24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4148 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

341. mál, skýrsla um meðferð dómsmála

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þetta er í annað sinn sem skýrsla um meðferð dómsmála er lögð fyrir Alþingi. Skýrsla þessi var lögð fram nokkru fyrir áramót, en dregist hefur að taka hana til umr. m. a. vegna mikilla anna hér í þinginu.

Þegar fyrrv. dómsmrh. mælti fyrir samsvarandi skýrslu á síðasta þingi lýsti hann þeirri von sinni, að það yrði framvegis árviss afburður að slík skýrsla yrði lögð fyrir Alþ. Tek ég undir þessi orð. Þeir, sem best þekkja, eru sammála um að skýrslan frá í fyrra hafi almennt rekið á eftir málum í dómskerfinu. Hún hefur því ekki aðeins veitt þm. og öllum almenningi upplýsingar um gang einstakra dómsmála, heldur hefur hún einnig veitt dómendum visst aðhald. Þótt dómstólarnir séu og eigi að vera sjálfstæðar stofnanir í þjóðfélaginu er það sjálfsögð krafa þjóðfélagsþegnanna að dómsmál gangi hratt og örugglega fyrir sig, þótt ekki megi gleyma því að meginmarkmið málsmeðferðarinnar sé að fá sem réttasta niðurstöðu í hverju máli.

Skýrsla sú, sem hér liggur fyrir, tekur eins og sú fyrri aðeins til dómsmála í svokallaðri þrengri merkingu, þ. e. einkamála og sakamála sem svo eru nefnd. Hún tekur ekki til fógeta-, uppboðs- og skiptagerða. Full ástæða væri til að taka þær með næst þegar skýrsla af þessu tagi verður gerð, þótt það sé vissum vandkvæðum bundið og mikil vinna.

Samkv. skýrslunni var samtals 106 einkamálum, sem þingfest voru fyrir 1. okt. 1976, enn ólokið 1. okt. 1978. Eru það heldur færri mál en fram kom í skýrslunni sem lögð var fram á síðasta þingi, því þá voru mál, sem verið höfðu til meðferðar tvö ár eða lengur, alls 113. Ýmsar ástæður liggja til þess, að yfir 100 mál dragast svo á langinn sem raun ber vitni. Að mínum dómi er ekki ástæða til þess hér að rekja þær ástæður lið fyrir lið, en þær helstu eru fjarvistir eða veikindi aðila, vitna eða lögmanna. Því er þó ekki að neita að seinagangur setur of mikinn svip á málsmeðferð hjá einstökum embættum eða einstökum dómurum. Við því síðarnefnda verður að sjálfsögðu að bregðast eins og vikið verður að hér á eftir.

Sé lítið til sakamála hefur fremur sigið á ógæfuhliðina en hitt frá því í fyrra. Samkv. skýrslunni var 346 málum enn ólokið 1. okt. 1978, þar sem ákæra á hendur sakborningi eða sakborningum hafði verið gefin út fyrir 1. jan. það ár. Ári áður hafði 239 málum verið ólokið þegar liðið höfðu 10 mánuðir eða lengri tími frá útgáfu kæru. Aukningin nemur því u. þ. b. 45% , sem er því miður allt of mikið. Ástæðurnar eru enn sem fyrr þær sömu, fjarvistir eða veikindi þeirra sem hlut eiga að máli. Þessi dráttur á málsmeðferð verður þó ekki réttlættur með því einu. Staðreynd er að sums staðar er vinnuálag á dómendum óhóflega mikið, en ofan á það bætist, að því er virðist, skortur á hagkvæmu skipulagi á vinnubrögðum. Þeim þætti hefur að mínum dómi verið gefinn of lítill gaumur þegar rætt hefur verið um úrbætur í dómskerfinu.

Þegar spurst var fyrir um gang einstakra dómsmála við undirbúning þeirrar skýrslu, sem hér er til umr., var þess óskað að hlutaðeigandi dómendur eða fulltrúar þeirra bentu á hvað eina það sem þeir teldu horfa til aukinnar hagkvæmni við rekstur dómsmála og að hraðað gæti gangi þeirra. Allmörg svör bárust við þessari fsp., og hefur verið unnið úr þeim eftir því sem unnt hefur verið, Í framhaldi af því hafa verið gerðar ráðstafanir til að flýta málsmeðferð hjá einstökum embættum, og aðrar slíkar ráðstafanir eru fyrirhugaðar. Með þessu er stefnt að því, að það heyri innan fáeinna ára til algerra undantekninga að meðferð einkamála dragist lengur en tvö ár fyrir undirrétti og meðferð sakamála lengur en eitt ár. Það má segja að það séu þau markmið sem við erum að reyna að setja okkur í þeim endurbótum sem unnið er að á sviði dómsmála.

Ég vil upplýsa það hér, að gerð hefur verið á því sérstök könnun, hvort ekki sé unnt að hraða meðferð mála hjá embætti ríkissaksóknara. Rétt er að taka það fram, að sú könnun hefur farið fram í fullu samráði við ríkissaksóknara og aðra starfsmenn embættisins. Til þessarar könnunar hafa verið fengnir sérfróðir menn í verkskipulagningu, og er skýrsla frá þessum mönnum væntanleg eftir örfáa daga.

Samhliða því, að ný gjaldþrotalög tóku gildi um síðustu áramót, hafa verið gerðar ráðstafanir til að hraða meðferð gjaldþrotamála. Ekki er enn komið ljós, hvort sú verður raunin, en enginn vafi leikur á því að tilkoma hinna nýju laga er stórt framfaraskref á þessu sviði. Hið sama er að segja um tilkomu hinna nýju þinglýsingalaga. Þau eru aftur á móti ekki nema fyrsta skrefið í þá átt að færa framkvæmd þinglýsinga til nútímans, ef svo má að orði komast. Ég býst við því, að þeir séu fleiri en ég sem telja að vinnubrögð öll við þinglýsingar séu fremur fornfáleg. Að þessu er nú unnið í beinu framhaldi af gildistöku laganna. Þarna er í athugun að taka upp nýja tækni, eins og t. d. svokallaðar míkrófilmur eða jafnvel tölvuskráningu, en hins er þó að gæta að allar slíkar breytingar eru mjög kostnaðarsamar.

Ég hef áður á þessu þingi í tilefni fsp. lýst stöðu nokkurra dómsmála sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Ég sé því ekki ástæðu til þess nú að gera frekari grein fyrir þessum málum né öðrum sem talin eru upp í skýrslunni um meðferð dómsmála, en er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess ef þess er óskað. Í stað þess vil ég koma á framfæri nokkrum upplýsingum um störf svonefndrar fullnustumatsnefndar, sem tók til starfa 1. mars 1978. Í þeirri nefnd eiga sæti Jónatan Þórmundsson prófessor, Ólafur Ólafsson landlæknir og Jónas Jónasson formaður Sambands lögreglumanna. Nefndin metur allar þær umsóknir er dómsmrn. berast um reynslulausn úr fangelsi, náðun og uppreisn æru. Síðan nefndin tók til starfa hefur að jafnaði verið farið eftir umsögnum hennar við úrlausn slíkra mála. Á tímabilinu 1. mars til 31. des. 1978 hélt fullnustunefnd 22 fundi og tók alls 155 erindi til afgreiðslu. Beiðnir um náðun voru alls 112. Mælti nefndin með náðun í 44 skiptum af þeim 112. Beiðnir um reynslulausn reyndust alls 33. Mælt var með reynslulausn í 17 skipti af þeim 33. Loks bárust 7 beiðnir um uppreisn æru. Mælt var með æruuppreisn í 5 skipti af þessum 7.

Í framhaldi af þessu er rétt að það komi hér fram, að um síðustu áramót biðu 335 óskilorðsbundnir fangelsisdómar fullnustu hjá dómsmrn. Þessir 335 dómar vörðuðu 264 einstaklinga. Flestir þessara dóma hljóða upp á fangelsisvist stuttan tíma. Þó er refsitími 51 dóms lengri en eitt ár. Um síðustu áramót sátu 56 einstaklingar í afplánunarfangelsum hér á landi. Þar af voru 42 að afplána refsidóma, 7 í gæsluvarðhaldi, 2 höfðu verið sviptir sjálfræði og 5 voru dæmdir til að sæta öryggisgæslu. Að auki dvöldust tveir Íslendingar, sem dæmdir höfðu verið til að sæta öryggisgæslu, á viðeigandi hælum erlendis. Þess má geta, að frá 1. mars til 31. des. 1978 bárust rn. dómsgerðir í refsimálum alls 711 einstaklinga, en flestir þeirra dóma varða ölvun við akstur.

Ég taldi rétt, herra forseti, að þessar upplýsingar kæmu hér fram, því að mér er ljóst að fullnusta dóma hefur verið allmjög í molum hjá okkur. Aðstaða hefur iðulega ekki verið til að framkvæma dóma eins og æskilegt væri og með þeim hraða sem að ber að stefna. En ég tel að bæði með störfum þeirrar nefndar, sem ég nefndi áðan og fjallar um allar beiðnir um breytingar á slíkum dómum, og með kerfisbundnara starfi starfsmanna í dómsmrn. hafi þessi mál þegar komist í stórum betra horf en áður var. Aftur á móti er það skoðun mín, að þessar hegningar þurfi að taka allar til endurskoðunar og leita beri að öðrum leiðum en fangelsum sem refsingu í hegningarmálum. Því hef ég látið sérstaka nefnd starfa að því að endurskoða hegningarlögin, og vænti ég till. frá henni mjög fljótlega.

Herra forseti. Ég hef lokið,við að fylgja úr hlaði skýrslu þeirri um meðferð dómsmála sem lögð var fyrir Alþ. fyrr í vetur. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist á sviði dómsmála á síðustu árum er skýrslan þörf áminning um að betur má ef duga skal. Ég mun beita mér fyrir því, að fram fari rækileg athugun á því, hvort æskilegt sé að breyta núverandi dómskerfi, t. d. með því að skjóta inn nýju dómstigi milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Þetta er nú í ítarlegri athugun, og vænti ég að niðurstöður þeirrar athugunar liggi fyrir áður en þing kemur saman að hausti. Einnig mun ég athuga hvort hagkvæmara sé og vænlegra til árangurs að bæta það kerfi sem fyrir er. Það mun fylgja þeirri niðurstöðu sem ég nefndi.

Herra forseti. Ég hef þá lokið að mæla fyrir þessari skýrslu, en er að sjálfsögðu reiðubúinn að svara þeim spurningum sem fram kunna að koma og ég kann svör við.