26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

350. mál, Skógrækt ríkisins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Orð mín skulu ekki verða mörg að þessu sinni. Það er rétt að ánægjulegt væri að geta sett ýmsar opinberar stofnanir niður víðar um landið. Ég ítreka það. En ég vil, af því að hv. fyrirspyrjandi nefndi reynslu annarra landa, nefna að ég kynnti mér þetta í Noregi. Hafði ég tækifæri til þess eitt sinn er ég kom þangað á vegum Framkvæmdastofnunar. Þar var mér sögð sú reynsla þeirra, að þeim hefði reynst ákaflega vafasamt að flytja heitar stofnanir frá höfuðborgarsvæðinu og setja niður víða um landið. Niðurstaðan hjá þeim hefði því orðið sú sem ég nefndi áðan, að setja upp deildir, en þó væru menntastofnanir í sérflokki. Þetta sögðu þeir mér.

Þeir nefndu þetta alveg sérstaklega í rn. sem höfðu með þessi mál að gera. Mér þóttu þessar upplýsingar fróðlegar.

Þótt ég upplýsi þetta þarf það ekki að ákveða hvað við gerum. En þegar á sama tíma er neitað um ýmsar mjög mikilvægar og óhjákvæmilegar fjárveitingar til stofnana landbúnaðarins er ákaflega erfitt að láta svona mál sitja í fyrirrúmi. Ég ætla ekki nú að fara að telja slíkt upp. Það veit ég að hv. þm. þekkir. Ég veit að hann hefur beitt sér fyrir ýmiss konar fjárveitingum þótt ekki hafi náð fram að ganga. Við erum nú með ýmsa starfsemi þannig stadda, að hún stöðvast ef við fáum ekki aukafjárveitingar á næstunni. Þess vegna endurtek ég að ég get a. m. k. ekki sett svona framkvæmd efst á blað. Slíkt hlýtur að verða neðar og fyrir aftan ýmislegt sem bráðnauðsynlegt er til að halda því gangandi sem nú er.

Mér finnst að vel kæmi til greina ef fjárveitingavaldið vildi beinlínis setja til hliðar í fjárl. ákveðna upphæð vegna flutninga stofnana og síðan fjallaði viðkomandi rn. og undirnefnd fjvn. um þær stofnanir, sem til greina kæmu. Ef þetta yrði gert á fjárl., en ekki sett inn á rekstrarlið eða stofnkostnaðarlið viðkomandi rn., hygg ég að málið væri að því leyti auðveldara viðfangs.