25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4171 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það, sem helst er athugavert við afgreiðslu þessa máls, er það, hversu lengi það hefur verið á leiðinni gegnum þingið. Verkalýðsfélögin, sem væntu þess að fá þessi mál í gegn á tilsettum tíma, þ. e. a. s. skömmu eftir að þau höfðu afsalað sér 3% kauphækkun, hafa orðið fyrir vonbrigðum með hversu löng leiðin hefur verið, hversu langan tíma hefur tekið að koma mábunum í gegn. Ég veit að allur almenningur í landinu, verkafólk sem hefur verið hvað snauðast að réttindum, verður mjög hissa þegar hann heyrir að sendisveinar atvinnurekenda hér á Alþ. halda uppi gagnrýni á þetta frv. og einnig að þeir geri allt það sem í þeirra valdi stendur till að tefja það enn frekar en þeir hafa þó þegar gert, beinlínis leggja til að málið verði látið niður falla nú, en tekið verði upp samráð við vinnuveitendur um þetta mál — við þá vinnuveitendur sem neituðu samt'áði þegar eftir því var leitað. Ríkisstj. hafði óskað eftir samráði við þá um gerð þessa frv. og annars um hvernig bætur kæmu fyrir þau 3% sem launþegar afsöluðu sér, en eftir að hafa mætt einu sinni eða tvisvar til slíks samráðs ákvað Vinnuveitendasamband Íslands að kalla burt fulltrúa sína frá þessu samráði. Því er það þeirra sök að ekki hefur verið haft meira samráð við þá. Þeir hafa ekki viljað það. Því er till. um, að þeir verði aftur knúðir til samráðs, út í hött.

Ég vil spyrja hvernig svona samráð eigi að vera. Hvað vilja þeir fulltrúar, sem hér rísa upp og leggja til að málið verði látið niður falla, að komi í staðinn fyrir þau 3% sem launþegar afsöluðu sér í desembermánuði? Vilja þeir láta þau óbætt eða ekki?

Ég tek undir það með hv. frsm. meiri hl., að hér er um mikið og merkilegt mál að ræða sem hefur mikla þýðingu fyrir verkafólk. Frv. er til þess að auka réttindi þess fólks sem snauðast hefur verið af þeim til þessa. Þetta er í þá átt að jafna kjörin gera tilveruna bærilegri fyrir þá sem minnst mega sín. Ég skora á hv. þdm. að renna málinu í gegn. Það væri d. til sóma og það væri einungis til sönnunar því að við viljum ekki taka þátt í því að tefja það mál sem í n. og með þófi annars staðar hefur verið tafið.