær grundvallarreglur sem ég tel að borgararnir í þessu þjóðfélagi geti unað við. Ef takmarkanir á afturvirkni væru felldar niður í þessum umræddu lögum, þá fæ ég ekki betur séð en það væri heimilt að innheimta gatnagerðargjöld af því fólki, sem hefur, eins og hv. flm. orðaði það, búið við þau forréttindi um langan tíma að búa við götur með bundnu slitlagi og jafnvel gangstéttum. Þetta þýðir að það væri heimild til þess að innheimta slík gjöld af fólki — við skulum segja öldruðu fólki sem hefur búið 50 eða 60 ár við Ránargötuna eða Bárugötuna hér í borg og er þegar að sligast af skattbyrði, eftir atvikum of þungri eða mjög ranglátri, ekki síst þegar um hreina afturvirkni er að ræða.

Það er um fjöldamargt fólk að ræða sem gæti orðið gjaldþegnar að þessu leyti samkv. breyttum lögum í því formi sem hv. flm. vilja láta breyta þeim. Fjöldamargt fólk hefur margsinnis á ævinni, æ ofan í æ, borgað skatta af krónunum sem það varði til þess að koma sér upp húsnæði einhvern tíma á sínum ungu dögum. Fyrst borgar fólkið skatt af tekjunum sem það vinnur sér inn til að kaupa fasteignina, við byggingu hússins eru borguð ýmis gjöld til viðkomandi sveitarfélags sem þá voru innheimt og voru að vísu notuð til annars á sínum tíma en um er talað í þessari till., svo og ýmiss konar annar fastur kostnaður. Auk þess hefur því miður sú orðið raunin á, að ríkisstjórnir hafa fallið í þá freistni að nota þessa ráðdeildarsemi borgaranna sem gjaldstofn og innheimt æ ofan í æ gjöld af fólki sem fyrir löngu er búið að borga þá eign sem liggur til grundvallar gjaldinu. Ég held að slík gjöld á fasteignir séu eitthvert ranglátasta fyrirbrigði sem við getum fundið í allri skattheimtunni. Það er nógu slæmt, að þegar í þessum lögum, sem við erum að ræða um, sett voru vorið 1975 og fólu í sér heimild til að láta gatnagerðargjaldaheimildina verka aftur fyrir sig í 5 ár, — það er nógu slæmt, að slík heimild skuli vera þar fyrir hendi. Enn verra er þó og með öllu ótækt að afnema þessa takmörkun. Þetta atriði, herra forseti, gat ég ekki látið hjá líða að leggja sérstaka áherslu á og láta koma fram að hér tel ég vera um mikið grundvallaratriði að ræða sem Alþ. lætur sér vonandi ekki til hugar koma að samþykkja.