26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4210 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mér nægja tvær mínútur, því að ég get haft skammar signingar yfir þessu máli.

Hér höfum við enn eitt dæmið um stjórnlaus gírugheit fjármálastjórnar í landinu, þar sem ráðamenn fara að feng sínum eins og þjófar á nóttu. En ég vil biðja mína ágætu flokksmenn um að fara með gát að þessu máli þegar þeir halda sig hafa í höndum stór árásarefni á núv. ríkisstj., vegna þess að þessari lögvernd var rift af fyrrv. ríkisstj. og gert með þeim hætti að enginn varð var við. Það var, eins og kom hér fram, fyrst í febrúarmánuði t. a. m. sem ég gerði mér grein fyrir þessu, — og má auðvitað gagnrýna mann fyrir að hafa ekki fylgst betur með afgreiðslu fjárl. Ég gekk að því sem vísu að Ríkisútvarpið nyti tollteknanna eins og gert hafði verið ráð fyrir frá upphafi. Ég hafði enda átt sæti í nefnd ásamt með núv. hæstv. dómsmrh. og fyrrv. þm. Inga Tryggvasyni þar sem við gerðum áætlanir um framhaldsframkvæmdir í þessum málum og gengum út frá því sem vísu að tolltekjur rynnu til framkvæmda við dreifingu sjónvarpsins. Við gerðum að vísu ekki ráð fyrir svo stórfelldum tekjum sem raun ber vitni um, en allt að einu voru mál skipulögð og skýrslu skilað með tilliti til þessa.

Enn er margt ógert í þessum málum. Sjónvarp fór mjög myndarlega af stað á sinni tíð og náði skjótari framgangi en menn gátu þá gert sér vonir um. Allt að einu liggur margt ógert eftir, eins og dreifing sjónvarpsins til hundraða sveitabýla, og við það verður ekki unað. Eins liggur það óbætt hjá garði að huga að dreifingu sjónvarps til sjómanna á hafi úti.

Nú hefur komið fram hjá hæstv. menntmrh., að hann telur, og ég tek undir þá skoðun hans, að umrætt fé sé vangreitt til Ríkisútvarpsins. Það mál verður að leiðrétta. Skila verður þessum ránsfeng aftur. Við skulum sameinast um það og láta lönd og leið, a. m. k. í þessu falli, að fljúgast á pólitískt þessa vegna.