26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4211 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er satt að segja meira en árlegt viðfangsefni í hv. Alþ. að ræða um dreifingarkerfi sjónvarpsins. Er sannarlega ástæða til þess, því að það er, eins og hér hefur komið fram, ákaflega mikið stórmál hvernig til tekst að koma sjónvarpsefni til landsmanna og útvarpsefni yfirleitt. Það er, eins og kemur fram hjá hverjum ræðumanni á eftir öðrum, engin þörf á að ræða um menningargildi sjónvarpsins. Það er hlutur sem menn gefa sér. Yfirleitt er aldrei hugað neitt að því, hvernig Ríkisútvarp og sjónvarp framfylgja menningarpólitík og fréttapólitík sinni og þarf ekki heldur að gera hér. Ég held að menn taki það allt sem góða og gilda vöru. En ég er sem sagt alveg sammála mönnum um að sjónvarpið er mikið menningartæki og útvarpið líka, og þá er það auðvitað frumskylda ríkisvaldsins að dreifa sjónvarpsefninu sem víðast út um landið.

Í þessum umr. kemur í ljós í svari hæstv. ráðh., að 320 sveitabæir hafa ekki sjónvarp. Ég sé ekki betur en það sé þá verkefni okkar að vinna að því að úr þessu verði bætt. Og ég er alveg sannfærður um að tiltölulega auðvelt er að gera það á fremur stuttum tíma. Ég held það verði langbest gert með því að framfylgja út í æsar framkvæmdaáætlunum sem fyrrv. menntmrh., hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, beitti sér fyrir í sinni ráðherratíð um dreifingu sjónvarpsins. Þó kann að vera að endurskoða þurfi eitthvað þessa áætlun og er þá sjálfsagt að gera það. En í því sambandi er auðvitað nauðsynlegt líka að tryggja stærri hluta af tolltekjum til dreifingar sjónvarpskerfis. Hæstv. ráðh. upplýsir að þetta sé ekki lögvernduð krafa, það sé ekki lögverndað nú að allar tolltekjur af innfluttum sjónvörpum gangi til dreifikerfisins, og mun það rétt vera, enda verð ég að segja það í allri hógværð að mér fyndist einum of mikið að ætla að krefjast þess að hver einasta króna, sem kemur inn í tekjur af sjónvarpinu, gangi til dreifingar sjónvarpsins. Ég held hins vegar að það sé alveg nauðsynlegt að unnið verði að því, að stærri hluti af tolltekjunum en nú er gert ráð fyrir gangi til sjónvarpsdreifingarinnar.

Í því sambandi vil ég líka minnast svolítið á hljóðvarpið sjálft. Það eru um það bil 50 ár síðan það hóf starfsemi sína. Það stendur þannig eftir 50 ár, að enn þá eru mjög slæm hlustunarskilyrði víða um land — ótrúlega slæm. Ég gæti trúað því, að fleiri bæir hefðu svo slæm hlustunarskilyrði í sveitunum að ástandið væri verra að því leyti en hvað varðar sjónvarpið. Er því að mörgu að hyggja í sambandi við þessi mál. — En ég vil leggja á það mikla áherslu, að sjónvarpsdreifingunni verði haldið áfram eftir skynsamlegri framkvæmdaáætlun, eins og reyndar fyrir liggur, og að Ríkisútvarpinu verði tryggður eðlilegur hluti af tolltekjum til þessara þarfa.