24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér hefur verið flutt, kveður á um úrbætur í símaþjónustu landsmanna. Ég hygg að hv. þm. sé þýðing símaþjónustunnar það ljós að ekki þurfi að fara mörgum orðum um það. Ef þessa tækis nyti ekki við yrði kollvarpað þeim lífsmáta sem við höfum tileinkað okkur. Síminn er eitt af grundvallaratriðum nútímaþæginda og öryggis sem við viljum búa við, enda er nú svo komið að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar getur notið þess tækis og gripið það hvenær sem er og hringt nær hvert á land sem er án nokkurrar milligöngu. Þetta þykir okkur sjálfsagt og þetta verður að vana. Hins vegar er ekki hugsað út í að allstór hópur manna nýtur ekki þessara þæginda, en þar hef ég í huga fólkið í sveitum landsins, sem víða verður enn að láta sér nægja allt niður í fjögurra tíma þjónustu símstöðva, en er í annan tíma án þessarar þjónustu. Þetta er í fyrsta lagi óviðeigandi öryggisleysi, sem þarf að bæta, og það er jafnframt eitt skref til aukins jafnaðar í þjóðfélaginu að gera það.

Í till. er lagt til að gerð verði áætlun um uppbyggingu sjálfvirks símkerfis í sveitum og fari sú uppbygging fram á 5 árum, og byggi ég skoðun mína á tímalengdinni á viðtölum við fróða menn í þessu efni.

Annað markmið þessarar till. þarf að fara saman með slíkri áætlanagerð, en það er stækkun sjálfvirku símstöðvanna. Nú er fjöldi manna í þéttbýli símalaus vegna þess að stöðvarnar, sem eiga að þjóna þeim, eru fullnýttar. Þar sem ég þekki best til á Austurlandi er ástandið í þessum efnum mjög slæmt og ekki færri en 10 símstöðvar þar sem brýn þörf er á stækkun. Fjöldi fólks er á biðlista eftir að fá símtæki og víða er á annað ár þangað til von er til að úr rætist. Ég hef þessar upplýsingar úr skýrslu um þetta efni, sem Póst- og símamálastofnunin gaf út í des. s. l. Á fjvn. Alþ. að hafa skýrslu þessa undir höndum. Þetta ástand er óviðunandi og rýrir tekjumöguleika símans að mun. Engum bónda mundi detta í hug að svelta mjólkurkýr sínar, ef hann á annað borð ætlaði að fá úr þeim fulla nyt.

Það mun öllum ljóst vera, að úrbætur í þessum efnum, fjölgun símtækja og sjálfvirkir símar í sveitum landsins, þýða aukið álag á símakerfið í heild. Þess vegna ber brýna nauðsyn til þess að styrkja símakerfið og fjölga talrásum. Þetta kallar á aukna notkun á örbylgjusamböndum, sem eru framtíðin í þessu efni. Örbylgjukerfið er nú komið norður, austur og vestur í Stykkishólm, en Vestfirðirnir eru eftir og einnig þarf að styrkja kerfið með suðurströndinni til Hafnar í Hornafirði með millistöðvum og koma á tengingu þaðan til Fáskrúðsfjarðar þannig að hringurinn náist. Örbylgjukerfið felur í sér mikil þægindi og öryggi fyrir notendur, þar sem línufjöldinn er þá ekki til trafala og auðveldara verður að ná sambandi. Það hefur vægast sagt oft verið erfitt, vegna þess að allar línur eru uppteknar. Þegar sambandi er náð kemur e. t. v. skiptiborð í einhverri stofnun sem viðkomandi á erindi við. Stúlka segir „andartak“, en það andartak getur orðið nokkuð langt meðan beðið er eftir viðkomandi. Hyllist sá sem hringir til þess að bíða vegna þeirrar þrautar sem það er að sitja og reyna að ná sambandi á yfirfullar línur hvað eftir annað. Þetta kostar taugastríð og ómælda fjármuni, og tala ég hér af áralangri reynslu af að reka erindi við höfuðborgarsvæðið í síma, mörg á degi hverjum.

Fjórða markmiðið, sem getið er um í till. þessari, felur í sér að koma á meiri jöfnuði í gjaldtöku fyrir langlínusamtöl en nú er. Hugsunin, sem að baki þessu liggur, er sú að líta eigi á landið allt í heild í sambandi við langlínusamtölin, að mönnum sé gert jafnt undir höfði í því efni að hafa símasamband við opinberar stofnanir hvar sem þeir eru staddir á landinu. Það er auðvitað ekkert launungarmál, að þær stofnanir, sem hér um ræðir, eru flestar á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur er staðreynd og það hlutverk verður ætíð veigamikið. Er ekki raunhæft að ætla að þarna verði snögg breyting á. Hins vegar er erfiðleikum bundið fyrir landsmenn að hafa samband við þessar stofnanir beint vegna fjarlægðar. Grípa menn þá gjarnan til þess að nota símann og er þá óeðlilegt að mínum dómi að gjaldtaka fyrir þessa þjónustu skuli vera svo há sem raun ber vitni. Þetta sjónarmið byggist á félagslegum viðhorfum, en ekki rekstrarlegum, og mótast af þeim sérstöku aðstæðum sem hér hafa skapast og stærð höfuðborgarinnar í þjóðfélagi okkar og risavöxnu hlutverki hennar sem þjónustumiðstöðvar fyrir landið allt, sem er miklum mun meira en í nágrannalöndunum. Þetta hlutverk hefur gert að verkum að símakostnaður einstaklinga og fyrirtækja úti á landi er margfaldur við símakostnað fyrirtækja hér í Reykjavík. Þessi kostnaður nemur umtalsverðri fjárhæð og þegar hann bætist við annað rýrir hann samkeppnisaðstöðu þeirra fyrirtækja sem þarna eiga hlut að máli.

Auðvitað má segja að eftir því sem vegalengdin er meiri sé sá tækjabúnaður, sem þarf til að koma símtalinu til skila, dýrari. En það má benda á að ýmislegt væri öðruvísi í þjóðfélagi okkar en nú er og margt réttlætismál, sem öllum þykir nú sjálfsagt, ekki komið í höfn ef ávallt hefði verið litið á málin frá beinhörðum viðskiptasjónarmiðum. Það má einnig geta þess, að þessi sjónarmið hafa verið virt í sumum greinum opinberrar þjónustu. Það má t. d. nefna útvarp og sjónvarp. Afnotagjald af því er það sama fyrir austan og vestan og hér, þrátt fyrir þann búnað sem þarf til að koma myndefni og tali til skila. Þarna eru jöfnunarsjónarmið og félagsleg sjónarmið látin ráða.

Það er skylt að geta þess áður en lengra er haldið, að veruleg skref hafa verið stigin til leiðréttingar á þessu með því m. a. að fella niður hæsta gjaldflokk símtala í febr. s. l. Ber að þakka það sem gert er, enda er þetta í raun viðurkenning á þeim sjónarmiðum sem sett hafa verið fram í þessu efni.

Í till. er komið inn á hugsanlegar breytingar á gjaldskrá símans til tekjuöflunar. Hvað þetta varðar vil ég leyfa mér að vitna í skýrslu landshlutasamtaka sveitarfélaga um símamál, sem var gefin út í okt. 1978 og byggð á vinnu starfshóps landshlutasamtakanna sem vann að athugun þessara mála með aðstoð frá Póst- og símamálastofnuninni. Í skýrslunni er samanburður á símakostnaði milli einstakra landshluta og byggðarlaga og skýringar á því, hvernig sá samanburður er fenginn. Loks kemst hópurinn að eftirfarandi niðurstöðu, sem ég vil leyfa mér að vitna í með leyfi hæstv. forseta:

„Augljóst er að dreifing símnotkunar sýnir margfalda notkun úti á landi miðað við höfuðborgarsvæðið. Ástæðan er m. a. ótímamæld notkun innan einstakra stöðva, en innan höfuðborgarsvæðisins býr yfir helmingur þjóðarinnar og þar er öll aðalstjórnsýslan og þjónustumiðstöð landsins. Fyrir 15.60 kr. fá íbúarnir þar hvert símtal svo langt sem þá lystir innan svæðisins. Fyrir sama gjald fær landsbyggðin 6–12 sekúndna samtal við svæði 91, en úti á landi er aðeins ótímamælt innan hverrar stöðvar. Vegna margfaldrar notkunar greiðir landsbyggðin þar af leiðandi mun hærri notkunargjöld, svo sem sýnt hefur verið fram á í töflu hér að framan. Með tilvísun til hugsjónajafnréttis og þýðingar þessa fjarskiptatækis verður þetta mikla misræmi að hverfa. Ljóst virðist að nauðsynlegar aðgerðir í þá átt geti tekið nokkurn tíma, m. a. til að mæta tæknilega auknu álagi vegna væntanlegrar aukinnar notkunar. Leggja þarf svo áherslu á að hraða leiðréttingu á verstu agnúunum á núverandi gjaldskrá. Nokkrar hugmyndir um fyrstu aðgerðir eru þessar:

1. Aukning skrefafjölda innan afnotagjalda á minni stöðum með þeim rökum að þjónustusvæði innan stöðvar ótímamælt er margfalt minna þar.

2. Stækkun stöðva til að minnka gjaldtöku, t. d. innan kjördæma eða þjónustuheildar.

3. Lenging stystu skrefa, sem nú eru 6 sekúndur, t. d. með því að leggja niður gjaldflokk 5.“ — Þetta hefur reyndar þegar verið gert.

4. Hækka atnotagjöldin verulega og nota auknar tekjur af þeim til lengingar skrefa.

5. Setja upp skrefatalningu innanstöðva og nota þannig auknar tekjur til lækkunar fjarlægðargjalda.

6. Hækka aðra tekjustofna símans: stofngjöld, símskeyti o. fl.

Að lokum viljum við leggja áherslu á að tilgangur okkar er ekki að draga úr heildartekjum símans, en við teljum nauðsynlegt að við væntanlegar gjaldskrárhækkanir verði hækkunin mismunandi til að jafna gjaldtökuna frá því sem nú er.“

Till., sem hér um ræðir, fela í sér margar raunhæfar leiðir til úrbóta í þessum málum. Það er nauðsynlegt að taka þær mjög rækilega til skoðunar, enda miða síðustu greinar þáltill. að því að svo sé gert. Ég lýsi fylgi mínu við þau sjónarmið sem þarna koma fram. Skylt er að geta þess, að þegar hefur komið til framkvæmda að fella niður gjaldskrá 5, og ég hef frétt að í undirbúningi sé að koma upp tækjum til tímamælingar á símtölum innansvæða. Allt miðar þetta í rétta átt, en nauðsynlegt er að nota það svigrúm sem þetta skapar til jöfnunar langlínusamtala.

Mér er ljóst að þessar till., ef samþykktar yrðu og framkvæmdar, fela í sér veruleg útgjöld fyrir almenning í landinu, því að gera verður sér ljóst að alltaf er það almenningur sem borgar brúsann að lokum, hvernig sem að er farið. Ýmsum kann að finnast að nær væri að flytja till. um sparnað og samdrátt á síðustu og verstu tímum, eins og mönnum er svo tamt að tala um. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að það er illa komið fyrir okkur ef við látum tímabundna erfiðleika á efnahagssviðinu leiða okkur svo í björg að við hættum að setja okkur markmið varðandi þau grundvallarþægindi og öryggi sem enginn vill eða getur verið án. Það er mjög í tísku nú að reikna út í öllum greinum hlut ríkisins í verði vöru og þjónustu, og ekki er annað að sjá af þeim málflutningi en þennan þátt eigi að fella alveg niður. Eigi að síður vilja menn hafa alla þá þjónustu, sem boðið er upp á fyrir þessa peninga, og meira til. Það er tími til kominn að leggja mat á þessa hluti og setja sér það markmið að byggja upp og fylgjast með tímanum hvað varðar sjálfsagða þjónustu eins og t. d. símaþjónustu, en gera sér þess þó grein að slíkt muni eitthvað kosta. Annað mál er það svo, að opinber rekstur hlýtur að verða undir smásjá og lúta aðhaldi hvað hagsýni rekstrarins snertir, því að það að veita slíkum fyrirtækjum forstöðu leggur mönnum vanda og sérstakar skyldur á herðar að fara vel með fé almennings.

Að lokum vil ég geta þess, að ætlunin með þessum tillöguflutningi er að þessi mál séu tekin til endurmats þannig að endanlega afstöðu til þeirra sé hægt að taka á næsta Alþingi.

Herra forseti. Ég óska eftir að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.