24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4134 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Í þessum umr. hafa fallið alleinkennileg orð um sérstakt þakklæti varaforseta Bandaríkjanna til Íslendinga fyrir aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli. Um viðbrögð Alþb. við þessu þakklæti hafa einnig fallið hin undarlegustu orð, og hefur viðskrh. vísað þeim til föðurhúsanna. En ég vil vekja athygli á því, að það er í rauninni undarlegt að varaforseti Bandaríkjanna skuli færa þetta einhliða þakklæti fram. Það er einkennilegt, vegna þess að það skýtur algerlega skökku við áratuga málflutning Bandaríkjamanna sjálfra og NATO-sinna á Íslandi varðandi hlutverk Bandaríkjahers hér á landi.

Íslendingum hefur verið sagt í þrjá áratugi, að Bandaríkjaher væri hér til þess að vernda Íslendinga. Samkv. þeim formála ætti auðvitað að vera Íslendinga að þakka. En nú ber svo við, að það er ekki einu sinni haft fyrir því að reyna að viðhalda þessari blekkingu. Varaforseti Bandaríkjanna þakkar Íslendingum fyrir að þeir skuli fá að vera hér. Það er því engin furða þó að Alþb. þakki Bandaríkjamönnum ekki fyrir að Íslendingar skuli eiga að taka við fyrstu skeytunum í styrjöld sem send verða. Þetta er auðvitað mergurinn málsins.

Í öðru lagi vil ég vekja máls á því, að í viðtali við varaforseta Bandaríkjamanna í Morgunblaðinu 18. apríl segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli er sérlega mikilvæg, og má það m. a. ráða af því, að þar er að finna útbúnað og flugvélar af fullkomnustu gerð.“

Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh. og aðra þá ráðh. sem áttu tal við þennan mann, sem gjörla má vita hvaða útbúnaður er hér á Keflavíkurflugvelli: Hvaða útbúnaður er það af fullkomnustu gerð sem hér er? Þetta eigum við Íslendingar fulla heimtingu á að vita. Hér hafa í vetur orðið miklar umr. um hvers konar vopn væru í herstöðinni. Það hefur verið reynt að telja okkur trú um að þetta væri afar hættulaus eftirlitsstöð. En varaforseti Bandaríkjanna skýrir okkur sjálfur frá því, að hér sé að finna hernaðarlegan útbúnað af fullkomnustu gerð.