06.11.1978
Efri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það ber vissulega að fagna þeim undirtektum sem meginefni þeirrar till., sem Hannes Baldvinsson og Helgi F. Seljan hafa flutt, hefur fengið við umr. í deildinni. Ég held að allir séu sammála um það, að framkvæmdir af þessu tagi eru veigamikill þáttur í þeirri almennu jafnréttisbaráttu og lífskjarabreytingu sem við viljum beita okkur fyrir og útrýmingu á þeim mismun sem nú ríkir milli ákveðinna byggðarlaga á landinu.

Tilefni þess, að ég stóð hér upp, var ekki að fara fleiri orðum um nauðsyn þessa máls en þegar hefur verið gert, en vil leggja áherslu á sérstakan stuðning við efni till. Það, sem varð til þess að ég kvaddi mér hér hljóðs, var að tveir síðustu ræðumenn notuðu þann tillöguflutning, sem hér er til umr., til þess að koma á framfæri þeim áróðurssöng gagnvart aðgerðum ríkisstj, í baráttunni gegn verðbólgunni sem felast í þeirri nýju skattlagningu sem brbl. voru sett um s.l. haust.

Ég ætla ekki að fara að gera þessa till. að tilefni ítarlegrar umr. við þessa tvo ágætu hv. þm., Ragnhildi Helgadóttur og Jón G. Sólnes, um þessa skattlagningu. En ég vil mælast til þess, að áður en þm. Sjálfstfl., a.m.k. í þessari deild, halda áfram málflutningi af þessu tagi, þá kynni þeir sér skattalög sem þeir sjálfir settu á síðasta þingi og voru af hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, þáv. fjmrh., talin eitt helsta afrekið í hans ráðherratíð. Hann vann að þessu frv. mörg þing, og það var mikill spenningur hér í þingsölum og meðal þjóðarinnar, hvort honum tækist að koma þessu afreki sínu í höfn áður en kjörtímabilið væri á enda. Þetta var eitt af þeim fyrstu verkum, sem boðuð voru í tíð þeirrar ríkisstj., og það tókst. Ég man ekki betur en í málflutningi Sjálfstfl. fyrir kosningar væri þetta frv. talið til einna helstu afreka síðustu ríkisstj. og þá sérstaklega þess ágæta fjmrh. sem í henni sat.

Ábending mín er til komin vegna þess, að þótt núv. ríkisstj. hafi vissulega lagt á viðbótarskatta, þá hefur hún ekki enn þá náð því skattlagningarhámarki sem felst í þessu frv. Ef ýmsir aðilar í þessu þjóðfélagi hefðu átt að borga nú seinni hlutann á þessu ári, t.d. félög, ýmiss konar skatta af eignum sínum rekstri, þá væru þeir mun hærri en núv. stjórn hefur þegar lagt á. Núv. ríkisstj. hefur þess vegna ekki enn þá komist upp í þann skattlagningarþunga sem þessir ágætu þm. voru ánægðir með að samþykkja á síðasta þingi, þótt það sé að vísu rétt, að hann átti ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári samkv. ákvæðum frv. Svona málflutningur ber frekar keim af lýðskrumi heldur en ábyrgri umræðu um skattamál í þjóðfélaginu, þ.e. að grípa þetta tilefni, sem gefið er með þessari till., til þess að flytja fram skoðanir af þessu tagi, þegar haft er í huga það skattafrv, sem hv. þm. stóðu sjálfir að hér s.l. vor.

Það kom fram hjá fjmrh. fyrir nokkru á Alþ., að hann benti rækilega á þessa staðreynd, og ég hélt satt að segja að sú ábending hefði nægt til þess, að fulltrúar Sjálfstfl. færu sér hægt í þeim fullyrðingum, a.m.k. hér á Alþ., sem hægt er að lesa í málgögnum flokksins, enda hefur ekki verið andmælt þeirri skoðun fjmrh., að skattlagningarbyrðin, sem felst í sumum þáttum þess frv. sem afgreitt var hér s.l. vor, sé með tilliti til þeirra fyrningarreglna og annarra ákvæða, sem í lögunum eru, meiri en felst í þeim brbl. sem núv. ríkisstj. setti. Þetta er staðreynd, sem ekki er hægt að mótmæla, og ég held, að það sé rétt að hún komi fram hér aftur, þótt fjmrh. hafi gert grein fyrir henni á sínum tíma.

Það er vissulega rétt, að ríkisstj. lagði á nokkra viðbótarskatta sem lið í baráttunni gegn verðbólgunni. Hún reyndi að dreifa þeirri skattbyrði sanngjarnt, og ég tel alls ekki að þær aðgerðir séu tilefni til þess að afneita möguleikum á framkvæmd þeirrar ágætu hugmyndar sem í þessari till. felst, eins og tveir síðustu hv. ræðumenn virtust gera. Og það gildir eiginlega hið sama um ummæli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um eignarskatt. Ef það væri rétt, að sá eignarskattsauki, sem lagður var á, gæfi tilefni til þeirra ummæla, þá ætti eignarskatturinn sjálfur í heild sinni að vera fordæmanlegur á sama hátt. Það var ekki í þessum aðgerðum lagður eignarskattur á neina aðila sem ekki báru hann fyrir. Það var ekki lagður eignarskattur á neina aðila sem síðasta hæstv. ríkisstj. lagði ekki eignarskatt á. Öll stóru orðin um ranglæti þessa skatts voru ekki höfð uppi þegar síðasta ríkisstj. var að leggja eignarskatt á nákvæmlega sömu aðila. Það má hins vegar deila um það, hvort hefði átt að auka eignarskattinn um þau 50% sem þarna var gert, og það getum við vissulega rætt hér. En mér finnst það einum of áróðurskennt að fara nú allt í einu, eftir að sömu þm. hafa á undanförnum árum staðið að því að nota þennan skatt í ríkum mæli til tekjuöflunar, að fordæma hann þá eins og gert var hér áðan. Mér finnst það bera keim af því, að um leið og menn flytja sig frá stjórnarsæti í stjórnarandstöðusæti, þá skipti menn um skoðanir. Ég held að það sé óhollt fyrir álit manna á lýðræðislegum stofnunum þessa lands og lýðræðislegum stjórnarháttum á Íslandi, að þeir, sem kjörnir hafa verið til þess að sitja í hinum lýðræðislegu stofnunum og fara þar með fulltrúavald þjóðarinnar, skipti svo snögglega um skoðanir eftir því hvort þeir eru með eða móti ríkisstj. hverju sinni.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að skattlagning á eldra fólki, ellilífeyrisþegum, er vandamál í þróuðum þjóðfélögum af okkar tagi. Það er að vísu ekki tími til þess né eðlilegt í umr. um það mál, sem hér er á dagskrá, að fara ítarlega út í það mál. En ég vil aðeins láta það koma hér fram, að í Danmörku, þar sem þessi mál hafa verið rækilega könnuð, hafa menn komist að þeirri niðurstöðu, að vænlegasta leiðin til að glíma við þetta tæknilega vandamál, þ.e. hvernig hin almenna skattlagning kemur niður á ellitifeyrisþegum, sé ekki fólgin í aðgerðum með skattalögum, heldur fólgin í hækkun ellilífeyrisins sjálfs og það sé vænlegri aðferð til að komast fram hjá þeim erfiðleikum sem þarna eru á ferðinni, því misrétti sem oft getur komið upp, heldur en reyna að gera það eftir leiðum skattalaganna sjálfra. Hugmyndir um að nálgast þetta vandamál, þetta misræmi í skattlagningu ellilífeyrisþega í sambandi við ellilífeyrinn sjálfan, í stað þess að gera það með skattalögum, finnst mér að þurfi að koma til athugunar hér á Alþ. ásamt þeim einstöku brtt. við brbl. sem settar hafa verið fram.

Varðandi niðurfellingu söluskatts, þá er vissulega rétt að orðræður sérfræðinga um það mál á undanförnum árum reyndust sem betur fer ekki réttar. Það kennir okkur að í þeim efnum sé a.m.k. varasamt að trúa öllum fullyrðingum sem þar komu fram, þótt rétt sé einnig að hafa í huga að þá var eingöngu um að ræða niðurfellingu söluskatts á kjöti, en hann ætti að standa á öðrum matvörum. Með tilliti til eðlis verslunarhátta hér í þessu landi, að almennar matvörur og kjötvörur eru yfirleitt seldar í sömu sérverslunum, var niðurfelling á þessu í heild mun auðveldari í framkvæmd heldur en ef einstakir vöruþættir hefðu verið teknir út úr.

Ég gat ekki stillt mig um það, vegna þess hve umr. um þetta mál var notuð til þess að koma hér á framfæri að mínu viti frekar grunnhugsuðum áróðursfullyrðingum gagnvart skattastefnu núv. ríkisstj., að benda aðeins á nokkur atriði í þessu sambandi, án þess að ég skoði það sem tilefni til þess að nota þessa ágætu till. til almennra umr. um skattastefnu ríkisstj. svo og þeirrar ríkisstj, sem hér sat s.l. 4 ár.