23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4104 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. Ég hef kynnt mér starfsaðstöðu Hæstaréttar að sjálfsögðu. Ég er honum alveg sammála: Þar þarf að bæta verulega um, ekki bara í vélritun, heldur ýmsu öðru. Þeir vélrita ýmsir sjálfir þar, dómararnir. Hitt er svo annað mál, að dálítið hefur verið um það deilt, hvort aðstoð lögfræðinga gæti verulega létt störfum hæstaréttardómara, og þeir eru sjálfir ekki sammála um það, að því er mér heyrist. Að sjálfsögðu verður dómarinn sjálfur að setja sig vel inn í mál, og enginn getur gert það fyrir hann. En þó er nú í undirbúningi fyrir fjárlagagerð að fara fram á fjölgun í Hæstarétti. Einkum er verið að tala um að fá heimild til að ráða þar skrifstofustjóra, þannig að ritari Hæstaréttar geti snúið sér meira en hann getur nú einmitt að þeim undirbúningi sem hv. þm. nefndi. Þetta er mjög mikilvægt mál og þyrfti að feta sig áfram á þeirri braut. En ég stend hér fyrst og fremst upp til að taka undir þetta.

Um skipun hæstaréttardómara hef ég frá engri reynslu að segja. Ég held að farið sé eftir hæfni manna mjög mikið, og að því er ég best veit hefur Hæstiréttur sjálfur ákaflega mikið um það að segja. Ég hygg að ávallt sé leitað umsagnar Hæstaréttar og yfirleitt farið eftir slíkri umsögn. Ég efast satt að segja um að önnur dómnefnd sé færari um slíkt heldur en Hæstiréttur, enda kom fram í orðum hv. 2. landsk. þm., ef ég tók rétt eftir, að í slíkri nefnd gætu verið skipaðir hæstaréttardómarar. Því virðist mér þessa gætt. Þó er sjálfsagt að athuga hvort um megi bæta.