23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4108 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. utanrrh. voru drög að þessu frv. til l. um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn lögð fyrir svokallaða landhelgisnefnd, sem ég á sæti í fyrir hönd míns flokks, og þar komu fram nokkrar aths. við þau drög þegar þau voru lögð fram. Þær aths. frá okkur einstökum nm. hafa verið teknar til greina við endanlegan frágang frv. og eru því í þessu frv. þegar það nú kemur til þessarar d. frá hv. Ed.

Ég fyrir mitt leyti er samþykkur þessu frv. Vitaskuld má deila um það, hvort á að leggja á það kapp að fá það afgreitt á þessu þingi eða bíða næsta þings, en ég fyrir mitt leyti tel enga ástæðu til að afgreiðsla þessa máls bíði næsta þings. Ég tel fulla ástæðu til að afgreiða frv. Þetta frv. er að mínum dómi vel úr garði gert og til þess mjög vandað og það felur í sér þá viðamiklu breytingu að stækka landhelgi Íslands úr 12 sjómílum, eins og 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, og hljótum við allir þm. að vera sammála um að nauðsyn sé að gera það og því fyrr því betra. Ég tel ekki rétt að bíða eftir úrslitum Hafréttarráðstefnunnar. Það er engin vissa fyrir því, hvenær alþjóðlegur hafréttarsáttmáli liggur fyrir. Við töldum fyrir 4–5 árum að hann yrði kominn löngu fyrir 1979, og hefðum með þessum rökum getað í margvíslegum aðgerðum, sem við höfum verið að framkvæma á undanförnum árum, alltaf byggt ákvarðanir okkar á því að bíða eftir ákvarðanatöku þjóðanna um alþjóðlegan hafréttarsáttmála. En Hafréttarráðstefnan hefur dregist á langinn, og við höfum enga vissu fyrir því, hvenær henni endanlega lýkur. Það hafa verið uppi áform um að ljúka þessari ráðstefnu nú ár eftir ár, en alltaf hafa komið upp ýmsir erfiðleikar í sambandi við margvísleg samskipti, erfið samskipti á milli þjóða, og það er að mínum dómi engin vissa fyrir því, hvenær alþjóðlegur hafréttarsáttmáli liggur fyrir. Því tel ég fyrir mitt leyti rétt að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum sérstaklega með tilliti til stækkunar sjálfrar landhelginnar, og eins eru í þessu frv. mun nánari ákvæði en nú eru um efnahagslögsögu, um landgrunn, afmörkun svæða á milli landa, ráðstafanir gegn mengun, sömuleiðis vísindalegar rannsóknir, sem er bæði gott, nauðsynlegt og skynsamlegt að hafa í einni og sömu löggjöf.

Eins og fram kom í máli hæstv. utanrrh. bendir hann á það, að með þessu frv. eru ítrekuð reglugerðarákvæði um miðlínu milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja, en ákvæði um framkvæmd 200 mílna fiskveiðilögsögu gagnvart Jan Mayen er fellt niður.

Fyrir okkur Íslendingum vakir að ná sem allra fyrst samningum við Norðmenn varðandi nýtingu hafsvæðisins milli Íslands og Jan Mayen. Það er vandasamt verk. Þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 12 mílur 15. júlí 1975 var ákveðið í reglugerð að miðlína milli Íslands og Jan Mayen gilti fyrst um sinn eða þangað til annað yrði ákveðið. Þegar sú reglugerð var gefin út var tekið fram af þáv. ríkisstj., að þetta ákvæði væri til bráðabirgða og gerði ekki það að verkum að réttur Íslands til 200 mílna fiskveiðilögsögu í átt til Jan Mayen væri skertur á einn eða annan hátt. Við þetta ákvæði hljótum við Íslendingar að halda okkur. Við höfum nú meiri hagsmuna að gæta á þessu svæði en við sáum 1975, þegar þessi reglugerð var gefin út. Þá voru ekki veiðar hér á sumarloðnu, þá var lítið vitað um þá loðnugengd sem hér væri að sumrinu. Síðan hefur komið í ljós að við höfum fiskað gífurlegt magn af loðnu hér út af Vestfjörðum og Norðurlandi og norðaustur í hafi, og í ljós hefur komið að þetta er sami loðnustofninn og er utan fiskveiðilögsögu Íslands norðaustur í hafi. Því er hér um sameiginlegt hagsmunamál okkar og Norðmanna að ræða, að ná sem víðtækustu samstarfi í þessum efnum. Hins vegar verður vafalaust ekki frá því hvikað, að við Íslendingar gerum mjög ákveðnar kröfur um að fá 200 mílna fiskveiðilögsögu í áttina til Jan Mayen. En við teljum og hljótum flestir eða allir að vera sammála um það, að æskilegt er og raunar nauðsynlegt fyrir vinveittar þjóðir að ná samkomulagi í þessum efnum, en fara ekki út í harðar deilur.

Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. fylgi þessu máli eftir og reynt verði að hraða þessum samningatilraunum við Norðmenn og reynt verði í lengstu lög að ná samkomulagi, en ekki að heyja deilur, jafnvel langvarandi deilur, sem geta orðið báðum þjóðum til skaða, bæði gagnvart efnahagslegri afkomu, sérstaklega okkar Íslendinga, og geta sömuleiðis haft í för með sér erfiðleika í sambúð þessara ríkja.

Ég endurtek það, að ég er samþykkur þessu frv. í öllum höfuðgreinum og tel feng að því að það fái afgreiðslu á þessu þingi.