18.10.1978
Efri deild: 3. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. segir: „Til þess að koma í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna verður þegar í stað framkvæmd 15% gengislækkun, enda verði áhrif hennar á verðlag greidd niður.“

Í samræmi við þessa stefnu ákvað Seðlabanki Íslands 15% lækkun á gengi krónunnar til þess að bæta stöðu útflutningsatvinnuveganna og viðskiptastöðu landsins út á við. Og vegna þeirrar ákvörðunar voru svo 5. sept. s.l. gefin út þau brbl. sem hér er flutt um frv. til l. í því skyni að þau hljóti staðfestingu þingsins.

Um efni þessa frv. get ég verið stuttorður. Það er samhljóða lögum þeim sem jafnan hafa verið samþ. við lækkun á gengi krónunnar. Ég vil þó sérstaklega nefna 3. gr. frv., þar sem mælt er fyrir um ráðstöfun gengismunarsjóðs. Þar segir að „50% af því, sem kemur í gengismunarsjóð af andvirði frystra sjávarafurða, saltfisks, verkaðs, óverkaðs og flaka, skreiðar, fiskimjöls, loðnumjöls og loðnulýsis, skuli renna til viðkomandi deilda Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, en andvirði saltsíldar skal verða stofnfé deildar fyrir saltsíld.“ Í lögum frá 9. febr. 1978 um sama efni var ákveðið að 65% af því, sem kæmi í gengismunasjóð af andvirði þessara afurða, skyldu renna til viðkomandi deilda Verðjöfnunarsjóðs. Nú er aftur á móti, eins og ég var að lesa, ákveðið að það skuli vera 50%. Þess vegna ber að geta í þessu sambandi, að 19. sept s.l. var gefin út reglugerð fyrir Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins þar sem stofnuð er deild fyrir saltsíldarafurðir innan hans.

Í b-lið 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að af þeim helmingi af andvirði fyrrgreindra sjávarafurða, sem ekki rennur til Verðjöfnunarsjóðs úr gengismunarsjóði, auk andvirðis annarra sjávarafurða, skuli 50% varið til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði og 50% varið til að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa skv. nánari reglum. Þær reglur voru settar með reglugerðum sem gefnar voru út af sjútvrh. 22. sept. s.l.

Skv. lögum um sama efni frá því í febr. s.l., sem ég minntist á áðan, var 35% af gengismunarfé varið til hagræðingar í fiskiðnaði og til að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa, á móti 50% nú.

Að þessu einu leyti til, að því er varðar skiptingu á þessu fé sem kemur í gengismunarsjóð, held ég að þetta sé frábrugðið frv. frá því í febr. s.l. um þetta efni.

Þessi brbl., sem hér er óskað staðfestingar á, og það frv., sem flutt er þeim til staðfestingar, eru gefin út af forsrh. Ég flyt það af þeim ástæðum að þarna er um að ræða efnisákvæði sem heyra undir fleiri ráðh. en einn. Þá er það venja að forsrh. flytji málið þó að efni þess heyri að öðru leyti öðrum rn. til.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska eftir því, að þessu frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.