26.04.1979
Sameinað þing: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4226 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

261. mál, ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta í fræðsluumdæmum utan Reykjavíkur

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í grunnskólalöggjöfinni, sem samþ. var fyrir 5 árum, eru fjöldamörg ákvæði sem horfa til hins betra og stefna að því að auka þá þjónustu sem skólarnir veita. Þar er annars vegar um að ræða talsverða magnaukningu í þjónustu skólakerfisins og svo hins vegar aukin gæði þess. Sem dæmi nm magnaukningu má nefna að skólatími á hverju ári var heldur lengdur samkv. ákvæðum grunnskólalaganna og stefnt hefur verið að auknu kennslumangi. Hins vegar eru líka, eins og ég sagði, fjöldamörg ákvæði um aukin gæði skólakerfisins og þau tel ég satt best að segja að séu allmikilsverðari en hin sem stefna að magnaukningu. Ágætt dæmi um ákvæði af þessu tagi eru þau ákvæði, sem nefnd eru í þáltill. þeirri sem hér er til umr., að komið verði upp ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í öllum fræðsluumdæmum landsins.

Þeir, sem vel þekkja til í skólakerfinu, vita sem er, að í þessum efnum er hörmulegt ástand víða um land, þar sem þeir nemendur, sem þurfa á slíkri þjónustu að halda, verða að leita suður á höfuðborgarsvæðið ef þeir eiga einhverja úrlausn að fá og skólastjórar og kennarar lenda oft í hinum mesta vanda vegna skorts á þessari þjónustu. Hér er því alveg örugglega hreyft mjög merku máli. Ég tek undir það, sem fram kom í þeirri ágætu ræðu, sem flutt var máli þessu til stuðnings, að brýn þörf er á að hraða því að þessi ákvæði komi til framkvæmda, þau verði ekki aðeins orðin tóm.

Hv. þm. nefndi það áðan, að við lifðum á sparnaðartímum og ekki væri víst að mikið svigrúm væri til að auka kostnað af þessu tagi meðan þeir erfiðleikatímar gengju yfir. Vissulega er það rétt, en ég tek hins vegar mjög sterklega undir það með henni, að hér er um að ræða mál sem er þess eðlis að jafnvel þótt við verðum að horfa í hverja krónu þegar um fjármál ríkisins er að ræða er ekki hægt að bíða öllu lengur eftir því að þessi þjónusta sé veitt. Í menntmrn. höfum við unnið að því á undanförnum vikum að gera till. til fjmrn. um ýmiss konar hagræðingu og sparnað í skólakerfinu, enda eru öll rn. önnum kafin við þetta verkefni og við í menntmrn. getum ekki fremur en aðrir vikið okkur undan því að reyna að auka hagkvæmni og draga úr óþörfum kostnaði. En samtímis þessu höfum við ákveðið að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta verði hafin í öllum fræðsluumdæmum landsins á n. k. hausti, vegna þess að við teljum að það mál þoli ekki lengri bið. Að vísu verður fyrst í stað að fara hægt, eins og oft vill vera, og ekki er stefnt að flóknara skipulagi. Gert er ráð fyrir að einn starfsmaður vinni að þessu verkefni í hverju fræðsluumdæmi, en það er vissulega mikil bót frá því sem nú er.

Í síðari mgr. till. er vikið að því, að til greina gæti komið að sérfræðingar ferðuðust milli viðkomandi byggða og kæmu þá a. m. k. tvisvar á hverju ári í öll skólahéruð landsins, en kostnaðurinn yrði þá til bráðabirgða að fullu greiddur úr ríkissjóði. Ég vil strax taka fram, að framkvæmd þessara till. mundi væntanlega krefjast einhverrar skipulagsbreytingar, jafnvel lagabreytingar. En í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að kostnaður af þessari þjónustu greiðist að hálfu leyti af sveitarfélögum og af hálfu leyti af ríki. Þarna væri vissulega brugðið út frá þeirri reglu. Ég tel hins vegar að þetta komi vel til greina og tel að þessa hugmynd beri að athuga vandlega. En aðalatriði málsins er frá mínu sjónarmiði að þegar á næsta hausti verði hafist handa um að koma þessum ákvæðum grunnskólalaganna í framkvæmd með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í öllum fræðsluumdæmum landsins. Það er að vísu aðeins fyrsta skref, en vonandi góð byrjun.