26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3304)

348. mál, heilsugæslulæknar

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 402 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrrh. Fsp. er um heilsugæslulækna. Hún hljóðar svo:

„1. Hve margir heilsugæslutæknar eru skipaðir í starf utan Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæma?

2. Hve margir ættu þeir að vera samkv. lögum?

3. Hve margir eru skipaðir á H 1 stöðvum, þ. e. í gömlu einmenningshéruðunum?

4. Hve margir ættu þeir að vera samkv. nýju lögunum um heilbrigðisþjónustu?

5. Hvernig hyggst ráðh. leysa læknaskort afskekktustu héraðanna?“

Ástæðan til að ég hef borið fram þessa fsp. er sú, að nú er að verða meira og meira áberandi að lækna skorti í afskekktustu héruðunum, þ. e. a. s. við ýmsar H l stöðvar um landið.

Þegar nefnd var skipuð árið 1970 í þeim tilgangi að búa til nýtt frv. til l. um heilbrigðisþjónustu var það eiginlega fyrst og fremst gert vegna þeirra örðugleika sem þá voru á því að fá lækna til starfa úti í dreifbýlinu. Það leit út fyrir að skapast mundi hreint neyðarástand, vegna þess að það kom þá í ljós að íbúar þorpanna víðs vegar úti um landið sættu sig beinlínis ekki við það öryggisleysi að geta ekki náð til læknis. Var óttast að þetta mundi hafa mikilvæg áhrif á byggðina í landinu. Síðan hefur margt gerst og miklar umbætur orðið í heilbrigðismálum eftir að nýju lögin um heilbrigðisþjónustu voru tekin í gildi í byrjun árs 1974.

Annað vandamál, sem þá var einnig um að ræða, var skortur á heimilislæknum í þéttbýli. Nú er sama ástandið einnig á ferðinni. Gömlu einmenningshéruðin eru mörg í vanda stödd vegna læknaskorts, en enn fremur finnur fólk til öryggisleysis í þéttbýlinu vegna þess að læknar fást ekki til starfa sem heimilislæknar.

Komið hefur í ljós að á H l. stöðvunum, þar sem einn læknir starfar og ekki er mannfjöldi til þess að tveir læknar hafi starfsaðstöðu, er að skapast mikið vandamál. Þetta eru gjarnan sömu staðirnir og áður ollu erfiðleikunum. Hvers vegna fást ekki læknar á þessa staði? Án efa eru margar samverkandi orsakir. Það má nefna einangrun frá starfsbræðrum og enn fremur að þannig hefur verið lítið á að læknar, sem vinna á sjúkrahúsunum í þéttbýlinu, byggju við betri kjör en læknar sem eru einir í fámennum héruðum. Allt þetta er heilbrigðisyfirvöldum ljóst. Hins vegar virðist hafa vafist fyrir þeim að finna lausn á því vandamáli.

Ekki má draga úr því, að þarna sé um mikið vandamál að ræða. Ég held hins vegar að ef áfram á að tryggja búsetu í fámennum byggðarlögum sé nauðsynlegt að finna einhverja lausn á þessu vandamáli. Hef ég borið fram þessa fsp. til að vita hvort nokkuð sé að rofa til í þeim efnum.