26.04.1979
Sameinað þing: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4228 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

233. mál, aðstoð við aldraða og öryrkja við lagfæringar á gömlum íbúðum

Flm (Bragi Níelsson):

Herra forseti. Þáltill., sem ég flyt á þskj. 463, hljóðar svo með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að kanna hið bráðasta þarfir aldraðs fólks og öryrkja, sem búa við olíukyndingu íbúða, fyrir lagfæringar á hitaeinangrun þeirra. Jafnframt verði leitað ráða til að aðstoða þetta fólk með beinum fjárstyrkjum eða mjög hagkvæmum lánum til þessara framkvæmda.“

Hér komum við að vanda sem er tvíþættur: Í fyrsta lagi vanda gamla fólksins, sem býr í gömlum íbúðum, sem gjarnan voru byggðar af vanefnum og alls ekki með þeim gæðakröfum sem nú eru gerðar til bygginga. Einnig hafa þessi hús oft og tíðum ekki notið þess viðhalds sem þurft hefði. Aldur, hnignandi heilsa og bág fjárhagsgeta valda því að íbúarnir hafa ekki megnað að bæta bústaði sína með viðhaldi, aukinni einangrun, bættum gluggum, teppuðum gólfum o. s. frv., svo að útkoman verður mikill hitunarkostnaður og kaldar íbúðir sem aukið hafa á vanlíðan gamla fólksins og spillt heilsu þess. Í öðru lagi er hinn mikli kostnaður sem er við að kynda upp hús með olíu. Hann er nú þegar fjór- til fimmfalt hærri en hjá þeim sem búa við hin hagstæðu kjör hitaveitunnar hér í Reykjavík, en fyrirsjáanlegar hækkanir á olíu munu auka kyndingarkostnaðinn svo hundruðum þús. kr. nemur á hverja íbúð á ári. Við vitum að olíustyrkur eins og hann hefur verið kemur þessu fólki ekki að viðhlítandi gagni, því að hann er fremur miðaður við stærð fjölskyldu en íbúðar og kemur því vel út fyrir barnafjölskyldur, en illa fyrir einstæð gamalmenni sem búa því miður oft í allt of stórum íbúðum.

Það er ekki fjarri lagi að álykta að kyndingarkostnaður á meðalíbúð á ári geti farið upp í 400–500 þús. kr. þegar olíuhækkanirnar eru komnar fram. Það væri meira í lélegum íbúðum, en minna í vönduðum. En hversu gífurlegur skattur þetta er á gamalmenni og öryrkja getum við best séð á því að athuga lífeyrisgreiðslur til þess fólks. Ég miða við 1. des. s. l. Þá kemur í ljós að elli- og örorkulífeyrir einstaklings er 50 887kr. á mánuði eða rúmlega 610 þús. kr. á ári, en tekjutrygging 46 þús. kr. á mánuði eða rúmlega 560 þús. kr. Þetta samanlagt gerir því rúmlega 1171 þús. kr. á ári. Læt ég þá öðrum eftir að reikna út hvað eftir er til annarra nauðþurfta en hlýjunnar á heimilinu.

Ég get ekki um það sagt, til hversu margra einstaklinga sú aðstoð næði sem getið er um í till., en þó hef ég nokkrar tölur til glöggvunar. Á árinu 1977 voru ellilífeyrisþegar 11 268 einhleypir og 2896 hjón eða 17 082 einstaklingar. Öryrkjar voru 3134 einhleypir og 170 hjón eða 3474 einstaklingar. Samtals 20 556 einstaklingar. Nú ber þess að geta, að fjöldi þessa fólks þarf engrar aðstoðar með vegna góðrar aðstöðu og góðra efna og allmargir njóta vistunarheimila. Orkustofnun gefur mér þær upplýsingar, að á síðustu áramótum hafi hitaveita verið hjá um 65% þjóðarinnar, en um 10% hafi notið rafhitunar og um 25% þjóðarinnar hafi búið við olíukyndingu. Af þessu mætti því ætla að ekki yrði um stórkostleg útgjöld að ræða þótt farið yrði að þessari till.

Nú vil ég ekki halda því fram, að ég sé neinn frumherji þeirrar hugmyndar sem fram kemur í þáltill., því að í lögum frá 1972 er heimild til húsnæðismálastjórnarinnar til lánveitingar til kaupa eldri íbúða og til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja og 1976 bættust ellilífeyrisþegar í þann hóp. En annaðhvort er að mönnum hefur verið lítt kunnugt um þennan möguleika eða þessi lán hafa ekki þótt fýsileg. Þetta eru jafngreiðslulán sem endurgreiðast á 15 árum með 60% vísitölutryggingu og með 9.75% vöxtum. Í grein, sem Sigurður E. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Húsnæðismálastofnunarinnar, skrifar í fréttablað Sjálfsbjargar í marsmánuði kemur fram, að engri umsókn hefur nokkru sinni verið synjað um þetta lán, en samt hafa ekki verið veitt lán nema til 24 íbúða árið 1977 og 28 íbúða 1978. Þetta þykir mér styðja þá skoðun að þetta fólk veigri sér við að hleypa sér í skuldir, ekki síst þar sem tekjur eru lágar.

Þegar þess er gætt, að þriðjungur til helmingur af tekjum þessa fólks fer til olíukaupa, virðist ekki ósanngjörn krafa að hið opinbera komi þarna til aðstoðar með beinum styrkjum. Hvert form yrði haft á slíkum styrkjum kemur ekki fram í till., en þar er vissulega um margar leiðir að ræða. Þar sem getur um mjög hagkvæm lán í till. þessari vil ég aftur vitna í fyrrnefnda grein Sigurðar E. Guðmundssonar, þar sem hann bendir á að í sumum nágrannalöndum okkar sé sá háttur á hafður í sambandi við slík lán sem hér um ræðir að lánin séu afborgunarlaus meðan sá búi í íbúðinni sem á láninu þurfti að halda, en þegar hann sé farinn brott úr henni hefjist greiðslur afborgunarinnar. Slíku fyrirkomulagi tel ég að þyrfti að koma á hér. Það væri bæði þarft og réttlátt.

Herra forseti. Þegar þessari umr. verður frestað legg ég til að þáltill. verði vísað til hv. allshn.