06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með hvað góðar undirtektir það hefur fengið, að brýn nauðsyn er á að stórátak verði gert í málefnum öryrkja, þó að ýmsar aths. hafi komið fram um efnisþætti frv. og þrátt fyrir að sitt sýnist hverjum um þá tekjuöflun sem þessum sjóði er ætluð.

Hér hafa komið fram þær aths., að rétt og eðlilegt sé að sérkennsla sé fjármögnuð með fjárframlögum beint úr ríkissjóði og ekki ætti að þurfa að koma til ákveðinn tekjustofn. Ég get vel fallist á þau rök, að það hljóti að vera eðlilegast að öll sérkennsla sé fjármögnuð beint úr ríkissjóði, eins og ég reyndar kom inn á í framsögu minni. En ég bendi enn og aftur á, að á meðan þess sjást engin merki, að sú áætlun, sem ráð er fyrir gert um sérkennslu, standist, eins og framlög á fjárlögum ótvírætt bera merki, þá tel ég að þessi sjóður eða þessi ákveðni tekjustofn eigi fyllilega rétt á sér. Ég vil þakka sérstaklega hv. þm. Gunnari Thoroddsen fyrir undirtektir hans við að markaðir tekjustofnar geta í mörgum tilfellum átt fyllilega rétt á sér.

Þær endurbætur, sem hv. þm. Matthías Bjarnason benti á að gerðar hefðu verið á almannatryggingalögunum um aðbúnað öryrkja til vinnu, eru vissulega góðra gjalda verðar. En það breytir á engan hátt þeirri staðreynd, að enn vantar mikið á starfsþjálfun öryrkja til þess að þeir geti átt þess kost að komast út á hinn almenna vinnumarkað. Eins og ég benti á í minni framsögu, vantar enn verndaða vinnustaði fyrir í kringum 1000 manns.

Að lokum er ég enn staðfastlega þeirrar skoðunar, að ákveðinn tekjustofn á rétt á sér á meðan fjárlög bera þess engin merki að aukin framlög verði veitt til þeirra mála sem þetta frv. gerir ráð fyrir.