25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4172 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Sjálfstfl. hefur löngum haldið á lofti því kjörorði, að hann væri flokkur allra stétta. Það hefur hins vegar komið skýrt í ljós í vetur, þegar til afgreiðslu hafa verið frv. sem stuðla að því að auka réttindi og bæta kjör launastéttanna í landinu, einkum og sér í lagi lægst launaða fólksins í landinu, að Sjálfstfl. er ekki flokkur allra stétta, þá er hann flokkur Vinnuveitendasambands Íslands eða þeirrar þröngu sérhagsmunaklíku sem þar mótar stefnuna. Sjálfstfl. hefur í þessum umr. fylgt afstöðu Vinnuveitendasambandsins í gegnum þykkt og þunnt.

Sú rökstudda dagskrá, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson mælti fyrir, er hins vegar örlítill vottur um að þeir ágætu menn, sem gerast hér erindrekar Vinnuveitendasambandsklíkunnar, reyna að tefja fyrir og andmæla réttindaaukningu til handa launafólki í landinu. Þeir eru þó aðeins farnir að skammast sín fyrir gjörning og farnir að fela þá andstöðu í till. um frestanir, nánari athuganir og frekari skoðanir á málinu, án þess að nefna eitt einasta atriði sem þurfi nánari skoðunar við, nema það eitt að það þurfi að leita eftir áliti Vinnuveitendasambands Íslands. Það er eins og hv. þm. Sjálfstfl. sé ekki kunnugt um að Vinnuveitendasamband Íslands hefur lýst yfir að það hafi ekkert við launafólk í landinu að tala. Nýlega kom yfirlýsing frá Vinnuveitendasambandi Íslands um það efni, að Vinnuveitendasambandið vildi ekki taka þátt í neinum viðræðum við samtök launafólksins í landinu um að bæta kjörin í þessu landi. Þess vegna er alveg ljóst að á þeim mánuðum, sem eru fram að byrjun næsta þings, eins og segir í þessari dagskrártill., verður ekki um neinar raunhæfar viðræður að ræða, vegna þess að sá aðili, sem hv. þm. Sjálfstfl. ber einkum fyrir brjósti, hefur þegar lýst yfir að hann er ekki til neinna viðræðna um að bæta kjör launafólksins í landinu. Þetta vita hv. þm. Sjálfstfl. fullvel, en þeir segja það ekki hér vegna þess að tilgangur þessarar till. er að koma í veg fyrir að réttindasnauðasta og lægst launaða fólkið í landinu fái þær réttindabætur og þær auknu tryggingar í sjúkdómatilfellum og veikindatilfellum og það atvinnuöryggi sem þessu frv. er ætlað að veita því.

Það er hins vegar mjög gott fyrir okkur hér og fyrir þjóðina, — og þess vegna fagna ég eins og ég gerði fyrr í vetur þegar þm. Sjálfstfl. gerðust í hliðstæðum málum erindrekar forustuklíkunnar í Vinnuveitendasambandinu, — að Sjálfstfl. skuli þó þegar í harðbakkann slær og þegar kemur við budduna hjá Vinnuveitendasambandinu koma hér upp til þess að verja hana. Það er nauðsynlegt að fá hvað eftir annað upp slík ágreiningsmál til þess að launafólkið fái að sjá það svart á hvítu í afstöðu hér á Alþ. hvar Sjálfstfl. stendur þegar kemur að því að bæta kjör lægst launaða fólksins. Þá stendur Sjálfstfl. með allan þingstyrkleika sinn með Vinnuveitendasambandsklíkunni. Ég get fullvissað hv. þm. Þorv. Garðar og aðra talsmenn Sjálfstfl. um að við munum sjá um að þessi afstaða komist til skila. Ekki aðeins nú, ekki aðeins á næstu mánuðum, heldur um áraraðir verður afstaða hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar og þessi tillöguflutningur og væntanleg mótatkv. þeirra um þessi réttindafrumvörp láglaunafólksins rifjuð upp. Þau verða rifjuð upp hér í þingsölunum, þau verða rifjuð upp 1. maí, þau verða rifjuð upp í verkalýðsfélögunum, þau verða rifjuð upp alls staðar þar sem einhverjir fulltrúar Sjálfstfl. standa upp og reyna að telja láglaunafólkinu í landinu trú um að hann sé flokkur allra stétta.