24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Stefán Jónsson:

Í örstuttu máli þetta, herra forseti: Viðskrh. Svavar Gestsson gat þess í ræðu sinni áðan, að ekki þyrfti Mondale varaforseti Bandaríkjanna að þakka Alþb. fyrir að hér er amerísk herstöð. En það getur orðið býsna erfitt að kveða svo að orði, að sæmilega skýr hugsun breytist ekki á leið sinni í gegnum hlustir hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og út um munninn í hina herfilegustu lygi. Það er viðfangsefni sálfræðinga, en ekki hv. alþm., að ráða bót á slíku. Það er spursmálið um „karakter“, sem maður hefur orðið var við hér í þingsölunum fyrr.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason notaði tíma sinn áðan til þess að gera okkur grein fyrir sérstöku áliti sínu á áhrifum hersetunnar á Suðurnesjum á atvinnulífið þar. Fyrr hefur hann haldið því fram, að hersetan hafi ekki haft áhrif á útvegsmál eða atvinnumál þar á Suðurnesjunum — við fréttum fyrir skemmstu að húsmæður í Njarðvíkunum féllu nú óðum í öngvit vegna slæmrar lyktar frá fiskimjölsverksmiðjunni á staðnum — þar sem við höfum verið að ræða um þörf þess að bæta hag atvinnuveganna á þessu svæði og bæta fyrst og fremst stöðu sjávarútvegsins. Ég mæli ekki bót þeim mönnum sem ekki sjá fyrir hreinsibúnaði á fiskiðjuverum eða á síldarverksmiðjum kringum landið. En hinu vil ég halda fram, að þegar alþýða manna er orðin þannig um þeffærin af vana við annars konar atvinnu að hún þolir ekki lyktina af fiski sé eitthvað orðið athugavert við mannlífið á þeim stöðum.

Ég kvarta ekkert undan því sérstaklega þegar um þessa sali gusta margs konar vindar. Það er eðlilegt, ekki bara úr fjórum áttum, heldur úr enn þá fleiri áttum. Og ég harma mér ekkert undan þeim gusti sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason ber hingað inn í þingsalina af sorphaugum Keflavíkurflugvallar. En að jafnframt því sem hann krefst þess að við fjölgum atvinnutækifærum í herstöðinni á vellinum skuli hann leyfa sér að bera sér í munn hinn raunverulegu vandamál íslenskra atvinnuvega á Suðurnesjum, það finnst mér vítavert.