23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4106 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta er samið og flutt til þess að draga saman í ein lög öll meginákvæði um landhelgi og lögsögu lýðveldisins Íslands á hafinu umhverfis landið og á landgrunninn og lögfesta í þágu Íslands enn ný réttindi á þessu sviði með hliðsjón af þróun þjóðaréttar að undanförnu. Aðalhöfundur þessa frv. er Hans G. Andersen ambassador, sem hefur verið fremsti sérfræðingur Íslendinga í landhelgismálum um langt skeið, en auk þess unnu menn í utanrrn. að frágangi málsins í samstarfi við hann.

Þetta frv. var lagt fyrir landhelgisnefnd, en í henni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, og gerðu nm. ýmsar góðar aths. sem teknar voru til greina áður en frv. var flutt. Þó vil ég taka fram að nm. landhelgisnefndar eru þrátt fyrir það á engan hátt bundnir texta frv. eins og hann er.

Í þessu frv. felast eftirfarandi aðalatriði:

1. Sjálf landhelgin, en með því hugtaki er átt við það hafsvæði þar sem ríkið hefur fullveldisrétt hliðstæðan og yfir landinu, er færð úr 4 mílum í 12 mílur. Þessu fylgja hvers konar réttindi í sambandi við tollamál, heilbrigðismál, lofthelgi og fjöldamargt annað.

2. Fiskveiðilögsaga hefur síðan 1975 verið 200 sjómílur og var það ákveðið með reglugerð sem byggðist á landgrunnslögunum frá 1948, eins og verið hefur um aðrar útfærslur. Með þessum lögum mundi verða lögfest 200 mílna efnahagslögsaga, sem er nokkru víðtækara hugtak en fiskveiðilögsaga.

3. Auk þess að fiskveiðilögsagan er á þennan hátt staðfest fær Ísland með 200 mílna efnahagslögsögu yfirráð yfir vísindarannsóknum á hafinu umhverfis landið að því marki.

4. Þessu til viðbótar tekur Ísland sér 200 mílna mengunarlögsögu og veitir það íslenskum stjórnvöldum rétt til þess að gera ráðstafanir til að vernda hafið umhverfis landið fyrir mengun eða líklegri mengun að þeim mörkum.

5. Með efnahagslögsögu tryggir Ísland sér allan rétt til þess að ráða byggingu mannvirkja eða afnot af þeim innan 200 mílna, en það getur haft verulega þýðingu í framtíðinni í sambandi við hugsanlega olíuvinnslu eða ýmiss konar rannsóknir.

6. Með frv. þessu eru ítrekuð reglugerðarákvæði um miðlínur milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja, en ákvæði um framkvæmd 200 mílna fiskveiðilögsögu gagnvart Jan Mayen frá 1975 er fellt niður. Þetta ákvæði, sem er á þá lund að við mundum fyrst um sinn aðeins framfylgja fiskveiðilandhelginni að miðlínu móti Jan Mayen, var sett til bráðabirgða þar til annað yrði ákveðið og mjög skýrt tekið fram af þáv. sjútvrh., að með því afsalaði Ísland sér engum rétti. Nú er þróun mála gagnvart Jan Mayen komin á það stig, að telja verður tímabært að fella þetta bráðabirgðaákvæði niður.

Við erum nú þegar búin að vinna hina miklu sigra í landhelgisbaráttunni með útfærslunum í 4 mílur, í 12 mílur, í 50 mílur og í 200 mílur, og þarf ekki að rekja þá miklu sögu, sem þeirri þróun hefur fylgt, né þá hörðu baráttu sem íslenska þjóðin háði til þess að ná þessum markmiðum og gerði það sem forustuþjóð, var meðal þeirra fyrstu sem framkvæmdu það sem nú er að verða eða orðinn almennt viðurkenndur þjóðaréttur. Þessar útfærslur hafa, eins og ég áður nefndi, verið gerðar með reglugerðum sem sjútvrh. hafa gefið út og byggst hafa á landgrunnslögunum, og mun alla tíð hafa verið ætlunin að sett yrði heildarlöggjöf þegar tímabært þætti.

Nú er svo komið, að á vettvangi Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hófst árið 1973 eftir margra ára undirbúning, hefur náðst víðtæk samstaða um rétt strandríkja til 12 mílna landhelgi þar sem strandríkið hefur fullveldisrétt nálega hliðstæðan því sem það hefur yfir landi sínu. Þá hefur einnig náðst samstaða um 200 mílna efnahagslögsögu þar sem miðað er við víðtækar heimildir strandríkis yfir auðlindum sjávar undan ströndum. Þar við má bæta víðtækri samstöðu um rétt strandríkis yfir landgrunni, landgrunnsbrekku og landgrunnshalla allt að endamörkum landgrunnssvæðisins, þótt enn sé óútkljáð mál hvernig þau endamörk verða að lokum ákveðin, en það þarf ekki að skipta máli varðandi þessa meginlöggjöf.

Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefur enn ekki lokið störfum að þessu sinni, og er of snemmt að fullyrða hver árangur verður af þeim fundum sem nú hafa staðið yfir. Hinir bjartsýnni menn á ráðstefnunni í Genf gera sér enn verulegar vonir um að unnt verði að leggja fram í lok þessa fundar ný drög að hafréttarsáttmála sem síðan verði fjallað um á einni ráðstefnu í New York n. k. sumar og málinu þar raunverulega lokið, en síðan gengið til undirskriftar á nýjum hafréttarsáttmála, væntanlega í Caracas í Venezúela, einhvern tíma á árinu 1980. Margir draga þó í efa, að þetta muni gerast á svo skömmum tíma, og telja, að enn geti tekið nokkurn tíma að ná fullnaðarsamkomulagi. En Íslendingar hafa nú um skeið verið meðal þeirra sem við hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi hafa hvatt til þess að gengið yrði rösklega til verks og Hafréttarráðstefnunni lokið, þannig að sem fyrst komist á nýr hafréttur sem væntanlega verður árangur margra ára starfs ráðstefnunnar.

Ég ítreka það, að tilgangur þessa lagafrv. er að lögfesta þær meginreglur sem nú liggja ljósar fyrir og skipta Íslendinga mestu máli. Það er sjálfsagt að hafa slíkar meginreglur saman í einni löggjöf sem ekki þarf að snerta oft við, en hafa hins vegar sérstaka lagahálka, t. d. um mengun sjávar, jafnvel um rannsóknir, enda geta slík mál, að ég ekki nefni fiskveiðimálin, verið þess eðlis að ástæða sé til að gera á þeim breytingar innan tíðar.

Frv. hefur verið undirbúið á þann hátt, að leitað hefur verið sem viðtækastrar samstöðu og því lýst yfir, að komist menn að þeirri niðurstöðu, að einhverju orðalagi eða jafnvel efnisatriðum megi breyta til hins betra, sé sjálfsagt að líta á það. Í þessum anda var frv. tekið í Ed. Var þar aðeins gerð ein breyting á 6. gr., nánast breyting á orðalagi og varla um merkingarágreining að ræða.

Hingað til hafa þingmál varðandi fiskveiðilögsöguna að sjálfsögðu farið til sjútvn. Þetta frv. er allmiklu viðtækara og í þeim búningi að ég tel rétt að það gangi til allshn., eins og var ákveðið í Ed. Hér er fjallað um fjöldamörg mismunandi atriði, sem felast í hinni væntanlegu 12 mílna landhelgi, í mengunarákvæðum, rannsóknarákvæðum og öðru, til viðbótar því sem snertir sjávarútveg og fiskveiðar, en um þá hlið málanna hefur þegar verið rætt meira hér á Alþ. en hinar og má segja að þar ríki í stórum dráttum almennt samkomulag.

Herra forseti. Ég vil leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.