23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4103 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstj., er viðurkenning á því, að það þurfi að bæta vinnuaðstöðu og vinnuafl Hæstaréttar til þess að vinna bug á þeim seinagangi og öryggisleysi sem ríkir nú í réttarfarsmálum Íslendinga. Ég tek alveg undir þetta viðhorf. Það er óverjandi í þjóðfélaginu hversu einstaklingar þurfa að bíða lengi eftir úrskurði mála hjá þessum æðsta dómstól þjóðarinnar. Ég styð því þetta frv. og tel það spor í rétta átt.

En það er eitt atriði sem ég vil vekja máls á, og þess vegna er ég nú kominn í þennan ræðustól. Ég hef aldrei skilið það, eftir hvaða reglum hæstaréttardómarar eru valdir eða skipaðir. Hvað ræður því hver er valinn til þess að gegna þessari virðulegu stöðu eða embætti í þjóðfélaginu? Efalaust er það oftast hæfni manna. En ég er ekki frá því að stundum komi þarna upp pólitísk viðhorf. Til þess að tryggja að ekki séu pólitískar veitingar í svona mikilvægum stöðum, þá tel ég alveg sjálfgefið mál, að það eigi í hverju tilviki, þegar hæstaréttardómari er ráðinn, að skipa dómnefnd sem meti hæfni umsækjanda. Þetta tíðkast t. d. við Háskóla Íslands. Það er talið sjálfsagt mál að menn séu metnir eftir störfum þeirra og vinnubrögðum, hvort þeir séu hæfir til þess að gegna viðkomandi embætti. Nú er enginn vafi á því, að hæstaréttardómarar eru enn virðulegri menn í þjóðfélaginu heldur en prófessorar, og á þeim hvílir að sjálfsögðu gífurleg ábyrgð. Þess vegna tel ég alveg sjálfsagt mál að það sé skipuð dómnefnd til þess að meta hæfni umsækjenda. Þessi dómnefnd mætti vera skipuð t. d. tveimur hæstaréttardómurum og einum lagaprófessor eða eftir einhverjum slíkum leiðum.

Ég vil endilega beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, hvort ekki megi finna skynsamlega leið til skipunar dómnefndar þegar hæstaréttardómarar eru valdir, og tel að þar með væri girt fyrir pólitískar veitingar þessara mikilvægu embætta með þjóðinni.