26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4220 í B-deild Alþingistíðinda. (3327)

350. mál, Skógrækt ríkisins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyr anda kom fsp. fram um sama efni á Alþ. á síðasta ári. Í þessari fsp. er spurt um ákvarðanir í ljósi ákvæða stjórnarsamnings um stofnanaflutning. Staðreyndin er sú, að frá því að fsp. var svarað á síðasta ári hafa aðstæður að engu leyti breyst. Þótt kostnaðartölur hafi eflaust eitthvað hækkað eru þær í grundvallaratriðum eins. Enn þá eru aðstæður þær, að flutningur aðalskrifstofunnar á Austurland mundi kosta verulega fjárfestingu í húsakosti og skrifstofuhaldi, aukinn rekstrarkostnað stofnunarinnar og verra samband við starfsmenn og verkefnastjórn en nú er. Skilningur minn var sá, að þetta mál hefði verið afgreitt á s. l. vori þannig að horfið hefði verið frá því að flytja aðalstöðvar Skógræktar ríkisins á Austurland.

Aðeins til að rifja upp meginþætti þessa máls vil ég geta þess, að í þeirri nefnd, sem var skipuð af hálfu landbrn. á sínum tíma, sátu 3 menn: Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri, Sigurður Blöndal skógræktarstjóri og Jón E. Böðvarsson deildarstjóri. Þessi nefnd sendi fyrirspurnir fjölmörgum aðilum, m. a. öllum skógarvörðum. Jafnframt lét hún gera kostnaðaráætlun á flutningi Skógræktarinnar til Austfjarða, bæði á Hallormsstað og til Egilsstaða. Í ljós kom að um 70 millj. yrðu stofnkostnaður við slíkan flutning og verulega ykist rekstrarkostnaður vegna fleiri ferða. Jafnframt kom í ljós að allir skógarverðir, að undanteknum einum, lögðust gegn því, að Skógræktin yrði flutt. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þann kafla úr nál. sem heitir: „Um ávinning og annmarka við flutning“. Þar segir:

„Nefndinni bárust svör við fsp. sínum frá flestum þeim sem fsp. var beint til. Allir skógarverðir, að einum undanskildum, mæla gegn flutningi aðalskrifstofunnar frá Reykjavík, sömuleiðis allir stjórnarmenn Skógræktarfélags Íslands að undanskildum formanni félagsins.

Rök þeirra, sem mæla með flutningi, byggjast á: að aðalskrifstofa Skógræktarinnar eigi að vera þar sem skógrækt er mest og best og dreifing ríkisstofnana hafi þýðingu fyrir þróun byggða og stuðli að jöfnun á aðstöðu þegnanna; að flutningur geti orðið lyftistöng fyrir skógrækt í næstu héruðum; að starfsmönnum geti verið hvatning að vera í nánd við skógrækt á Hallormsstað sem sé hvað elst og fjölbreyttust í landinu.

Annmarkar, sem bent hefur verið á, eru m. a. þessir: 1. Samstaða Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands mundi torveldast. 2. Mun meira fé færi í margvíslegan kostnað, þ. á m. ferðakostnað, sem væri betur varið til aukins ræktunarstarfs. 3. Erfiðara yrði um erindrekstur og almenn samskipti við Skógrækt ríkisins. 4. Verri aðstaða skapaðist við að sinna innlendum og erlendum gestum og öðrum þeim sem erindi eiga við aðalskrifstofu Skógræktarinnar sem jafnframt verður þörf á að sinna. 5. Þá er bent á að þrátt fyrir að um langt skeið megi sýna mestan árangur í skógrækt á Hallormsstað, hvort sem um er að ræða íslenskan birkiskóg eða ræktun innfluttra tegunda, séu meiri umsvif í skógræktarstarfi á öðrum svæðum landsins. Þannig hafi 70% gróðursetningar áranna 1971–1975 átt sér stað á Suður- og Vesturlandi, en 13% á Austurlandi. Einnig er bent á að aðalmarkmið Skógræktar ríkisins sé að vernda og bæta skóga og skógarleifar. 62% þess skóglendis, sem er í hnignun, sé sunnan- og vestanlands, en á Austurlandi séu tæp 16% alls skóglendis og þar af aðeins 23% í hnignun.

Nefndinni hefur borist svar frá menntmrn. varðandi fsp. um aðstöðu á Hallormsstað og telur rn. ekki gerlegt að gefa kost á húsnæði Húsmæðraskólans að Hallormsstað til afnota fyrir Skógrækt ríkisins. Þá er upplýst að 1/4 hluti mannvirkja Húsmæðraskólans er í eigu sýslu- og bæjarfélaga á Austurlandi og hefði orðið að kaupa þann eignarhluta ef kostur hefði verið gefinn á húsnæði handa Skógrækt ríkisins.

Þannig varð það niðurstaða meiri hl. nefndarinnar, að ekki væri rétt að flytja Skógrækt ríkisins á Hallormsstað eða Egilsstaði“.

Ég vil svo segja að lokum, að sjálfur hef ég lengi verið hlynntur því að flytja starfsemi hins opinbera frá höfuðborgarsvæðinu. Ég hef hins vegar, eftir að ég hef skoðað mörg slík tilfelli, komist að þeirri niðurstöðu að í langsamlega flestum tilfellum er æskilegri lausn að setja á fót deildir frá viðkomandi stofnunum á þeim landshornum sem þörfin er mest. Staðreyndin er sú, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að samgöngur við höfuðborgarsvæðið eru langsamlega bestar — eða a. m. k. skástar — hér á landi og þjónusta ríkisstofnana, ef einangraðar eru hingað og þangað um landið, verður stórum minni og rekstrarkostnaður þeirra margfalt meiri. Þess vegna held ég að sú lausn sé einna best að setja á fót útibú. Þó á þetta ekki alls staðar við, t. d. ekki um ýmsar menntastofnanir sem sjálfsagt er ekki síður hagkvæmt — og að mörgu leyti betra af ýmsum ástæðum — að staðsetja utan þéttbýtissvæðisins. En með tilliti til þess þrýstings, sem er nú á að spara í ríkiskerfinu, m. a. að draga úr útgjöldum um milljarða, þó að það sé ekki komið til framkvæmda, hef ég ekki treyst mér til þess að fara fram á fjárveitingu til þess að flytja Skógrækt ríkisins. Samt væri það út af fyrir sig að ýmsu leyti ánægjulegt verkefni.