25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4185 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Búin er að standa í þessari þd. umr. í hálfan annan klukkutíma, sem ég hef hlustað gaumgæfilega á, og niðurstaðan er sú, að allir virðast sammála um málið. Hér hefur talað hinn ágæti þm. Oddur Ólafsson og sagt að sér fyndust þetta alveg sjálfsögð réttindi, hv. þm. Guðmundur Karlsson að ekki ætti að þurfa að tala um þetta, þetta væru svo sjálfsögð réttindi, og forseti d., Þorv. Garðar, telur þetta alveg sjálfsögð réttindi og skömm að því að vera að gera þau að verslunarvöru. Samt sem áður vilja verkalýðssamtökin þó fá þetta fram í lagaformi og hafa boðið á móti eftirgjöf á vísitölustigum, vegna þess að hvernig sem að málunum hefur verið unnið undanfarið hafa þessi sjálfsögðu réttindi ekki náðst fram. Ég ætla því að vona eftir þá ágætu umr., sem hér hefur farið fram, og yfirlýsingar manna, að öll þd. samþykki þessi sjálfsögðu réttindi.