06.11.1978
Efri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu ekki blanda mér neitt inn í þær umr. sem farið hafa hér fram í sambandi við innheimtu tekjuskattsauka, eins og nokkuð hefur borið við í þessum umr. Mér finnst ekki viðeigandi að blanda því saman við umr. um till. á þskj. 68. Hins vegar stendur í því ágæta þskj., að óskað sé eftir auknum stuðningi við sveitarstjórnir til að hraða lagningu bundins slitlags á vegi í þéttbýli, og þar er ég á margan hátt mjög á sama máli og fim. þessarar þáltill., því að ég hef séð hversu geysilegum stakkaskiptum bæir um land allt hafa tekið við það, að á götur hefur verið sett ýmist olíumöl, malbik eða steypa. Bæir eru gjörsamlega óþekkjanlegir síðan, snyrtimennska hefur aukist þar og áreiðanlega vellíðan fólksins, og slit tækja hefur minnkað á þeim stöðum. En eins og nefnt hefur verið hér munu svokölluð B-gjöld til gatnagerðar í þéttbýli hafa verið samþykkt nú fyrir þrem árum u.þ.b. að ósk ýmissa sveitarstjórnarmanna. En þegar til kom að framkvæma þau lög kipptu margir sveitarstjórnarmenn að sér hendinni mjög harkalega, því að þeim, sem áður óskuðu eftir þessum lögum, leist ekkert á þegar átti að fara að innheimta gjöldin. Þetta er með verst þokkuðu sköttum sem hafa verið settir á í bæjarfélögunum á síðustu árum, ef ég veit rétt, og viðurkenni ég þetta þrátt fyrir að í mínu bæjarfélagi, Akraneskaupstað, var ég fylgjandi því, að þessi leið væri farin. En ég mun aldrei fara hana aftur, m.a. vegna þess að gjöldin komu einkum á gamla bæjarhlutann í Akranesi þar sem nú býr einkum og sér í lagi gamla fólkið. Það er nefnilega sama þróunin á Akranesi og í öðrum bæjarfélögum, eins og er hér í Reykjavík, að gamla fólkið verður eftir í gamla bæjarhlutanum, og á þau svæði lögðust B-gjöldin. Þetta fólk var búið að greiða gatnagerðargjöld að verulegu leyti, kannske ekki jafnhá og þeir sem seinna komu til, en ég mun undir engum kringumstæðum treysta mér til þess að fylgja því ákvæði, sem stendur í þáltill., að afnema takmarkanir á afturvirkni heimildar til innheimtu á gatnagerðargjöldum, að vega aftur í sama knérunn, hver sem átti sök á áður. Að slíkum málum get ég ekki staðið og því mun ég ekki geta samþykkt þennan þátt þáltill.