24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4154 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

341. mál, skýrsla um meðferð dómsmála

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta, sem ég sagði áður, og get tekið undir margt sem kom fram hjá hv. ræðumanni. En þó vil ég leiðrétta það sem hann sagði, að í ræðu minni hefði komið fram mikil gagnrýni á dómskerfið. Ég vil ekki orða það svo. Ég held nefnilega að skýringin hjá honum hafi verið hárrétt þegar hann nefndi að sú óðaverðbólga, sem hér hefur geisað, hafi orðið, ef ég má orða það svo, dómskerfinu ofviða því afbrotamálum hafi fjölgað. En ég hef líka vakið athygli á því, að verulegar umbætur hafa verið gerðar á dómskerfinu á síðustu árum. Ég nefndi nokkur lög og get bætt við lögum eins og um rannsóknarlögreglu ríkisins o. fl. Ég vil einnig að það komi hér fram, að ekki síst saksóknari sjálfur hefur lýst fyrir mér verulegum áhyggjum af þeim fjölmörgu málefnum sem ekki hefur tekist að koma í gegnum það embætti eins hratt og hann hefði viljað.

Ég gat þess áðan, að í fullu samráði við hann voru ráðnir sérstakir sérfræðingar til þess að skoða alla meðferð mála þar. Till. þeirra hafa verið kynntar mér og ég fæ þær fljótlega í hendur formlega. Þar er um allviðamiklar breytingar á starfsaðstöðu saksóknaraembættisins að ræða. Í ljós kemur að öll sakaskrá er komin úr böndum og það má heita ógerlegt að halda henni við eins og nauðsynlegt er. Þarna er dæmi um kostnaðarsama lagfæringu sem er í því fólgin að setja sakaskrá inn á tölvu, eins og ég hygg að ég hafi nefnt áðan, þar sem allar leiðréttingar og öll vinna við að fletta upp yrði miklu fljótari en er með þeirri handavinnu sem þarna tíðkast nú. Ég nefni þetta eingöngu sem dæmi um endurbætur sem unnt er að gera, en kosta mikla fjármuni. Einnig hefur verið bent á að vel komi til greina að ráða til bráðabirgða sérstaka lögmenn til þess að vinna í ýmsum málum sem starfsliði hefur ekki tekist að koma frá sér, þótt þarna sé unnið mjög mikið, og reyna að hreinsa frá. Það er í athugun. Þetta krefst einnig fjárveitingar og fram á slíka fjárveitingu mun verða farið við fjárlagagerð. — Ég vil sem sagt undirstrika að margt hefur verið gert til þess að bæta, þótt það hafi ekki dugað, undir það tek ég með hv. þm., til að fást við öll þau mörgu mál sem að hafa streymt.

Ég endurtek einnig, að ég er ekkert síður en hv. þm. óánægður með hve mörg mál hafa dregist, en ég undirstrika að starfsmenn þessara stofnana eru kannske óánægðari en við báðir til samans með það og hafa komið til mín oft og einatt og lagt áherslu á að þarna þurfi að verða breytingar á. Sú gagnrýni, sem hefur komið fram á þetta starf, hefur náttúrlega fyrst og fremst bitnað á þeim og þeir eru sér þess fullmeðvitandi að margt þarf að lagfæra. Að því er sem sagt ötullega unnið. Von mín er sú, að við náum þeim markmiðum sem ég nefndi áðan um málsmeðferð. Það tekur einhvern tíma, en ég vona að Alþ. veiti stuðning sinn til að það megi takast.