24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4146 í B-deild Alþingistíðinda. (3247)

224. mál, jarðhitaleit og fjarvarmaveitur á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skil það afar vel, að svar mitt hafi ekki fallið hv. fyrirspyrjanda sérstaklega í geð né heldur þeim hv. öðrum þm. Vesturlandskjördæmis sem hér hafa talað að því leyti, að það gaf ekki sérstakar vonir til þess, að á þessu ári yrði ráðist í þá tilraunadjúpborun sem eftir var leitað og vonir voru gefnar um, eftir því sem hér var sagt a. m. k., að framkvæmd yrði á síðasta ári.

Ástæðurnar fyrir þessu mega vera hv. þm. ljósar. Þær eru fyrst og fremst fjárvöntun til jarðhitaleitar, sem tengist því einnig að menn vilja fremur raða verkefnum þannig að kannske beina jarðhitaleitinni að stöðum sem líklegt er að gefi árangur.

Ég vænti þess fastlega, að þeir hv. þm., sem hér hafa talað, og aðrir, sem hafa áhuga á þessum málum og hafa svipað mat varðandi okkar orkumál, leggist á sveif með okkur, sem ætlast er til að beitum okkur fyrir átaki á þessu sviði og ber að gera það, til þess að fá meira fjármagn í þessa þætti. Meginhindrunin er fjármagnsvöntun að þessu leyti, og ég tek undir það viðhorf, sem kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, að það er mikil ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga á þessum missirum og mánuðum að staldra við og endurmeta stöðu okkar með tilliti til þróunar orkumála í heiminum. Þar hafa verið að gerast breytingar sem við höfum orðið vör við, fyrst og fremst sem neikvæðar breytingar, og verið er að ræða um út frá þeirri forsendu vegna þeirrar miklu verðhækkunar sem orðið hefur á innfluttu eldsneyti. En við skulum ekki gleyma hinu, að okkar innlendu orkulindir eru jafnhliða að stiga geysilega í verði raunverulega og við erum að þessu leyti hvað snertir þennan undirstöðuþátt í alveg óvenjulega góðri aðstöðu með tilliti til þess, sem gerist hjá flestum öðrum þjóðum, svo ekki sé talað um íbúafjölda þessa lands í því samhengi. Fyrir utan hið lífræna eldsneyti, olíuna, sem senn mun ganga til þurrðar vegna þess hraða í nýtingu sem nú á sér stað, er einnig að verða æ ljósara að kjarnorkuleiðin er tæpast fær. Henni eru tengdar slíkar áhættur að það er að verða æ fleiri aðilum ljóst, að ekki er skynsamlegt eða það er nánast neyðarkostur, svo ekki sé meira sagt, að ganga lengra á þeirri braut en gert hefur verið. Því miður bendir hins vegar margt til þess, að þjóðir heims láti þröngva þeirri leið upp á sig, að þær neyðist til að feta þá slóð frekar en að draga saman seglin í sínum lífskjörum og orkubúskap. Það er full ástæða fyrir okkur að gefa þeirri vá fullan gaum, um leið og við höfum samúð með þeim aðilum sem búa við svo erfiða stöðu í orkumálum að hafa farið út á þá braut. Það tengist hins vegar svo mörgum þáttum, að hér er ekki tími til að gera það að miklu umtalsefni.

Ég vil þó af þessu tilefni aðeins vekja á þessu athygli og ítreka það sem fram kom í máli mínu áðan, að leg tel að okkur beri nú að gera mjög verulegt átak til þess að auka hlutdeild okkar innlendu orkugjafa og útrýma hinum innfluttu að því leyti sem skynsamlegt er og nauðsynlegt. Það er ekki skynsamlegt í öllum tilvikum. Þar þarf auðvitað að gæta eðlilegra hagkvæmnisjónarmiða og miða þróunina við það. En við eigum að búa okkur þar undir verulegt átak og ekki að horfa í þó að við þurfum að bæta við erlendu lánsfé til slíkra hluta. Það eru þegar, eins og ég gat um, komnar til ríkisstj. till. frá iðnrn. að þessu leyti og verða þar til meðferðar, og ég vænti þess, að ef þær komast hér í þingsali til álita, þá verði undirtektir hv. alþm. jákvæðar að þessu leyti og einnig þegar kemur til þeirra kasta að veita fé til orkumálanna á næsta ári og komandi árum.