24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4163 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa till. Það er auðvitað ekki gott við það að búa, að aðstöðumunurinn sé að þessu leyti eins mikill í þjóðfélaginu og um er að ræða í sambandi við símann.

Síminn er mikið öryggistæki. Eins og kemur fram í grg. verða margir enn í dag að búa við það að komast í síma, nema þá innan sveitar, aðeins í 4 klukkustundir á hverjum sólarhring. En sem betur fer getur meiri hluti og mikill meiri hluti, sjálfsagt eitthvað yfir 90% af þjóðinni, komist í síma jafnvel allan sólarhringinn. Á þessu er mikill munur. En það þarf að athuga þessi mál enn betur. Ég veit ekki betur en nú sé verið að hugsa um að setja upp stöðvar t. d. í næsta nágrenni við þéttbýliskjarna sem séu alveg sérstakt gjaldsvæði. Ég held að það verði að vera lágmarkskrafa í þessu efni að það sé sama gjaldsvæði fyrir t. d. þéttbýliskjarna og þær byggðir sem hafa aðallega viðskipti við hann.

Það er mikil óánægja út af símamálunum t. d. í mínu kjördæmi. Símalagnir þar eru orðnar lélegar. Það kemur fyrir að vetrinum að síminn er í lamasessi marga daga, jafnvel svo að vikum skiptir, fyrir utan það að menn ná aldrei nema 4 tíma, eins og ég segi, á sólarhring til símstöðvar. Ég lét kanna hvað það mundi kosta að setja sjálfvirkan síma í hreppana framan við Akureyri þ. e. a. s. Hrafnagils-, Saurbæjar- og Öngulsstaðahrepp Í þeirri tölu var ekki gert ráð fyrir að húsnæði væri nauðsynlegt að byggja fyrir sjálfvirku stöðina, þar sem hrepparnir ætluðu að leggja til húsnæði sem er tiltækt. Kostnaðurinn við þessa þrjá hreppa miðað við verðlag núna er 175 millj. Kostar því mikið að ljúka því verki sem hefur verið unnið að á undanförnum árum í þessum efnum.

Það verður að gera áætlun, eins og þessi till. miðar að, og reyna að standa við hana. En það þyrfti náttúrlega að athuga fleira í því sambandi. Ég er á því, að efni til símans sé með æðiháum aðflutningsgjöldum. Til þess að gera auðveldara að ljúka verkinu þarf að kanna hvort ekki sé eðlilegt að fella að einhverju eða öllu leyti niður aðflutningsgjöld á efni meðan verið er að ljúka þessu brýna verkefni.