24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4158 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka í einu og öllu undir þá till. sem hv. 4. þm. Austurl. hefur hér mælt fyrir. Hún er hin þarfasta og þau atriði, sem þar eru upp talin varðandi vissa áætlun í þessum efnum, eru vissulega tímabær og þurfa sem allra fyrst að komast í framkvæmd. Þetta mál, símamálið eða jöfnun símagjalda og almenn þjónusta símans við landsbyggðina, er reyndar eitt af þeim málum sem kemur fyrir hjá okkur á Alþ. í einhverju formi á hverju þingi og landsbyggðarmenn hafa kannske hvað oftast á oddi. Hv. frsm. og flm. þessarar till. kom rækilega inn á ástæður þess, hve mjög menn bera þetta mál fyrir brjósti.

Annað er svo sömuleiðis rétt, sem hann kom inn á, að þó að nokkuð hafi verið gert í þessum efnum er enn grátlega mikið eftir og veitir ekki af að taka þar rösklega til hendi. Ég tel að eitt af þörfustu málum, sem byggðanefndin svokallaða, sem hefur nú ekki starfað nokkuð lengi, en starfaði allvel á tímabili, kom á framfæri við Alþ., hafi einmitt verið símamálið og jöfnun símagjalda fyrir land byggðina. Við verðum að segja það, sem þar áttum sæti og komum því máli á framfæri eftir nánar viðræður við þá sem fyrir þessum málefnum standa hér í stofnunum, að við urðum fyrir nokkrum vonbrigðum með hve gífurleg tregða var á þeim atriðum, sem við fluttum till. um, hjá viðkomandi stofnunum. Reyndar var í fyrstunni má heita algerlega neitað að þetta væri unnt. Síðan hafa þó sem betur fer, eins og hv. flm. tók fram, verið gerðar á þessu nokkrar lagfæringar, þó að það hafi vissulega of seint gengið.

Fyrir okkur, sem byggjum þann landshluta sem lengst er í burtu frá höfuðborgarsvæðinu, eins og er um okkur hv. flm., munaði auðvitað tiltölulega mestu um þá breytingu sem varð nú í febrúar, en áður hafa einnig verið gerðar lagfæringar sem hafa munað okkur nokkru. Engu að síður er auðvitað langt í land, það sér maður best þegar litið er á almenna símareikninga á höfuðborgarsvæðinu annars vegar, almenna símareikninga fólks og almenna símareikninga fyrirtækja einnig, og svo á símareikninga fólks úti á landsbyggðinni, ég tala nú ekki um austur á landi og fyrirtækja þar. Sá samanburður liggur fyrir, eins og hv. flm. kom inn á, og misræmið þar á milli er svo gífurlegt að menn trúa því yfirleitt ekki fyrr en þeir sjá það í beinum tölum.

Ég vil aðeins upplýsa það, af því að hæstv. samgrh. — yfirmaður Pósts og síma — er hér ekki viðstaddur, að fyrir skömmu fór fram nokkur umr. á Alþ. varðandi neyðarþjónustu Landssímans og þá kom hæstv. samgrh. nokkuð inn á þessi mál. Hann sagði að það yrði að gera stórátak í símamálum landsmanna á næstu árum, núverandi ástand væri alls ekki í takt við tímann og að því ætti að stefna að á fáum árum yrðu smástöðvar víðs vegar um land lagðar niður og sveitasímarnir þar af leiðandi almennt tengdir stórum stöðvum, þar sem fyrir hendi væri langur þjónustutími og víðast hvar næturvakt eða neyðarvakt. Orðrétt sagði svo hæstv. samgrh. í sambandi við þetta sem lýtur einmitt að 1. lið þessarar till.:

„Það þarf bersýnilega að hraða lagningu sjálfvirks síma um land allt. Það verkefni er aftur á móti margfalt kostnaðarmeira en það fyrra sem ég nefndi, en að því marki verður hiklaust að stefna á næstu árum.“ Og svo segir samgrh. orðrétt, með leyfi forseta: „Ég vil upplýsa af þessu tilefni, að í undirbúningi er gerð áætlunar til nokkurra ára um úrbætur í símamálum, enda tel ég algerlega óhjákvæmilegt að Alþ., fjárveitingavaldið, veiti sérstakar fjárveitingar á næstu árum til þess einmitt að ljúka þessu verki.“

Þetta vildi ég að fram kæmi og einnig að í þessum sömu umr. upplýsti hæstv. samgrh. að þegar langlínusamtölin í 5. gjaldflokki féllu niður og sá gjaldflokkur var sameinaður 4. gjaldflokki hafði það í för með sér, eins og við skiljum vel, verulega útgjaldalækkun fyrir símnotendur í fjarlægustu byggðunum, fyrir Austfirði, Norðausturland og nokkra staði á norðurlandi og nyrstu staði á Vestfjörðum. Hann upplýsti í því efni að til þessa eina verkefnis væri nú varið á einu ári 400–500 millj. kr., þannig að þarna væri um verulegt verkefni að ræða sem, eins og hv. þm. kom inn á, ber vissulega að fagna að gert hefur verið.

Í fjvn. fáum við á hverju ári til meðferðar fjárfestingaráætlun Pósts og síma, venjulega margniðurskorna frá þeim áætlunum sem Póstur og sími hefur verið með upphaflega og til muna miklu lægri en þeir hefðu viljað hafa. Hv. flm. kom réttilega inn á það, að með því að fjölga símanúmerum hjá hinum einstöku stöðvum væri um leið séð fyrir nýjum og auknum tekjumöguleikum fyrir Póst og síma. Þegar afgreiðsla þessara mála fór fram í fjvn. fyrir jólin var þeim röksemdum beitt af hálfu forsvarsmanna Pósts og síma mjög stíft, að einmitt til þess að ná inn auknum tekjum til þess að geta gert frekara átak úti um land þyrfti að verða mest átak á þéttbýlissvæðunum hér, þar sem mestur fjöldi nýrra síma kæmist í notkun á einu og sama árinu. Ég var alltregur til að samþykkja þetta sjónarmið. En engu að síður fór það svo, að miðað við hvað fyrirheit voru gefin um á næsta ári — það kemur einmitt inn í 2. lið þessarar till. sem varðar árið 1980 — féllst ég á að stöðvar á þessu aðalþéttbýlissvæði fengju í raun og veru meginhluta þess fjármagns sem var veitt í fjárfestingar Pósts og síma á þessu ári, alveg sérstaklega í ljósi þess að þá væri tekið þeim mun rösklegar og myndarlegar á þeim málum á næsta ári, í ljósi þess þá sérstaklega hvað þarna fengjust auknir tekjumöguleikar fyrir Póst og síma og það mundi hjálpa aftur til að gera á næsta ári stórátak í þessum efnum. Ég hlýt að treysta á, að við þetta verði staðið og hef fyrir því orð hæstv. samgrh., að hann muni beita sér fyrir því af alefli, sem full ástæða er líka til því að úti um land er mikil vöntun á nýjum símum, eins og hv. flm. kom réttilega inn á.

Ég vil geta þess hér, að heildarfjárfestingaráætlun Pósts og síma á þessu ári nam 2 milljörðum og 385 millj. Af þessari upphæð fóru ósundurgreint — fljótlega talið — á þetta svæði sem við getum talið aðalþéttbýlissvæði, fyrir utan ýmsar sérframkvæmdir þar til þess einmitt að auka möguleika á því að fjölga númerum, yfir 1.6 milljarðar, enda á þetta að skila Pósti og síma — ég man ekki hvað mörgum nýjum númerum, en það er a. m. k. mjög veruleg aukning þar sem hér er um að ræða stækkun á Breiðholtsstöðinni upp á eitthvað í kringum 327 millj. kr., þá er Brúarland upp á 536 millj., Reykjavík að öðru leyti upp á 320 millj., Selfoss upp á 373 millj. og svo Hafnarfjörður og Kópavogur upp á 77 millj. Þetta þættu okkur ágætar upphæðir að fá austur. En að hinu ber svo reyndar að gæta, að á s. l. árum hefur orðið gerbreyting á póst- og símahúsum á Austurlandi. Það hefur bæði verið ráðist í að koma þar upp sjálfvirkum stöðvum og byggja ný póst- og símahús. Ber ekkí að vanmeta það. Þau hafa kostað sitt og eru nú komin upp á nær öllum þéttbýlisstöðum þar.

Hv. flm. kom inn á að í undirbúningi væri einnig breytt fyrirkomulag á gjaldtöku sína — fyrirkomulag hér á þessu svæði — sem réttilega hefur verið bent á af hálfu landsbyggðasamtakanna að væri óréttlátt. Ég tek mjög undir það, að sá munur verður ekki jafnaður með öðrum hætti en þeim að breyta fyrirkomulaginu nokkuð. Það er útilokað annað. Ekki geri ég mér vonir um að við náum fljótlega fullkomnum jöfnuði á þessu sviði eins og ýmsum öðrum sviðum sem hv. flm. kom réttilega inn á að við hefðum náð fullkomnum jöfnuði á, en engu að síður er mikilvæg sú till. sem hér er flutt og gerir ráð fyrir helstu þáttum sem snerta þessi mál í áætlun um uppbyggingu símakerfisins. Ég geri mér hins vegar vonir um það, ef slík áætlun yrði gerð og henni framfylgt myndarlega, að a. m. k. mundi að 5 árum liðnum, eins og talað er um í 1. lið, verða orðin veruleg breyting í öllum þeim greinum sem till. tekur til. Ég vildi því ekki láta það tækifæri ónotað sem hér gefst til að lýsa yfir fyllsta stuðningi við áætlanagerð af þessu tagi og vænti þess um leið, að samgrn. gangi fram í því, eins og hæstv. samgrh. hefur heitið hér á Alþ., að að þessari áætlanagerð verði rösklega og myndarlega unnið.