23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4101 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er lagt fram að ósk dómenda Hæstaréttar. Það hefur, eins og fram kom hjá hæstv. forseta, verið afgreitt í Ed.

Í grg. með frv. kemur fram að lítil fjölgun hefur orðið á starfsmönnum Hæstaréttar síðustu áratugi. Dómurum hefur t. d. aðeins fjölgað um einn frá árinu 1945. Álag á Hæstarétt hefur aftur á móti stóraukist hin síðari ár, og nærri lætur að 250 málum sé nú skotið til réttarins að meðaltali á ári hverju. Á milli 120–130 af þessum málum eru tekin til efnisúrlausnar. Þetta er mikið álag á dómstól sem er skipaður fáum dómurum og hefur þar að auki á að skipa litlu starfsliði öðru. Er nú svo komið að það mun taka á að giska eitt ár að fá úrlausn á venjulegu einkamáli eftir að málið er komið á málflutningsstig. Það er of langur tími, bæði að mati hæstaréttardómara og hæstaréttarlögmanna. Í flestum æðstu dómstólum á Norðurlöndum er talið að ekki líði lengra en 6 mánuðir frá því að einkamál kemst á málflutningsstig og þar til úrlausn fæst. Ber því tvímælalaust að stefna að því takmarki hér á landi, en vonlaust er að ná því marki að mati hæstaréttardómaranna sjálfra án þess að hæstaréttardómurum verði fjölgað og starfsaðstaða þeirra bætt.

Það skal tekið fram, að yfirleitt er engin töf á því að úrlausn fáist í Hæstarétti í sakamálum. Slík mál eru látin sitja í fyrirrúmi og yfirleitt tekin til meðferðar mjög fljótlega eftir að ágrip af dómsgerðum berast Hæstarétti. Gerð dómságripa getur hins vegar tekið allnokkurn tíma ef mál eru mjög viðamikil.

Í frv. því, sem ég fylgi hér úr hlaði, er lagt til að bætt verði við einum dómara í Hæstarétti og dómurum þannig fjölgað úr 6 í 7. Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir að 3 dómarar skipi dóm í kærumálum nema þau séu sérstaklega vandasöm úrlausnar. Með þessu móti er rýmkuð heimild sú sem tekin var upp í lög um Hæstarétt árið 1973, þess efnis að 3 dómarar geti skipað dóm í minni háttar dómsmálum. Þessi breyting var einkum gerð í þeim tilgangi að hraða dómsúrlausnum, þar eð búast mætti við að fleiri mál yrðu dæmd á ári hverju ef slíkri deildaskiptingu yrði við komið. Þessi heimild hefur verið allmikið notuð hin síðari ár, í þriðja til fjórða hverju máli.

Með því að fjölga hæstaréttardómurum um einn og rýmka þriggja dómara heimildina ætti að skapast möguleiki á því, að dómurinn fjalli um kærumál svo og minni háttar einkamál og sakamál í tveimur þriggja dómara deilum. Yrði það tvímælalaust til að hraða málsmeðferð almennt fyrir dómstólnum.

Í þriðja lagi er lagt til í frv. að áfrýjunarfjárhæð verði hækkuð úr 25 þús. kr. í 200 þús. kr. Hér er um að ræða nokkru meiri hækkun en nemur þeim breytingum á kaupgjaldi og verðlagi sem orðið hafa frá árinu 1973, þegar áfrýjunarfjárhæð var síðast breytt. Með þessu móti er komið í veg fyrir að smæstu dómsmál geti gengið sjálfkrafa til Hæstaréttar. Rétt er þó að benda á að dómsmrh. getur beitt áfrýjun máls þótt sakarefni nemi ekki áfrýjunarfjárhæð, ef úrslit málsins eru mikilvæg frá almennu sjónarmiði eða varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni aðila og Hæstiréttur mælir með því. Fleiri leiðir en þær, sem fram koma í frv., eru að sjálfsögðu hugsanlegar til að hraða málsmeðferð fyrir Hæstarétti og draga úr þeim mikla fjölda mála sem nú er skotið til dómsins. Ein leiðin er án efa sú að hækka dráttarvexti af dómskuldum almennt, sem hefur verið töluvert til umr., og er frv. um það til meðferðar hér á hinu háa Alþingi. Ég hef reyndar látið kanna það mál sérstaklega með tilliti til hins lögfræðilega vanda sem því er tengdur, og virðist hann vera töluvert meiri en ég taldi í upphafi. En væntanlega verður á því breyting með nýju formi sem nú er ráðgert almennt í verðtryggingar- og vaxtamálum í landinu.

Önnur leið til að létta álagi af Hæstarétti er að bæta við nýju dómsstigi á milli héraðsdóms og Hæstaréttar, þannig að minni háttar dómsmálum verði að jafnaði ekki skotið til æðsta dómstóls þjóðarinnar. Í frv. til lögréttulaga, sem tvívegis hefur verið lagt fram á Alþ., er gert ráð fyrir þessari breytingu á dómstólaskipan í landinu. Verði sú breyting ofan á má ætla að verulega megi draga úr álagi því sem nú hvílir á Hæstarétti. Hins vegar vil ég geta þess, að lögréttufrv. er nú í enn einni ítarlegri athugun hjá réttarfarsnefnd og hafa nýir menn verið kvaddir til að athuga það. Sérstaklega hef ég talið nauðsynlegt að gera gleggri grein fyrir því en áður var ljóst, hvaða kostnaður fylgi slíkum nýjum dómstól. Grunur minn er sá, að hann muni reynast töluvert meiri en áður var talið. Ég stefni hins vegar að því, að ákveðið verði fyrir haustið hvort lögréttufrv., eins og það er nú eða breytt, verði þá lagt fyrir Alþ. Af þessari ástæðu er m. a. aðeins gert ráð fyrir fjölgun um einn hæstaréttardómara í því frv. sem nú er lagt fyrir. 7 hæstaréttardómarar anna hins vegar ekki til frambúðar þeim mikla fjölda mála sem fyrirsjáanlegt er að skotið verður til Hæstaréttar að óbreyttri dómstólaskipan. Því sýnist mér líklegt, að nái ekki frv. til lögréttulaga fram að ganga eða ákveðið verði að stofna ekki til slíks dómstóls, muni reynast nauðsynlegt að fjölga dómurum í Hæstarétti frekar en gert er ráð fyrir í þessu frv. Skjótar úrlausnir af hendi dómstóla eru hið mesta keppikefli hverju réttarríki, enda sé réttaröryggis í hvívetna gætt við úrlausnir dómsmála. Ber brýna nauðsyn til að búa Hæstarétti starfsaðstöðu til þess að leysa með skjótum og öruggum hætti úr þeim mikla fjölda mála sem þangað er skotið. Þetta frv. stefnir að því, og þess vegna er von mín að það geti sem fyrst náð fram að ganga.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.