26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4223 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

250. mál, málefni þroskaheftra

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er vegna þeirra orða hv. fyrirspyrjanda, hve lengi þetta hefði legið á borðum ráðh., sem ég vildi gera aths., — ekki að ég ætli að fara að taka að mér málsvörn fyrir hæstv. ráðh. Alþfl. hér, enda gæti það teygst æðilangt ef ætti að fara að gera það.

Í sambandi við þetta sérstaka mál vildi ég geta þess að það hefur dregist allt of lengi. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda. En eins og segir í aths. við lagafrv., sem nú hefur verið lagt fram, hélt nefnd, sú sem samdi þetta frv., sinn fyrsta fund 18. sept. s. l. og skipti með sér verkum. Alls hélt nefndin 22 fundi og lauk störfum í ofanverðum marsmánuði 1979. Ég vildi aðeins að fram kæmi að nefndin lauk þá störfum.

Auðvitað fagna ég eins og hv. fyrirspyrjandi því, að mál þetta er komið fram. Ég hreyfði þessu máli fyrst í þáltill. ásamt öðrum góðum þm. sem höfðu áhuga á því. Frv. er sem sagt komið á okkar borð og ber sannarlega að fagna því. En ég held að það, sem segir í aths. með frv., sé það rétta í málinu.