23.04.1979
Efri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4100 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, hvort fjáröflunarleiðin gæti samkv. þessu frv. verið í ósamræmi við samkomulag sem gert var milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins 1977. Hann kvað svo ekki vera og honum væri ekki kunnugt um að samið hefði verið um ákveðna leið við framkvæmd þessa atriðis. Ég vil ekki véfengja þessi orð hæstv. ráðh., en mér skilst að þegar aðilar vinnumarkaðarins, samþykktu það, sem enginn ágreiningur var um, að lífeyrissjóðir skyldu greiða 5% af iðgjaldatekjum sínum til þess að standa undir hluta kostnaðar vegna bótaákvæðanna, hafi þessi samþykkt af þeirra hálfu verið gerð á þeirri forsendu að fjáröflunarleið nr. 1 væri farin.

Mér kemur til hugar í sambandi við síðustu orð hæstv. ráðh. í ræðu þeirri, sem nú er nýlokið, hvort það standi eitthvað í sambandi við það, sem hann sagði, að sumir ráðh. hefðu fyrirvara um að lækka 5% niður í 4%. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég hef tjáð mig áður um það.

Ég vil aðeins að gefnu tilefni víkja að Jöfnunarsjóðnum. Hér innleiddi hv. 5. þm. Vesturl. umr. um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og það ákvæði í fjáröflunarleið nr. II, sem frv. gerir ráð fyrir, að greitt verði úr Jöfnunarsjóði til þess að standa undir þessum bótum. Ég er alveg sammála þeim rökum sem hv. 5. þm. Vesturl. kom fram með í þessu sambandi, að það væri ekki bætandi á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga byrðum. Það má líka segja að maður geti verið sammála því sjónarmiði hv. 3. þm. Norðurl. e., að ekkert sé óeðlilegt að Jöfnunarsjóðurinn standi undir þessum greiðslum. En hann tók jafnframt fram, að það gæti líka orðið einhver annar aðili á vegum sveitarfélaganna. Það, sem er aðalatriðið í þessu og mér virðist að þurfi sérstaklega að afhuga, er það, að með hvaða hætti sem þessar byrðar eru lagðar á sveitarfélögin er ekki raunhæft að gera það nema færa sveitarfélögunum nýja tekjustofna eða tekjur á móti. Ég þykist vita að æðsti yfirmaður sveitarfélaganna í landinu komi til með að virða þetta sjónarmið.