27.04.1979
Efri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4245 í B-deild Alþingistíðinda. (3348)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt, horfir til breyt. á lögum um heilbrigðisþjónustu sem sett voru á vorþinginu 1978 og tóku gildi 20. maí það ár. Eins og frv. kemur nú fram má segja að í því felist eingöngu leiðréttingar á 14. gr. núgildandi laga, en sú grein kveður á um staðsetningu heilsugæslustöðva og um starfssvæði hverrar um sig. Í frv.-drögunum, sem gerð voru í heilbr.- og trmrn., var auk þessara leiðréttinga gert ráð fyrir breyt. á 4. tölul. 34. gr. í þá átt, að viðhaldskostnað vegna fasteigna og tækja í sjúkrahúsarekstri skyldi greiða af daggjöldum, eins og var samkv. eldri lögum um heitbrigðisþjónustu, nr. 56 frá 1973. Þessi breyt. hefði í raun þýtt að ríkið greiddi 85% viðhaldskostnaðar og sveitarfélög 15% samkv. 30. gr. laga um almannatryggingar, þar sem segir að kostnað vegna sjúkrasamlaga greiði ríkið og sveitarfélög í þessum hlutföllum. Í núgildandi lögum er aðilum ætlað að greiða viðhald að jöfnu, bæði vegna sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Voru fjárlög yfirstandandi árs að sjálfsögðu við þá kostnaðarskiptingu miðuð. Af þeim sökum þótti ríkisstj. ekki fært að gera nú till. um breytta skipan þessara mála og verður það væntanlega að bíða haustþingsins.

Áður en gildandi lög voru sett gilti sú regla að sveitarfélög greiddu ein allan viðhaldskostnað heilsugæslustöðva sem rekstraraðilar, en viðhald sjúkrahúsa var kostað af daggjöldum sem sveitarfélögin greiddu um 15% í. Þessi skipan vakti óánægju og sætti gagnrýni þeirra sveitarstjórna, sem einungis höfðu heilsugæslustöðvar að reka. Gagnrýni var að því leyti réttmæt, að augljóst var að þarna var boðið heim verulegri mismunun í greiðslubyrði sveitarfélaganna. Vegna þessa var núgildandi skipan lögfest, þ. e. a. s. alger helmingaskipti á viðhaldskostnaði. Í fjárl. yfirstandandi árs eru svo veittar 350 millj. kr. til þessa, þ. e. a. s. 300 millj. kr. til viðhalds sjúkrahúsa sveitarfélaga og samtaka, en 50 millj. til viðhalds heilsugæslustöðva. Á móti þessum framlögum ættu þá sveitarfélög að leggja aðrar 350 millj. kr. Þarna er um að ræða 255 millj. kr. nettóútgjaldaauka hjá þeim sveitarfélögum, sem reka sjúkrahús, og það án þess að tekjumöguleikar aukist til að mæta þessu. Þetta mál verður að skoða betur.

Helstu breyt. í frv. sjálfu eru raktar í grg. sem því fylgir, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögð er til sú breyt. á 14. gr. 6. tölul. 3 að Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Fjallahreppur og Presthólahreppur falli undir starfssvæði heilsugæslustöðvar á Kópaskeri í stað Húsavíkur. Liggja til þess eðlilegar og landfræðilegar ástæður.

Í frv. því til nýrra laga um heilbrigðisþjónustu, sem lagt var fram í byrjun s. l. árs, var gert ráð fyrir því að á Kópaskeri yrði heilsugæslustöð án læknis, þ. e. a. s. H stöð. Alþ. breytti þessu þannig að samkv. lögunum er þar H 1 stöð, en á slíkum stöðvum skal starfa a. m. k. einn læknir. Hins vegar láðist að ákvarða Kópaskeri sérstakt starfssvæði og er hér með reynt að bæta úr því.

Lögð er til sú breyt. á 14. gr. 6. tölul. 4, að á Raufarhöfn verði H stöð í stað H 1 og jafnframt að í stað H 1 stöðvar í Þórshöfn verði H 2 stöð þar sem starfa tveir læknar hið minnsta. Hér er um tilfærslu að ræða til þess að auðveldara verði að fá lækna til starfa. Ógerningur hefur reynst að fá lækni til að setjast að á Raufarhöfn og erfitt er að fá lækni til Þórshafnar. Með því að ætla tveimur læknum aðsetur á Þórshöfn, sem er miðsvæðis og betur búin húsnæði og tækjum heldur en Raufarhöfn, eru líkur á því að betur gangi að fá lækna, ekki bara einn, heldur tvo. Þetta fyrirkomulag var áður samkv. lögum nr. 56 frá 1973, um heilbrigðisþjónustu, og gafst betur en hin gildandi skipan.

Lögð er til sú breyt. á 14. gr. 7. tölul. 1 að Skeggjastaðahreppur falli undir Vopnafjörð í stað Bakkafjarðar, en á Bakkafirði er H stöð og getur hún sem slík ekki haft afmarkað starfssvæði þar sem ekki er samkv. lögum gert ráð fyrir lækni þar.

Lagt er til að 14. gr. 9. tölul. 1 og 2 verði breytt þannig, að Vatnsleysustrandarhreppur falli undir starfssvæði heilsugæslustöðvar í Keflavík í stað Hafnarfjarðar. Vatnsleysustrandarhreppi hefur til þessa verið þjónað frá Keflavík og féll undir starfssvæði Keflavíkur samkv. fyrri lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1973, enda er sú skipan á allan hátt eðlilegri.

Lagt er til að 14. gr. 10. tölul. verði breytt þannig, að burt falli setningarhlutarnir „og heilsugæslustöð á Þórshöfn þjóni Skeggjastaðahreppi“. Framvegis verður Skeggjastaðahreppi þjónað frá Vopnafirði eins og héraða- og umdæmaskipan gerir ráð fyrir. Hins vegar komi inn nýtt ákvæði um að heilsugæslustöð á Hvammstanga skuli þjóna Bæjarhreppi á Strandasýslu eins og var samkv. eldri lögum um heilbrigðisþjónustu. Er sú skipan talin æskilegri.“

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn. þessarar hv. d. með ósk um að það hljóti skjóta afgreiðslu, enda einfalt í sniðum. Auk þess legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr.