25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4180 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Umr. hér hafa verið harla athyglisverðar á margan hátt. Ég vil í fyrsta lagi átelja sjálfstæðismenn fyrir framsóknarmennsku í málflutningi — framsóknarmennsku sem var hér helst uppi fyrir 10 árum þar sem menn voru með og móti hverju máli.

Þeir tala um það félagarnir Þorv. Garðar Kristjánsson og Guðmundur Karlsson, að þeir séu hlynntir þessu máli, en þó séu þeir á móti því. Þeir flytja till. um að drepa málið algerlega, en samt eru þeir samþykkir málinu og telja sjálfsagt að gera þetta. Ég hygg að þarna séu menn að gegna erindum sem þeir átti sig ekki alveg á hver séu og því takist svo klaufalega til.

Þessu var öðruvísi farið í þá tíð er Bjarni heitinn Benediktsson var foringi Sjálfstfl. Verkalýðshreyfingin hafði við hann mjög gott samstarf og verður þess getið að verðleikum í sögunni. Þá var samið um lífeyrissjóðsmálið og margt og margt fleira. Aðrir tóku síðan við. Enn er það, að verkalýðshreyfingin leggur áherslu á að semja um félagsleg atriði við ríkisvaldið — þau atriði sem ekki nást fram í samningum. Á síðustu árum var samið um að gera sérstakar úrbætur í húsnæðismálum. Ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar sinnum var samið um að gera þær úrbætur. Í öll skiptin var það svikið af þeim mönnum er nú stýra Sjálfstfl. Samið var um það líka að gera úrbætur í heilbrigðis-, öryggis- og hollustuháttum á vinnustöðum. Það var einnig svikið. Það er fyrst núna sem verið er að renna frv. áfram. Það verður lagt fyrir Alþ. næstu daga. En það mál var svikið af fyrri ríkisstj. — mál sem verkalýðshreyfingin hafði lagt mikla áherslu á, en náði ekki fram vegna þess að í ráðherrastólunum voru menn sem voru fjandsamlegir verkalýðshreyfingunni. Nú eru runnir upp nýir tímar. Nú er rætt við verkalýðshreyfinguna eins og verið sé að ræða við einn bróðurinn. Og nú hefur verið gert samkomulag um að verkalýðshreyfingin taki þátt í því, eftir því sem kostur er, að hefta verðbólgu í landinu og jafnframt að hinum ýmsu réttindamálum, sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir, verði komið í höfn.

Það er ekkert leyndarmál, að þau 3%, sem afsalað var í vetur, á að bæta upp með þeim félagsmálapakka sem verið er að afgreiða. Og verkalýðshreyfingin hefur lýst yfir að hún muni taka því fegins hendi. Hitt er annað mál, að það verður tekið eftir því að nú á síðustu dögum þingsins skuli þm. Sjálfstfl. leggja fram rökstudda dagskrá eða nokkurs konar frávísunartillögu. Þeir leggja þar til að launafólk verði svipt þeim samningum sem það gerði í vetur, að þær þúsundir, sem mundu njóta þess að fá fleiri veikindadaga og bætt öryggi, verði af þeim réttindum. Ég harma að það skuli ske og tel að allur almenningur í landinu muni veita því verðuga athygli að það eru einmitt hinir nýju forustumenn Sjálfstfl. sem láta hafa sig í þessi verk. Ég skora nú á þá að greiða frv. atkv. svo að þeir geti verið með í þessum umbótum, og væri það góð viðbót við gifturíkan feril Þorv. Garðars Kristjánssonar í mótun félagsmálalöggjafar á Íslandi ef hann slægist í hópinn, en yrði ekki dragbítur á þetta mál.

Við erum vafalaust allir sammála um það hér, að æskilegast er að aðilar vinnumarkaðarins sjái um samningagerð að fullu og öllu leyti. En þar sem ekki tekst að ná fram sjálfsögðum réttindamálum, þar sem ekki næst samstaða um að bæta úr fyrir þeim sem verst eru settir í þjóðfélaginu verður ríkisvaldið að grípa í taumana og stýra þeim málum. Það er lífsskoðun mín að svo verði að vera. Sagan segir okkur að löggjafinn verður að grípa inn í og hafa forustu um ýmis mál sem aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki getað leyst. Svo var vissulega þegar vökulögin voru sett. Svo var þegar lög um rétt verkafólks voru sett. Svo var þegar jafnlaunalög voru sett í kringum 1960. Og svo var og þegar verkalýðshreyfingin gerði samkomulag við ríkisvaldið um að komið yrði á lífeyrissjóðum og afsalaði sér launum til þess að það gæti orðið.