27.04.1979
Efri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4239 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég þarf í raun og veru ekki að hafa mörg orð um þetta frv. til viðbótar því sem hæstv. ráðh. hefur komið inn á í ágætri framsögu sinni. Hann kom inn á flest þau atriði sem máli skipta og skýra að þetta mál er nú komið fram á Alþ. sem frv. til heildarlöggjafar um aðstoð við þroskahefta. Ég vil aðeins óska hæstv. ráðh. til hamingju með að fá tækifæri til að flytja þetta frv. og hafa gert það á þann veg sem hann hefur gert.

Ég ætla ekki að rekja sögu þessa máls langt aftur í tímann, aðeins hvernig mál þetta hefur komið inn á borð okkar þann tíma sem ég hef hér setið.

Á þinginu 1975–1976 var flutt till. til þál. um heildarlöggjöf varðandi málefni vangefinna og var hún endurflutt af þm. úr öllum flokkum. Auk mín, sem var 1. flm. þá, voru flm. þeirrar till. Karvel Pálmason, Sverrir Bergmann, Sigurlaug Bjarnadóttir, Bragi Sigurjónsson og Jónas Árnason. Í þessari till. var skorað á ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fram frv. til l. um heildarskipulag varðandi öll málefni vangefinna og löggjöfin ætti að taka mið af eftirfarandi meginatriðum: 1. Stefnt skyldi að því að koma á heildarkerfi, framtíðarskipan í samræmi við þau viðhorf sem ríkja í þessum málum og þær þjóðir byggja á sem lengst eru á veg komnar. 2. Löggjöfin spannaði þannig yfir heilsugæslu, kennslu og þjálfun og félagslega þjónustu hvers konar og samræmdi alla þessa þætti undir einni heildarstjórn.

Í grg. með till. var auðvitað gengið út frá þeim höfuðatriðum sem hæstv. félmrh. hefur nú komið rækilega inn á, þ. e. a. s. jafnrétti til þeirra samfélagslegu gæða sem aðrir njóta og aðhæfing þessa fólks að þjóðfélaginu í eins ríkum mæli og mögulegt er með skipulegum aðgerðum. Í grg. var sagt, að í hvoru tveggja varðaði það mestu að starfið væri hafið sem fyrst, því meiri væru möguleikarnir á því að um sem eðlilegasta lifnaðarhætti væri að ræða og því meiri væru þroskamöguleikar þessa fólks almennt. Við flm. bentum á það, að um tvennt væri að ræða fyrir löggjafann í þessum efnum: nýja heildarlöggjöf eða endurskoðun núgildandi laga , um fávitastofnanir. Niðurstaða okkar flm. var vitanlega sú, að hér gilti ekki endurskoðun, hér gilti nýskipan í formi nýrrar löggjafar.

Rétt er í þessu sambandi að geta þess, að það var einmitt að frumkvæði núv. formanns Landssamtakanna Þroskahjálpar, Margrétar Margeirsdóttur, sem þetta mál komst hér inn í þingsalina. Það er því full ástæða til að geta þess um leið, að einmitt þau samtök, Landssamtökin Þroskahjálp, sem spanna yfir landið allt, fagna þessu frv. mjög einlæglega. Þar stendur að baki mjög einhuga hópur foreldra, styrktarfélaga og þeirra sem með þessi málefni fara í heild og starfa að þeim beint eða í tengslum við hinar ýmsu stofnanir og hina ýmsu þætti félagsmála sem þessi mál snerta. Ég tel einnig að almenningur í landinu í heild standi miklu fastar hér að baki en áður hefur verið. Það er því áreiðanlegt að fylgst verður með þessu máli af hundruðum manna, svo að ekki sé meira sagt — þúsundum manna væri e. t. v. nær að segja, sem eru félagar í þessum samtökum og starfa að þessum málum á einhvern hátt, og fylgst einmitt með því að þm. sýni nú að þeir fylgi þessu máli það vel eftir að það komist sem allra fyrst í þá eðlilegu framkvæmd sem hæstv, ráðh. var áðan að lýsa.

En ég má þá til með að fagna því um leið, að hér hefur orðið á breyting til hins betra. Það urðu sannarlega vonbrigði fyrir okkur flm. þegar allshn. Sþ. afgreiddi till. okkar á mjög einfaldan máta á sínum tíma. Þáltill. var sem sagt vísað til ríkisstj., ekki til þess að semja nýja heildarlöggjöf, heldur til þess að gaumgæfa þessi mál svolítið betur, vinna að aukinni samvinnu í málefnum vangefinna og reyna að láta meira fé af hendi rakna til þessara mála. Svo var tekið fram í nál. annars ágætra nm., sem ég veit ekki til að séu þessu máli út af fyrir sig andvígir í raun, að ekki væri víst að heildarlöggjöf væri möguleg eða leysti allan vanda í þessu máli. Okkur flm. till. datt auðvitað aldrei í hug að löggjöf sem slík leysti allan vanda, svo að þetta var óþörf aths. frá þeim nm. sem stóðu að nál. En þetta var sem sagt niðurstaðan. Málinu var vísað til ríkisstj. Menn töldu ekki þá, fyrir ekki meira en þremur árum, ástæðu til að koma á heildarlöggjöf sem slíkri. Og bent var á það, sem er að mörgu leyti rétt, að í ýmiss konar löggjöf væri að finna ákvæði sem gætu, ef þannig væri á haldið, stutt ýmis þau atriði sem fram á væri verið að fara með till. um heildarlöggjöf.

Um leið og ég fagna frv. nú hlýt ég að rekja þetta sem dæmi, að því er ég tel, um beina hugarfarsbreytingu og bendi alveg sérstaklega á þann almenna þrýsting, sem á þessi mál hefur verið, og hinn almenna skilning hjá almenningi sem hefur farið svo mjög vaxandi. Skal ég þó ekkert draga úr, eins og ég hef áður sagt, því frumkvæði og þeim vilja sem hæstv. núv. ríkisstj. með félmrh. í broddi fylkingar hefur sýnt þessu máli, sem hefur auðvitað orðið til þess að reka endahnútinn á. Sannast sagna var of lítill skilningur, án þess að hægt sé að fara nánar út í það, á þessu máli hjá þeim rn. eða ráðh. sem áður fóru með þessi mál, þó að þeir vildu ýmislegt þar vel gera, þ. e. a. s. skilningur á því að slíkri heildarlöggjöf yrði komið á. Þeir töldu hitt sem sagt nægja.

Ég ætla sem sagt ekki að fara að ásaka menn hér mjög fyrir að hafa ekki skilið þessi mál betur en raun ber vitni fyrir ekki lengri tíma en þetta. Og ef meginástæðan hefði verið sú sem stundum heyrist, að slík löggjöf væri óþörf með öllu vegna þess að jafnrétti væri sjálfsagt, það þyrfti ekki löggjöf af þeim ástæðum að þetta ætti að vera sjálfsagt og koma af sjálfu sér í löggjöf um hin ýmsu félagslegu og menningarlegu atriði sem við höfum, hefði ég ekki rifjað þetta upp. En það var því miður ekki svo, enda vitum við að hér þarf aukaátak. Við vitum að við erum það langt á eftir að við þurfum að gera sama aukaátak og aðrar þjóðir hafa gert í þessum efnum til að ná upp jafnrétti. Þar duga okkur ekki hin almennu lög, þó að góð séu og sjálfsagt sé að gæta þess í hvívetna þegar við setjum þau lög að það jafnrétti sem hér er að vikið, sé tryggt í hvívetna. En milliskrefið að hinu fullkomna jafnrétti verður að stíga. Það er stigið með þessu frv., að ég tel, í mjög veigamiklum atriðum — þeim veigamestu, vil ég segja, — og því ber að fagna alveg sérstaklega.

Um frv. sjálft þarf ég ekki að hafa mörg orð. Ég hef átt þess kost vegna stjórnaraðildar að Landssamtökunum Þroskahjálp að fylgjast með þessu máli og veit, hvernig það hefur þróast á hverju stigi, og þekki vel til þess mikla áhuga sem er innan þeirra samtaka á því að þetta mál nái sem fyrst fram að ganga. Nýmælin, sem hæstv. ráðh. rakti, eru nefnilega býsna mikilvæg. Þau eru ekki hvað síst mikilvæg fyrir okkur sem búum úti á landsbyggðinni. Þar á ég við þau þjónustusvæði, sem um er talað, og þá nýju skipan sem á þeim málum er. Þar er sannarlega um nýmæli að ræða sem kemur okkur mjög til góða sem störfum úti í styrktarfélögunum, svo að ekki sé meira sagt. En alveg sérstaklega ber að fagna því, að nú skuli sérstök deild innan félmrn. eiga að annast málefni þroskaheftra ásamt þeirri samstarfsnefnd sem á að koma á fót. Á því að vera tryggt að þessi mál, einstök sem jafnvel heildarmál, velkist ekki milli rn., sé vísað frá einu rn. til annars og enginn viti í kerfinu hvar úr eigi að leysa og hvernig úr eigi að leysa.

Við vitum að þar sem þjóðir hafa gert mest átök í þessu efni hefur tekist mjög vel að koma málum þannig fyrir að langflestir hinna þroskaheftu hafi náð því að lifa því sem við getum kallað eðlilegu lífi í þjóðfélaginu. Það hlýtur auðvitað að vera ásamt jafnréttisspurningunni og samhliða henni það meginmál sem við stefnum að. Þetta frv. er stórt skref í þá átt, og hér og nú vil ég færa hæstv. ráðh. þakkir Landssamtakanna Þroskahjálpar fyrir flutning frv. og um leið áskorun til þm. frá þeim sömu samtökum um að láta ekkert hik verða á sér við afgreiðslu þessa máls, heldur afgreiða það frá Alþ. á þeim tíma sem þó er fram undan til þess að afgreiða það. Um ágreining ætla ég ekki að verði að ræða. Það væri með ólíkindum.