25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4182 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera örstutta aths., sem upphaflega var ætlað að vera við ræðu hv. þm. Jóns Ásbergssonar. En vegna ræðu hv. þm. Jóns Helgasonar vil ég taka skýrt fram, að orðum mínum var ekki beint gegn samvinnuhreyfingunni. Ég hef alltaf gert skýran greinarmun á samvinnuhreyfingunni í landinu annars vegar og Vinnumálasambandi samvinnufélaga hins vegar. Ég er mér fyllilega meðvitandi um þann eðlismun sem þar er á, sem betur fer. Og ég veit að það er ekki langt á milli okkar hv. þm. Jóns Helgasonar um það, hvert beri að stefna í þessum efnum.

Hv. þm. Jón Ásbergsson hefur ekki setið lengi hér í þessari d., en ég hef yfirleitt talið ræður hans fagnaðarefni og vona að hann haldi áfram þann tíma sem hann situr hér í d. og taki sem oftast til'máls. Hv. þm. Jón Ásbergsson hefur ekki enn þá tamið sér — og ætlar kannske ekki að temja sér, og væri það vonandi — þá grímu sem aðrir þm. Sjálfstfl. hafa tamið sér á löngum ferli og ætlað er að dylja hina raunverulegu afstöðu.

Hv. þm. Jón Ásbergsson hafði hreinskilni til þess að koma hér upp og segja að það yrði að takmarka þennan rétt launafólksins í landinu, hann mætti aðeins koma upp á borð löggjafa að vissu marki, en þar ætti að gæta þess að réttur launafólksins í veikindatilfellum, í slysatilfellum og hvað snertir atvinnuöryggi væri takmarkaður. Það er vissulega þakkarvert að þessi nýliði Sjálfstfl. hér í hv. d. skuli hafa hreinskilni til þess að segja það sem hinir í raun og veru meina, en eru að fela með fáránlegri till. um rökstudda dagskrá. Það er álíka hreinskilni og þegar þessi ágæti þm. talaði hér í umr. um efnahagsmál, um efnahagsfrv. forsrh., og eftir að hafa gagnrýnt það lýsti hvað það væri sem hann teldi að ætti að taka við. Jú, það var till. um nokkur stykki nýjar erlendar stórverksmiðjur, erlend stóriðjuver í þessu landi, sem ættu að vera á Suðvesturlandi til þess að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar, — hann væri nú ekki meiri en svo, að nokkur stykki erlend stóriðjuver á Suðvesturlandi gætu leyst þann vanda. Og mér fannst það skemmtileg söguleg tilviljun að hann skyldi flytja þá ræðu sem varamaður hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem frægur varð fyrst að marki í íslenskum stjórnmálum fyrir boðskap sinn um „20 álverksmiðjur takk“, til að leysa efnahagsvanda íslensku þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Já, það er alveg rétt, þeim fer fækkandi.

Munurinn á þessari hreinskilni og annarri afstöðu Sjálfstfl. er að aðrir þm. Sjálfstfl. hafa ekki haft hreinskilni hér í d. til þess að taka umbúðirnar utan af hinni svokölluðu nýju efnahagsstefnu Sjálfstfl., „endurreisn í anda frjálshyggju“, sem þegar hugmyndafræðibúningurinn er tekinn utan af þýðir ekkert annað en aukið erlent forræði í efnahagslífi Íslendinga. Ég vil þess vegna nota tækifærið til þess að hvetja hv. þm. eindregið til þess að taka sem oftast til máls í þessari d., svo að við fáum klárt og kvitt hér í d. og í Alþt. það sem í raun og veru er innan í umbúðunum um stefnumál Sjálfstfl., bæði í efnahagsmálum og gagnvart launafólkinu í þessu landi.