06.11.1978
Efri deild: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Flm. (Hannes Baldvinsson):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd flm. þakka þær jákvæðu undirtektir sem till. okkar hefur fengið hér í umr. í deildinni, en tel ástæðu til að víkja lítillega að þeim öðrum ummælum sem hér hafa fallið um till., og þá fyrst að ummælum hv. síðasta ræðumanns, Braga Níelssonar.

Hv. þm. tekur réttilega fram, að B-gjöld svokölluð til gatnagerðar hafi reynst óvinsæl þar sem þau hafi verið á lögð, og það er vissulega alveg rétt. Þau eru fyrst og fremst óvinsæl fyrir það, að víðast hvar hafa sveitarstjórnir neyðst til þess að leggja þau á í hámarki vegna takmarkana um afturvirkni laganna og innheimtunnar. Til þess að hafa eitthvert fé úr að moða hafa sveitarfélögin víðast hvar farið inn á þá leið að leggja B-gjöldin á í algjöru hámarki, þar sem það er heimilt, vegna þess að það eru svo margir sem sleppa við þátttöku. Af þeim sökum verður álagning B-gjaldanna einstaklega þungbær þeim sem fyrir innheimtunni verða, en hinir auðvitað því fegnari sem sleppa við innheimtuna. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að ef hv. þm. skoðaði málið í þessu ljósi, þá mundi hann á ný greiða atkvæði með því að leggja á gatnagerðargjöld í sínu sveitarfélagi, kannske í örlitið hóflegri mynd en þeir hafa neyðst til að gera vegna takmarkana innheimtuákvæðanna.

Út af þeim ummælum, sem hér hafa komið fram hjá flm. till. um sérstakt fasteignagjald á Akureyri, er líka rétt að benda á, að sú till. kom fram í því formi sem hún var þá, um sérstök fasteignagjöld bundin við Akureyri, eingöngu vegna þess að strax verður vart við óánægju meðal sveitarstjórnarmanna víða um land. Það var víðar en á Akureyri sem þessi óánægja kom fram, að takmarkanir skyldu settar í lög um innheimtu gatnagerðargjalda, en Alþ. var nýbúið að samþykkja þessar takmarkanir. Var því ósköp eðlilegt að þeir, sem vildu reyna að draga úr óréttlæti þessarar ákvörðunar, færu einhverjar aðrar leiðir heldur en þær að flytja till. um að endurskoðuð yrðu lagaákvæði sem Alþ. var nýbúið að samþykkja, og af þeim sökum kemur til flutningur á till. um sérstök fasteignagjöld á Akureyri, sem ég leyfi mér að fullyrða að felur ekki í sér meira réttlæti en það að afnema ákvæðin um afturvirkni gatnagerðargjalda. Nú er Alþ. á annan veg saman sett en þá var, og þá finnst mér ákaflega eðlilegt að reynt verði á hvort afstaða þess þings, sem nú kemur til með að fjalla um þessi mál, er hin sama og var á árinu 1975. Ég leyfi mér að vona að hún sé breytt, og af þeim sökum hef ég gerst flm. að þessari tillögu.

Ég er hræddur um það hins vegar, að hv. 2. þm. Norðurl. e. fengi skömm í hattinn frá flokkssystur sinni, ef hann á hinn bóginn tæki upp till. sem hann flutti samkvæmt tilmælum sveitarstjórnarinnar á Akureyri, því að nóg finnst henni og honum víst líka eftir þeim ummælum sem hér hafa fallið, að gert í sambandi við ógnvænlega skattpíningu, svo að vitnað sé beint í það orðalag sem hv. þm. viðhafði, en sú afsökun fyrir því að draga að leiðrétta rangláta skattheimtu má ekki bitna á aðeins hluta af þegnum þessa lands. Við hljótum að vera sammála um það, að ef við neyðumst til að leggja á skatta, þá sé sanngjarnt að þeir séu lagðir sem jafnast á alla þegna landsins, en ekki bara einhvern hluta þeirra og þannig að tilviljun er algerlega látin ráða hverjir lendi í innheimtuaðgerðunum og hverjir ekki. Af þeim sökum langar mig aðeins til þess að rifja upp það sem ég veit reyndar að flestir þm. munu gera sér grein fyrir, ef þeir velta málinu fyrir sér, að framkvæmdir við lagningu varanlegs slitlags í nær öllum sveitarfélögum, þar sem ég þekki til, byrja í miðkjarna þeirra, þar sem er oftast nær, ef svo mætti að orði komast, viðskiptamiðstöðin og viðskiptahverfin. Íbúðahverfin hafa yfirleitt verið látin sitja á hakanum. Af þessum sökum kemur í ljós, að þar sem fyrst er hafist handa um lagningu slitlags á götur í sveitarfélögum og þar sem afturvirkni innheimtuákvæðanna hindrar að hægt sé að fara lengra aftur í tímann en 5 ár, þá eru það yfirleitt viðskiptafasteignir sem sleppa við að taka þátt í greiðslu þessara gjalda. Mér datt í hug, meðan ég stóð í þeirri meiningu, eins og fram kom hér áðan, að hæstv. forseti þessarar deildar hefði verið einn af flm. frv. um fasteignagjald á Akureyri, að þær stofnanir, sem þessi tveir þm. voru æðstu menn í æðsta forsvari fyrir, eins og t.d. Landsbankinn á Akureyri og Útvegsbankinn á Akureyri og margar fleiri viðskiptastofnanir á Akureyri, voru einmitt þær sem sluppu víð félagslegu þátttökuna í þessum framkvæmdum. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þm. verði nú sammála um það, að þarna þurfum við að leiðrétta nokkurt misrétti sem hefur óneitanlega komið í ljós við framkvæmd þessara laga.

Hv. þm. Alexander Stefánsson, 5. þm. Vesturl., sem er höfundur að lagafrv. því sem samþykkt var á sínum tíma um gatnagerðargjöld, minntist aðeins á A-gjaldið sem einhverja hugsanlegu lausn. En það er mikill misskilningur. A-gjald er eingöngu bundið við nýframkvæmdir og getur aldrei innheimtist í það ríkum mæli, að það geti orðið nokkur aðstoð við að leggja bundið slitlag. Það er aðeins bundið við framkvæmdir við undirbyggingu vega og aðeins innheimt hjá þeim sem eru jafnframt að byggja við þessa nýju vegi, þannig að það íþyngir eingöngu þeim sem standa í húsbyggingum á sama tíma, en leysir ekki á nokkurn hátt þann vanda sem við erum hér að leitast við að finna lausn á.

Ég verð að segja, að mér finnst ákaflega eðlilegt að hv. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, geri hér ekki fyllilega grein fyrir þeim vanda sem hér er til umr. og snýr að sveitarstjórnum og sveitarfélögum úti á landi. Ég virði henni það til nokkurrar vorkunnar, því að Reykjavík mun líklega vera það sveitarfélagið sem best stendur að vígi og þarfnast minnstrar aðstoðar við að leysa þessi vandamál, þó að þau megi kannske finna hér í nýjustu úthverfunum. En þá er ég þess fullviss, að Reykjavíkurborg þarf ekki á neinni sérstakri aðstoð að halda af hálfu ríkisvaldsins til að leysa þessi vandmál og af þeim sökum hefði mátt undanskilja Reykjavík og kannske næstu bæjarfélög í þessum hugmyndum okkar, en það kemur vafalaust fram ef þessi till. nær fram að ganga.

Það má taka undir orð hv. 5. þm. Reykv. og segja að deila megi um réttlæti í afturvirkni laga hverju sinni. En ég fæ ekki séð að réttlætið þurfi nauðsynlega að binda við 5 ára afturvirkni eða það sé eitthvað meira réttlæti fólgið í því að takmarka afturvirkni við 5 ár, fremur en 10 eða 15. Mín réttlætiskennd er ekki takmörkuð við 5 ára áætlun. Það eru alveg hreinar línur. En það getur vel verið að einhverjir þm. séu haldnir þeim annmarka, að réttlæti þeirra nái ekki nema 5 ár fram eða aftur í tímann.

Mér finnst hins vegar gífurlegt ranglæti fólgið í takmörkun á þessari margumræddu afturvirkni. Þeir, sem hafa búið við forina, eru álitnir nógu góðir til þess að borga kostnaðinn við að firra sjálfa sig vandræðum, en hinir, sem hafa um langt árabil búið við rykbundnar götur, skulu verða gjaldfríir. Andstaðan við það að breyta þessum ákvæðum er afsökuð og hefur verið afsökuð með því, að þessa muni í ríkum mæli bitna á gamla fólkinu, og þm. Sjálfstfl. hafa nú nýverið skipt um skoðun og gerast nú hvað harðastir talsmenn hagsmuna aldraðs fólks á Alþ. og víðar. Það er að vísu ánægjulegt að hafa eignast þarna skyndilega nýjan samherja. Ég vil ekki gera það að löngu umræðuefni, en vil stinga því að þeim hv. þm., sem óttast að samþykkt þáltill. okkar muni bitna harkalega á öldruðu fólki, að ég væri vissulega tilbúinn til þess og lýsi hér með yfir að ég tel ekki óeðlilegt að gert verði samkomulag um að undanþiggja íbúðarhús innan vissra stærðarmarka frá afturvirkni innheimtuaðgerðanna. Við gerum reyndar þessu atriði skóna í okkar tillöguflutningi, þar sem við tölum um að hvert og eitt bæjarfélag setji reglugerðir um innheimtuaðgerðir sem síðan verði staðfestar af ráðh. Það er vegna þess, að við erum sannfærðir um að engin sveitarstjórn mundi nota þessi ákvæði til þess að beita íbúa sína ósanngjörnum innheimtuaðgerðum. Við erum sannfærðir um það. Við höfum þá trú á sveitarstjórnarmönnum um land allt.

Ég vil hins vegar ljúka máli mínu með þeirri ósk til hv. þm. deildarinnar, þegar þeir fara að fjalla um þetta mál, að þeir láti ekki óttann við að valda hugsanlega einhverjum fáum einstaklingum umdeilanlegu ranglæti koma í veg fyrir að samþykkja sjálfsagt réttlætismál fyrir langmestan hluta þess fólks sem býr við óviðunandi gatnakerfi úti á landsbyggðinni.