25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4173 í B-deild Alþingistíðinda. (3272)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. sagði að það hefði skort á samráð. Það má vera að nokkuð sé til í því. Hitt er annað mál, að þessi frv., þessi félagsmálapakki svokallaði, sem frv. það, sem hér er til umr., er einn liður af, var sýndur atvinnurekendum og það voru haldnir með þeim fundir. Eins og hv. þm. Karl Steinar kom inn á drógu þeir sig út úr samráðsnefndinni og vildu ekki meira við okkur tala um þau mál. Eigi að síður sendu þeir skriflegar aths. til allra þm., til forsrh. og ríkisstj.

Það var strax á fyrstu fundunum með þeim tekið tillit til helstu aths. þeirra, sem voru á nokkrum rökum reistar, og það var fyrst og fremst um útvíkkun á staðgengilsreglunni. Aths. þeirra um hana voru teknar til greina. Hún er hvergi aukin frá því sem er í gildandi lögum, nema hvað tveir dagar koma fyrir hvern einn í veikindafríum fyrir hvern unninn mánuð í staðinn fyrir einn fyrir hvern einn mánuð, eins og er í núgildandi lögum. Að öðru leyti er staðgengilsreglan hvergi útvíkkuð. Að hinu leytinu til var tekið tillit til aths. þeirra um svokallað „hlaupafólk“, það fólk sem kæmi inn í 1–2 daga og hlypi í burtu og færi svo í næsta starf, að það nyti ekki uppsagnarréttinda. Það var tekið tillit til þessara aths. og það gert í samráði við launþegasamtökin.

Að öðru leyti vil ég minna á að þetta frv. er að öðrum þræði algert réttlætismál. Það er um að ræða að lægst launuðu launþegarnir fái svipuð réttindi, þó ekki þau sömu og í mörgum tilfellum ekki nærri því þau sömu og aðrir landsmenn búa við þegar í dag. Í sjálfu sér hefði því þetta frv. átt að fara í gegn án þess að um væri að ræða neina greiðslu frá launþegasamtökunum. Að hinum þræðinum er frv. uppfylling á loforðum, eins og hér hefur komið fram, sem launþegum voru gefin þegar þeir gáfu eftir 3% af þeirri kaupgjaldsvísitölu sem þeir áttu tilkall til og atvinnurekendur höfðu samið um. Þetta frv. er stærsti liðurinn í því. Ef það yrði tafið núna meira en orðið er væru það hrein svik og þá ættu launþegar kröfu á 3% launauppbót allar götur frá 1. des.

Af þessum ástæðum báðum, bæði er hér um að ræða algert réttlætismál og að hinu leytinu uppfyllingu á gefnum loforðum, leggst ég eindregið gegn þeirri rökstuddu dagskrá sem hér er flutt.