24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4132 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það má vel vera að í þeim skilningi, sem ég lagði í ummæli hæstv. viðskrh. áðan, hafi verið fólgið annað viðhorf en til var ætlast. En hitt er þá annað mál, að hæstv. viðskrh. hefur haft tækifæri til þess að koma skilaboðum, sem hann flutti varaforseta Bandaríkjanna hér úr þessum ræðustól, á framfæri við hann sjálfan með aðeins einum millilið. Sá milliliður er flokksbróðir hans, hæstv. menntmrh. Ég veit ekki betur en hæstv. menntmrh. hafi verið einn af þeim þremur ráðh. sem ræddu sérstaklega við varaforseta Bandaríkjanna, þegar hann kom hingað, og hann tók á móti honum í Árnastofnun. Ef hæstv. viðskrh. hefði viljað biðja einhvern fyrir skilaboð til varaforseta Bandaríkjanna hefði verið nærtækast að biðja hæstv. menntmrh. fyrir þau.

Ég vil hins vegar hafa fæst orð um framkomu hv. þm. Stefáns Jónssonar í þessum ræðustól áðan. Það er ekkert nýtt að hv. þm. beri innræti sínu vitni með þeim hætti sem þar kom fram — innræti sínu og hugarfari. Hann hefur ýmist gert það úr ræðustól með formlegum hætti eða með frammíköllum úr sæti sínu með óformlegum hætti, og sjálfsagt heldur hann því áfram.

Hann komst þannig að orði um einn samþm. sinn, að hann bæri sorp af Keflavíkurflugvelli hingað inn. Ég held að það viti allir, a. m. k. eldri þm. hér, svo og þeir menn sem lengi hafa fylgst með þingstörfum, eins og þeir sem hafa verið hér þingfréttarritarar t. d. áður en þeir urðu þm., að eini þm. á Alþingi Íslendinga, sem hefur þurft að þvo óhreinindin úr ræðum sínum milli þess að þær voru fluttar hér í ræðustól og þar til þær komust á prent í Alþingistíðindum, er hv. þm. Stefán Jónsson.