25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4181 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Jón Ásbergsson:

Herra forseti. Sem nýliði í þessari hv. d. hefði ég að öllu jöfnu kosið að láta það mál, sem hér er til umr., fara fram hjá mér án þess að taka til máls, því að ég hef ekki haft tækifæri til að fylgjast með málatilbúninginum á Alþ. í vetur hvað þetta varðar. En nokkrir hv. alþm. — garpar miklir — hafa kastað spjótum sínum á þá sem þeir kalla útsendara atvinnurekendaauðvaldsins. Nú er það svo, að við erum ekki margir hér á þingi nú sem teljumst til hinnar raunverulegu atvinnurekendastéttar, við erum líklega ekki nema tveir hér í þessari hv. d. og erum þar að auki ekki beinlínis útsendarar þessa auðvalds, en líklega vitum við betur en flestir hér inni hvað þessar sjálfsögðu réttindabætur þýða fyrir atvinnureksturinn.

Ég er algerlega sammála þeim ræðumönnum sem hér hafa talað um þessi réttindi, að þau eru sjálfsögð upp að ákveðnu marki. Réttur, sem nýttur er til hins ítrasta, verður oft og tíðum óréttur gagnvart öðrum. (Gripið fram í: Hvað um hina réttlausu?) Sem dæmi vil ég lesa hér upp eina mgr. 5. gr. þessa frv. Þar segir:

„Allt fastráðið verkafólk, sem ráðið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár samfellt, skal, er það forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa, eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, í einn mánuð.“

Síðan segir áfram að ef viðkomandi hafi unnið 3 ár samfellt skuli hann fá laun greidd í 2 mánuði og hafi hann unnið 5 ár samfellt laun í 3 mánuði. Þetta eru sjálfsögð réttindi. En dómar hafa fallið í Hæstarétti sem útskýra þennan rétt nánar. Rétturinn er sá, að viðkomandi nýtur þessa sjálfsagða réttar í hverju sjúkdómstilfelli, en sjúkdómstilfellin geta verið margs konar, allt frá bakverk eða hausverk upp í lungnaþembu og hvað eina, þannig að einn og sami launþeginn getur verið frá störfum allt árið. Hann getur mætt til vinnu einn dag eða tvo daga og fengið svo eitthvert sjúkdómstilfellið, fengið vottorð út á það og síðan verið frá vinnu. Sá, sem hefur unnið 5 ár eða lengur, þarf ekki á einu ári að hafa nema einhver 4 sjúkdómstilfelli. Þá getur hann verið frá vinnu allt árið. Hugsanlega eru þetta sjálfsögð réttindi. En við þessir litlu karlar, sem enn þá erum í atvinnurekstrinum, berum okkur illa undir þessu: (Gripið fram í.) En hver á þá að bera bölið? Eru það hinir illu atvinnurekendur sem eiga að líða þetta böl einkum og sér í lagi?

hv. þm., sem hér hefur mest talað, neitar því reyndar að hafa verið stóryrtur. Hann kvaðst hafa beitt hversdagslegu máli. Ég segi fyrir mig, að ef hann talar svona hversdagslega á ég varla von á því að hann eigi marga áheyrendur. Það skyldi þó aldrei vera að hv. þm. hafi fengið samviskubit — varla er hann samviskulaus — því að hann er fulltrúi fyrir þann flokk sem fyrir tæpu ári talaði sem hæst um „samningana í gildi“. Þeir skipulögðu útflutningsbönn, yfirvinnubönn og fjöruga fundi. Það hefur ekki orðið af neinu slíku í ár. En þessir hinir sömu menn hafa kauprænt almenning nákvæmlega — 3% kauprán sem átti að endurgreiða m. a. með því frv. til l. sem hér er til umr.

Ég vil að lokum taka undir það með flokksbræðrum mínum, Guðmundi Karlssyni og Þorvaldi Garðari, að þetta réttindamál er sjálfsagt. En á einhvern hátt þarf að takmarka þann rétt, þannig að ekki verði um leið óréttur gagnvart öðrum.