26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4207 í B-deild Alþingistíðinda. (3309)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi fsp. hefur komið til umr. og fengist hafa upplýsingar um það mál sem um er spurt, en ég vek jafnframt athygli á því, að þetta tollamál, sem varðar Ríkisútvarpið og ríkissjóð, hefur áður borið á góma í þinginu í vetur. Við afgreiðslu fjárl. gerði ég sérstaklega að umtalsefni hversu verulega tolltekjur væru skertar sem framlag til Ríkisútvarpsins. Jafnframt minntist hv. þm. Lúðvík Jósepsson á þetta mál síðar í vetur og lýsti undrun sinni á því, hversu mjög hlutur Ríkisútvarpsins hefði verið skertur. Þá minnti ég á að það hefði verið ákvörðun stjórnarflokkanna við afgreiðslu fjárl. að ákveða 340 millj. kr. framlag fyrir árið sem nú stendur yfir samkv. fjárl. fyrir árið 1979 og það þrátt fyrir að upplýsingar lægju fyrir um að tekjur af innflutningi sjónvarpstækja væru áætlaðar margfalt hærri. Það er því þýðingarlaust fyrir hæstv. ríkisstj. eða stjórnarsinna að sýnast saklausir og bláeygir þegar þetta mál ber á góma og vandamál Ríkisútvarpsins af því tilefni.

En hæstv. ríkisstj. hefur reyndar sýnt hug sinn til Ríkisútvarpsins með öðrum hætti, en það er með því að halda afnotagjöldum stofnunarinnar verulega niðri. Nú síðast fékkst hækkun á afnotagjöldum af hljóðvarpi og sjónvarpi um ca. 17%, þrátt fyrir að farið hefði verið fram á miklu hærri hækkun á afnotagjöldum hjá Ríkisútvarpinu. Það er vert og nauðsynlegt að geta þess í því sambandi, að þegar útvarpið hóf göngu sína á sínum tíma var gert ráð fyrir að afnotagjald af því væri nokkurn veginn sambærilegt við ársgjald af dagblaði. Þannig var í skamman tíma. Nú er svo komið að ársgjald af dagblaði er 36 þús. kr., en afnotagjöld til Ríkisútvarpsins, bæði fyrir útvarp og sjónvarp, eru 36 þús. kr. M. ö. o. virðist á þessari löngu göngu hafa algerlega gleymst að taka tillit til þess, að búið er að setja upp nýja mikla stofnun þar sem sjónvarpið er.

Það gefst ekki mikill tími til þess að rekja mál þetta mjög ítarlega, en ljóst er að Ríkisútvarpinu er haldið í algeru fjárhagssvelti. Þetta hefur í för með sér gífurlegan samdrátt á allri þjónustu, dagskrárgerð svo og uppbyggingu dreifikerfisins, áframhaldandi litvæðingu o. s. frv. o. s. frv., svo að ekki sé talað um það menningarlega hlutverk og það fræðsluhlutverk sem Ríkisútvarpið þarf að gegna, en getur vitaskuld ekki gegnt í nægilega ríkum mæli vegna þess hversu að þessari stofnun er þrengt fjárhagslega.

Herra forseti. Ég mun ljúka máli mínu með því að vekja athygli á því, að um leið og hæstv. ráðh. upplýsir tölur um að tolltekjur af innflutningi sjónvarpstækja nemi 1100 millj., það vantar upp á 800 millj. til þess að endar nái saman fyrir síðasta ár, er líka gert ráð fyrir í fjárl. fyrir þetta ár að upp á vanti u. þ. b. sömu upphæð. Þetta er ákvörðun núv. ríkisstj. Þetta er sem sagt staðfesting á því, hvaða hug ríkisstj. ber til Ríkisútvarpsins, merkustu menningarstofnunar landsins.