24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4163 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

255. mál, uppbygging símakerfisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika að gefnu vissu tilefni að ég er ekki andstæðingur flm. eða þeirra sem hafa talað í þessu máli, heldur þvert á móti. Okkur greinir kannske á um leiðir.

Flm. talaði um að lagfæra fyrir landsbyggðina með því að halda uppbyggingunni áfram á sömu braut. Það kostar að mínu mati aukaálögur á þéttbýliskjarnann. Það fer ekkert milli mála, að það verður að byggja á einhvern hátt á hækkandi afnotagjöldum fyrir þá sem þegar hafa síma, og kemur það þyngst niður á þéttbýliskjörnunum. En ég vil leggja áherslu á að hver símnotandi eignist sitt tæki og hver sá, sem er með símatæki í dag, kaupi tæki á því verði sem það hefur kostað Póst og síma. Með því gætu losnað 2–3 milljarðar sem færu í nýbyggingar á sjálfvirkum stöðvum um land allt.

Ég tel það ekki neitt geysistórt fyrirtæki á mælikvarða stórþjóða að símvæða Ísland á sjálfvirkan hátt og tel sjálfsagt að ríkið taki verulegan þátt í stofnkostnaði, og þetta er einn liður í stofnkostnaðinum, að hver og einn einstaklingur eða fyrirtæki, sem nú þegar hefur tæki, kaupi það við því verði sem það hefur kostað Póst og síma.

Ég er þeirrar skoðunar að sjálfvirknin sé miklu, miklu ódýrari í rekstri en það sem við erum með fyrir og það væri hægt að lækka símakostnaðinn bæði í Reykjavík og annars staðar. Hér greinir okkur á um leiðir. Það vantar fjármagn, og ég er að reyna að benda á leið til þess að ná því fjármagni að verulegu leyti. Það fjármagn, sem þannig fengist, væri þá til viðbótar við það sem reglulega kemur á fjárl. til handa Pósti og síma. Hann losnar við alla fjárfestingu í flutningum, varahlutum og uppsetningu. Að þeirri þjónustu mundu, eins og ég sagði áðan, standa rafvirkjar, útvarpsvirkjar eða sjónvarpsvirkjar. Við ættum þá að geta lagt niður sérgjaldsvæði. Landið væri þá eitt gjaldsvæði með samtengdar sjálfvirkar stöðvar, sem kölluðu á tiltölulega mjög litla mönnun.

Símatækið er ekki lengur flókið mál. Símatækið er svo auðvelt í framleiðslu að ég hugsa að það væri möguleiki á því að framleiða símatæki hér innanlands. Það gæti orðið iðngrein, ef slíkt væri gefið frjálst. — Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég hef sagt áður úr þessum ræðustól, en á iðnkynningarsýningunni, sem var hér í Reykjavík, voru sýnd íslensk sjónvarpstæki, þar voru sýnd íslensk útvarpstæki og þar voru sýnd íslensk tölvutæki sem ekki er hægt að framleiða vegna lagaákvæða. Sú iðngrein getur því ekki fest hér rætur.

Ég var í gærkvöld að sýna kvikmynd af franskri vatnsaflsvirkjun sem byggð er upp á tveimur stöðum. Annar stendur 90 m hærra en hinn. Að deginum til rennur vatnið niður í lægri tjörnina, á nóttunni er því dælt upp í hina. Það er alltaf verið að nota sama vatnið til að framleiða 850 þús. kw. af raforku :fyrir bæ sem ég bjó einu sinni í og heitir Nancy, í Norðaustur-Frakklandi, og nú er 600–650 þús. manna bær. Og þessu er fjarstýrt algerlega úr 250 km fjarlægð. Það vinnur enginn maður í stöðinni sjálfri, henni er algerlega fjarstýrt. Tæknin er orðin svo allt önnur en sú sem við þekkjum hér, bæði í símvirkjun og á öðrum sviðum.

Ég veit ekki hvort það er nógu skýrt sem ég hef sagt hér. Ég er bara að reyna að benda á möguleika til að afla fjármagns til að koma hér á sjálfvirkum símstöðvum. Að sjálfsögðu heldur svo Póstur og sími áfram að hafa tolltekjur eins og fást af öðrum innflutningi. Þær renna náttúrlega í að viðhalda og bæta þau kerfi sem koma.

Það er ótrúlega oft sem menn öðlast reynslu af því að vera búsettir erlendis lengi, og ég tel mig geta talað fyrir þann hóp eftir hér um bil 14 ára óslitna búsetu erlendis, en þeir koma ekki til skila reynslu sinni af búsetunni til þeirra sem minni reynslu hafa. Ég á afskaplega erfitt með að skilja rökin sem fylgja málflutningi í svona tilfellum. Ég tala þarna af vissri reynslu. Ég vona að menn sjái hvað það væri mikil fjarstæða í dag ef Ríkisútvarpið ætti að hafa á höndum allan innflutning, uppsetningu og viðgerðir á öllum þeim mörgu tegundum af sjónvarps- og útvarpstækjum sem eru til í landinu. Það var reynt. Viðtækjaverslun ríkisins gat ekki valdið því hlutverki. Það var reynt á sviði bifreiðainnflutnings. Það fór líka yfir um. Það var reynt á fleiri sviðum. Við höfum möguleika til þess að fjármagna símvæðingu í landinu sjálfvirkt og við höfum tekjumöguleika af innflutningum til þess að viðhalda því nýja sjálfvirka kerfi. Og ég er sannfærður um að það gæti lækkað símakostnaðinn verulega. Hann yrði þó hinn sami um landið. Það er bara spurning, hvort menn vilja setjast niður og hugsa málið eða ekki. Við búum ekki í það stóru landi að tiltölulega lítil stöð nægi ekki. Stöð fyrir 240–250 þús. manna þjóð er ekki stór á erlendan mælikvarða og ekki flókinn útbúnaður, slíkt er löngu liðin tíð.