25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. frekar með löngu máli, en mig langar að koma inn á vitnisburð hv. þm. Jóns Helgasonar fyrir Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Hann taldi að þeir væru svo okaðir af Vinnuveitendasambandinu að þeir gætu ekki komið að sjónarmiðum sínum. Ég býst við að þessu sé dálítið öðruvísi farið. Það er svo með þá sem stjórna fyrirtækjum fyrir Sambandið, að þeir eru háðir nákvæmlega sömu lögmálum og þeir sem reka frjáls atvinnufyrirtæki úti á landinu. Þeir gera sér grein fyrir að þeir verða að borga fyrir gerðar skuldbindingar og fyrir áunnin réttindi og alla réttindaauka og verða að gera sér grein fyrir hvort fyrirtækin geti greitt þá bagga sem verið er að binda þeim. Annað held ég það sé ekki.

En mér finnst satt að segja í sumum tilvikum koma fram hjá stjórnarliðum, að það sé núna verið að leiða verkafólkið í landinu á leiðarenda. Ég held að það sé mikill misskilningur. Menn hafa talað um að deilur hafi staðið um þetta mál í áraraðir og jafnvel áratugi. Þetta er alveg hárrétt. Og deilur munu halda áfram. Þetta er eðli þess lífs sem lifað er úti á landsbyggðinni og reyndar hér í Reykjavík líka. Þessir aðilar hljóta að halda áfram að takast á um réttindi og skyldur. Þar breytir engu um samþykkt þessa frv. Þar fyrir er ég á því, að þarna séu sjálfsögð réttindi á ferðinni. En aðferðin til þess að ná þeim tel ég að sé röng.

Eitt er það sem segja má að sé sameiginlegt vandamál vinnuveitenda og verkalýðsforustu. Ákveðinn hópur fólks misnotar áunnin réttindi. Við vitum að læknastéttin á þar í erfiðleikum. Hún er að gefa út alls konar vottorð sem í mörgum tilvikum standast kannske illa. Þetta vita báðir aðilar sem eru þarna í forustu. Það þarf að vinna að því að slík misnotkun verði sem minnst.