23.04.1979
Efri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4093 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér er um mjög flókið og veigamikið mál að ræða, og þar sem ég á sæti í þeirri n., sem um það mun fjalla, þykir mér ástæða til að leita nokkurra frekari upplýsinga hjá hæstv. ráðh. Mér sýnist það geta skipt máli til þess að við getum betur unnið það starf sem okkur er ætlað í n. við umfjöllun málsins. Því miður hefur mér þó ekki gefist kostur á að athuga þetta stóra mál nægilega vel til þess að geta fjallað um það nákvæmlega, en við fljóta skoðun rek ég strax augun í nokkur atriði, sem teljast mega þó smá í samanburði við stærð málsins sjálfs.

Það er fyrst atriði sem ég sé í 3. gr., þar sem fjallað er um makalífeyri og réttindi sambúðarfólks í því sambandi. Í síðustu mgr. 3. gr. er tekið fram að umsjónarnefnd hafi samkv. 17. gr. heimild til að úrskurða sambúðarfólki makalífeyri eins og um hjúskap hafi verið að ræða, enda hafi sambúð staðið um árabil. Þetta virðist vera ákaflega óljóst og þyrfti skýrara ákvæði. Það hlýtur að geta orðið dálítið örðugt fyrir aldrað sambúðarfólk að standa í því að sanna að sambúðin sé nægilega trygg og varanleg að dómi umsjónarnefndarinnar til þess að sambúðarfólkinu hlotnist þau fríðindi sem um er fjallað í þessu frv. Það eru nokkur skýr ákvæði um slíkt í tryggingalögum, og sams konar ákvæði væru að nokkru leyti nothæf í þessu máli, en e. t. v. ekki að öllu leyti sambærileg.

Í 6. gr. frv. sé ég að í 1. mgr. er ráðgerður sá möguleiki, að grundvöllur stigaútreiknings verði kannske ónothæfur síðar meir að dómi ráðh. Þá er í þessari grein gert ráð fyrir að ráðh. geti ákveðið annan stigagrundvöll að fengnum tillögum umsjónarnefndarinnar og sé þar með ekki bundinn við till. umsjónarnefndar eftir þessari frvgr. Þarna virðist dálítið óljóst hvað ráðh. er ætlað að gera. Ef það er ástæða til að lögbinda hver grundvöllur stigaútreiknings á að vera, þá sé ég ekki að sé skynsamlegt að taka þá lögbindingu aftur í síðari hluta sömu mgr. með því að fá ráðh. einfaldlega vald til að breyta því öllu saman, ef honum sýnist svo. Það er þá eðlilegra að því sé breytt með lögum.

Í 14. gr. frv. er talað um hvernig hugsanleg réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum eða úr ríkissjóði eða opinberum sjóðum geti komið til frádráttar þeim réttindum sem mönnum eru ætluð samkv. þessu frv. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. talaði um að í flestum tilvikum mundu réttindi og bætur, sem fólk öðlaðist samkv. þessu frv., verða innan frítekjumarksins þannig að það skerti ekki af þeim ástæðum réttindi til bóta frá almannatryggingum. Þá spyr ég: Hefur það verið hugsað, hvort ástæða sé til að láta þá aðra, sem kynnu að verða fáir, en hefðu þó samkv. þessum lögum réttindi sem væru e. t. v. eitthvað örlítið ofan við frítekjumarkið, — á að láta þetta reiknast til frádráttar bótum almannatrygginga eins og gert yrði með aðrar tekjur? Ekki er alveg víst að sanngirnissjónarmið mæli með því.

Það eru mörg veigamikil og flókin atriði í þessu frv. sem vissulega væri ástæða til þess að ræða, enda er þetta samið af nefnd sem skipuð var til þess að vinna mjög viðamikið og flókið verkefni. Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvað líði störfum þeirrar nefndar. Eru væntanleg önnur veigamikil lagafrv. um heildarendurskoðun lífeyriskerfisins frá þeirri nefnd? Það hefði þurft að koma fram líka í þessari umr., hverjir séu í lífeyrisnefndinni. Að vísu getum við flett því upp í hinni opinberu nefndaskrá, en það er eðlilegt að það liggi fyrir í umr. hverjir séu í nefndinni og hverjir séu í litlu nefndinni — 7 manna nefndinni — og helst hverjir voru í starfshópnum sem er undirnefnd 17 manna nefndarinnar og vann þetta frv. Og enn væri æskilegt að það lægi fyrir, og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hverjir voru fulltrúar ríkisstj. Þetta eru atriði sem gott er að komi fram til þess að auðveldara verði fyrir hv. þm. að leita sér upplýsinga frá meðlimum þessara nefnda beint. Getur í því falist vinnusparnaður og flýtisauki þegar um er að ræða jafnflókið mál.

Að því er varðar hið veigamikla atriði tekjuöflunarleiðirnar kom það fram hjá hæstv. ráðh. að fulltrúar ríkisstj. voru andvígir þeirri leið sem bent er á í fskj. I. Þeir voru andvígir tillögu I um fjáröflun, en hins vegar samþykkir tillögu II. Á því má telja að liggi fyrir eðlileg skýring í þessu skjali, því að þarna munar hvorki meira né minna en milljarði fyrir ríkissjóð, en alls er gert ráð fyrir að fyrirtækið kosti 3 milljarða 755 millj. Þarna er um gífurlegan mun að ræða. Eðlilegt er að spurt sé hverjir þessir fulltrúar hæstv. ríkisstj. voru, þannig að þeir geti skýrt betur sjónarmið sín fyrir n. sem um málið fjallar. Fyrir þyrfti að liggja frá hæstv. ráðh., hvort hinn gífurlegi munur á milli leiða, sem er yfir 20% — um það bil 23% —, þýði að ekki sé ætlun ríkisstj. að koma þessu frv. í gegnum deildir Alþingis og gera það að lögum.

Eitt lítið atriði langar mig til að nefna enn. Það var í sambandi við lítið dæmi sem hv. 3. þm. Norðurl. e. nefndi, um öldruðu hjónin sem bæði hefðu verið opinberir starfsmenn. Hv. þm. spurði, hvort það væri svo, að aðeins annað fengi eftirlaun. Í þessu sambandi má líka vekja athygli á öðru til þess að hægt verði að hugleiða hvort unnt er að bæta úr. Öldruð hjón, sem bæði hafa verið opinberir starfsmenn, og jafnvel þótt þau hefðu ekki verið opinberir starfsmenn, geta staðið frammi fyrir því um leið og þau láta af störfum, hætta að hafa launatekjur og fara að fá tryggingabætur, sem þau hafa keypt sér með einum eða öðrum hætti, að um leið hækki gjöld þeirra til hins opinbera. Þetta verður vegna þess að bætur trygginga teljast ekki tekjur samkv. skattalögum með sama hætti og launatekjur. Niðurstaðan getur orðið þessi: Eftir að raunveruleg laun lækka vegna þess að fólk lætur af störfum og er orðið aldrað leggst um leið á það þyngri skattbyrði. Það eru e. t. v. ekki mörg dæmi um þetta, en þetta er til og sýnist vera full ástæða til þess að hafa einmitt þessa hlið máls í huga um leið og fjallað er um eftirlaunarétt aldraðra. Á þessu vildi ég vekja athygli hæstv. ráðh.

Það eru ekki fleiri atriði, herra forseti, sem ég ætlaði að nefna í þessu sambandi. Þess verður kostur við 2. umr., þegar unnið hefur verið að málinu í n., og þess vegna mun ég ekki taka tíma hv. d. frekar nú til þess að ræða þetta mál.