06.11.1978
Efri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af skringilegri ræðu sem hv. 3. landsk. þm. hélt. Hv. 3. landsk. þm. taldi það heldur lýðskrumskennt, að annar þm. færi hér upp í ræðustól og dirfðist að ræða efnisatriði þessa máls sem hér liggur fyrir. Það tel ég ekki vera lýðskrum, heldur skyldu, svo einfalt er það. Það er fjallað um mál sem vissulega þarf að leysa. Það er bent á leiðir sem eru afar umdeilanlegar. Að setja fram skoðun sína á slíku og vara við afleiðingum af því að rýmka um of heimildir sem gætu verið notaðar með mjög vafasömum hætti, tel ég skyldu þm. að gera. Og ég bætti við einu atriði sem ég efa ekki að hv. 3. landsk. þm. teldi nokkuð lýðskrumskennt, en ég mun gera það samt. Slík heimild í höndunum á hv. stjórnmálamönnum þeim sem nú fara með meirihlutavald í borgarstjórn Reykjavíkur er hættulegt tæki að mínum dómi. (Gripið fram í: Spurning um „karakter“.) Einmitt, hv. þm., það er spursmál um „karakter“, og það er ekki heldur sama hvaða „karakter“ er í þeim lögum sem sett eru á Alþingi. Frá þeim þarf að vera svo tryggilega gengið, að þeim verði beitt skynsamlega, með þeim verði náð fram því réttlæti sem hv. þm. ætla sér að ná.

Ég efa ekki að góður hugur sé á bak við þá tillögugerð sem hér liggur fyrir. En sjálfsagt er að benda á þá hættu sem í framkvæmd hugmyndanna gæti falist.

Skringilegasti kaflinn í ræðu hv. 3. landsk. þm. var þegar farið var að blanda þessum efnislegu ábendingum saman við hugleiðingar um skattalög síðustu ríkisstj. Ég vil nú taka fram, að þau tel ég vera einhverja vönduðustu skattalagagerð sem framkvæmd hefur verið á Alþ. Hún var óvenjulega lýðræðislega framkvæmd. Þá á ég við að almenningur í landinu, fólkið sem greiða átti skattana, fékk óvenjugott tækifæri og langan tíma til að fjalla um þetta mál, áður en það kom til lokaafgreiðslu á Alþ., og vissulega hafði verið tekið tillit til mjög margra og ákveðinna ábendinga sem frá gjaldþegnunum komu.

Sem rök fyrir máli sínu og því, að hv. þm. taldi einkennilegt að við sjálfstæðismenn bentum á vankanta á því máli sem hér liggur fyrir, nefndi hann að þetta væri óþarfi, því að núverandi stjórnarflokkar hefðu hvergi nærri komist upp í þá skatthæð eða hvergi nærri lagt þá skattbyrði á borgarana sem gert væri ráð fyrir í skattalögunum sem samþykkt voru á s.l. vori. Og nokkru síðar í ræðunni bætti hv. þm. sem betur fer við, að það væri nú kannske ekki von, því að þau lög taka raunar alls ekki gildi fyrr en á næsta ári. Það verður ekki farið að greiða skatt eftir þeim lögum fyrr en á árinu 1980, svo að það er nú kannske ekki alveg allt framkvæmt með sama hætti og gert er ráð fyrir í þeim lögum. Því var auðvitað alveg sleppt í ræðu hv. þm. að leggja heildarmat á þau lög.

Enn fremur nefndi hv. þm., að það væri ekki neitt athugavert við hugmyndir hæstv. núv. ríkisstj. að leggja eignarskattsauka á fólk, unga sem aldna, vegna þess að það væri alls ekki lagður eignarskattur á aðra en þá sem þegar bæru hann! Það var rétt eins og það skipti ekki nokkru einasta máli þó að eignarskattsbyrðin yrði þyngd og þó að eignarskatturinn væri aukinn um 50%. Ég hefði haldið að það skipti töluverðu máli að leggja einmitt ekki meiri skatt á þá sem hafa of mikla skattbyrði fyrir — og allra síst mætti vega í þann knérunn sem ég nefndi í fyrri ræðu, að nota húsnæði fólks, frumþörf fólks í lífinu fyrir húsnæði sem skattstofn æ ofan í æ. Að þessu leyti hafa ekki verið nein skipti á skoðunum mínum, mér er alveg sama hver er í ríkisstj., þetta finnst mér vera grundvallaratriði. (Gripið fram í.) Mér er ekki sama hver er í ríkisstj. hv. þm., það var ekki punktur á eftir þessari setningu í huga mínum, heldur aðeins komma, það átti að koma skýring á þessu. Hver sem er í ríkisstj. hefur það vitanlega engin áhrif á þessa grundvallarskoðun sem er hin sama í þessu efni og allra sjálfstæðismanna að heita má. Við teljum vera afar ranglátt að nota húsnæðið, sem fólkið býr í, sem skattstofn fyrir hið opinbera. Það getur verið verjanlegt að leggja á fasteignaskatta vegna þeirrar þjónustu sem sveitarfélag þarf að láta í té vegna fasteignarinnar, en ég tel með öllu óverjandi að halda enn lengra á þessari braut, og þá er sama hver er í ríkisstj.

Hitt er svo annað mál sem kemur ekki beinlínis þessu máli við, að hv. þm. var svo vinsamlegur að benda á að hann teldi með öllu óverjandi að skipta um skoðun. Það tel ég ekki. Mér finnst það alveg sjálfsagt, ef menn sjá að þeir hafi áður haft rangt fyrir sér. Þá er eðlilegt að skipta um skoðun. Ég hélt nú kannske, að hv. þm. gæti þar sjálfur trútt um talað og skildi vel að það gætu fyrir fundist stjórnmálamenn sem hafa skipt um skoðun á lífsleiðinni — eða hefur hv. þm. kannske ekki skipt um skoðun þegar hann skipti um flokk? Það er reyndar ekki alveg víst, ég veit það ekki. En það kemur þá væntanlega fram í þingstörfum hv. þm.

Sjálfsagt þótti mér að draga þetta atriði fram og láta því ekki ósvarað þegar haldið er fram, að það sé lýðskrum af hálfu þm. að benda á galla sem falist geta í efnisatriðum þeirra mála sem fram eru lögð. Ef við sjáum þá galla eða teljum að málin séu haldin þeim göllum, þá höfum við skyldu til að benda á þá.