24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

206. mál, jarðborar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykn. hefur lagt fram fsp. um ákveðna kostnaðarliði í sambandi við borun á Kröfuholu eins og það er nefnt. Kostnaður sá, sem rakinn verður hér á eftir, á við jarðborinn Jötunn; en hann er verulega dýrari en jarðborinn Dofri, sem er nafnið á gamla gufubornum sem er sameign ríkis og Reykjavíkurborgar. Stafar sá kostnaðarmunur aðallega af því, að borlega Jötuns er 40–50% hærri en Dofra. Þar að auki er horkjallari, vegarlagning, flutningur og fleira dýrara hjá Jötni en hjá Dofra. Kostnaðarliðir þeir, sem spurt er um, eru þessir, og tek ég fram að miðað er við verðlag í des. 1978. Þá er einnig þess að geta, að miðað er við 2000 metra djúpa holu. Þessir liðir eru eftirtaldir:

1. Launakostnaður og annar beinn kostnaður við mannafla. Nemur sá kostnaðarliður samkv. áætlun 33.3 millj. kr.

2. Flutningskostnaður á bor. Hér er gert ráð fyrir flutningi borsins frá Reykjavík, þar sem hann er nú, norður að Kröflu. Þessi liður er áætlaður 22.7 millj. kr.

3. Borkrónuslit, efni, fóðrun og steypa, sem til þarf við gerð borholunnar. Þessi liður er áætlaður 36.9 millj. kr. Aðrir helstu kostnaðarliðir við borun Kröfluholu eru þessir: Borplan, en það innifelur borkjallara, höggborsholu og jarðvinnu. Er sá liður áætlaður 17.4 millj. kr. Ýmis aðkeypt þjónusta er talin nema 18.2 millj. kr. Borleiga er áætluð 68.3 millj. kr. Útblásturs- og mælibúnaður 10.6 millj. kr. Ýmsir aðrir liðir, svo sem olía, áhaldaleiga, sérfræðiþjónusta, ferðakostnaður, uppihald, bílkostnaður o. fl., eru áætlaðir kosta 83.8 millj. kr.

Samtals er kostnaður við borun Kröfluholu samkv. þessu 273 millj. kr. reiknað á verðlagi í des. 1978.

Ég get látið hv. fyrirspyrjanda hafa nánari sundurliðin á þessu skriflega honum til glöggvunar og taldi ekki rétt að fara hér út í frekari smáatriði að þessu leyti.

Þess er hins vegar að geta, að hér eru undanskilin fóðurrör og holuventlar, en áætlað verð á þeim er, miðað við verðlag á nefndum tíma, 40 millj. kr. Óhjákvæmilegur heildarkostnaður með þessum hætti er talinn nema 313 millj. kr.

Að lokum er í fsp. spurt um hvað borinn Jötunn kosti eigendur árlega sé hann ekki notaður. Upplýsingar, sem rn. hefur fengið um þetta frá Jarðborunum ríkisins, eru þær, að miðað við yfirstandandi ár, árið 1979, verði kostnaðurinn samtals 194.8 millj. kr., eða tæpar 200 millj., og flokkast þannig, að afborganir af lánum og vextir eru talin nema 163.8 millj. kr. og annar kostnaður, þar með talinn geymslukostnaður, viðhald o. fl., 31 millj. kr., eða samtals 194.8 millj. kr. Ef menn líta á þetta með samanburði við borkostnað einnar holu, þá er fastakostnaður af bornum eða fjármagnskostnaður verulega minni, eða um 2/3 af kostnaði við borun einnar holu. Á næstu árum vex þessi greiðslubyrði hins vegar þar sem afborganir af bornum fara mjög vaxandi.

Ég tek undir það með fyrirspyrjanda, að full ástæða er til að herða á í sambandi við leit að jarðvarma og rannsóknir í því sambandi og að reyna að nýta á skynsamlegan hátt þau dýru tæki, sem aflað hefur verið í þessu skyni, enda hefur iðnrn. gert till. um það að nýting þeirra verði aukin. Þær tillögur fengu ekki allar hljómgrunn í því sambandi við gerð fjárfestingaráætlunar yfirstandandi árs og fjárlagagerð í sambandi við framlög til jarðhitaleitar. En í tengslum við hækkun á olíuverði nú að undanförnu hefur rn. látið endurmeta þessi mál og hefur kynnt innan ríkisstj. hugmyndir um frekara átak á þessu sviði, í ljósi hækkaðs olíuverðs og þeirrar brýnu nauðsynjar að reyna að nýta innlenda orkugjafa eins og kostur er í staðinn fyrir innflutta. Ég er þeirrar skoðunar, að ekki beri að horfa í það að bæta við áhvílandi erlend lán okkar ef það fjármagn er hagnýtt þannig að það skili sér á mjög stuttum tíma með því að spara okkur gjaldeyri, spara innflutning á eldsneyti og taka innlenda orkugjafa í notkun í staðinn. Um þetta hefur verið dregið saman talsvert af upplýsingum á vegum iðnrn. að undanförnu og það verið látið ganga með tillögum um þessi efni til ríkisstj., þar sem þessi mál verða athuguð í tengslum við annan þann vanda sem upp er kominn vegna hækkandi verðs á innfluttri orku.

Varðandi þá ábendingu hv. fyrirspyrjanda, að þessi tæki séu ekki að fullu nýtt, há er það alveg rétt að svo er ekki. Það er langt frá því að stóru borarnir tveir, Dofri og Jötunn, hafi full verkefni, og þyrfti til muna meira fjármagn til þess að svo væri. Það verður hins vegar álitamál hvað eigi að ráða ferðinni í þessum efnum. Svo nauðsynlegt sem það er að afla jarðvarma, jarðhita og stunda rannsóknir af krafti í því sambandi, þá er það út af fyrir sig ekki tæki, sem eiga að ráða þeirri ferð, heldur mat á rannsóknarþörf og framkvæmdum. Þegar ráðist var í kaupin á Jötni fyrir nokkrum árum var talið, að næg verkefni væru fyrir slíkan bor langan tíma. Var það á þeim dögum þegar verið var að vinna að öflun jarðvarma m. a. fyrir Kröfluvirkjun, og ég hygg að áætlanir, sem gerðar voru í þessu sambandi, hafi ekki eingöngu miðað við að unnið væri fyrir þá jarðvarmavirkjun, heldur að framhald yrði á framkvæmdum af því tagi. Það kom hins vegar fljótt fram, eftir að fór að hægja á jarðhitaleit við Kröflu af ástæðum sem ég ætla ekki að fara að ræða hér, að þessi tæki vantaði verkefni. Og það er ekkert nýtt á þessu ári að ónóg verkefni séu fyrir þessa stóru jarðbora. Það hefur verið svo — ég hygg 2–3 undanfarin ár, að þeir hafa ekki verið nýttir nándarnærri að fullu, og er það sannarlega umhugsunarefni. Á það hefur einnig verið bent af Jarðborunum ríkisins, að fjárhagsvandi sé fram undan í vaxandi mæli vegna mjög óhagstæðra kjara sem jarðborinn Jötunn var keyptur á. Þar var um að ræða afar óhagstæð lán samkv. upplýsingum sem ég hef fengið frá Jarðborunum ríkisins, sem munu auka þennan fjármagnskostnað verulega á næstu árum. Mér sýnist að menn verði að gera það upp við sig, hvert framhaldið skuli vera, og er ég þá raunar með alveg ákveðna skoðun á því, að það beri að efla hér jarðhitaleit og jarðvarmanýtingu, ekki aðeins í sambandi við húshitun, heldur í sambandi við ýmis iðnaðartækifæri sem á að vera unnt að tengja þessari mikilvægu auðlind. Okkur sækist ekki fram í því verkefni nema unnið sé, en til þess þarf fjármagn og samstöðu um að afla þess.

Þetta læt ég nægja sem svar við fsp. hv. þm.