27.04.1979
Efri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4248 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að segja um þetta frv. örfá orð. Þegar opnað er fyrir umr. um heitbrigðisþjónustuna almennt væri auðvitað tilefni til margvíslegra skoðanaskipta hér um þau efni, um það sem þar hefur verið að gerast m. a. í sambandi við endurskoðunina í fyrra á þessum málum. Ég lýsti því yfir þá, að sú endurskoðun hefði ekki farið fram með þeim eðlilega hætti sem vera hefði átt. Að vísu býst ég við að þáv. stjórnarliðar hafi fylgst nokkuð vel með því sem þar var að gerast. Þeir áttu fulltrúa í nefndinni sem endurskoðaði þessi lög þá, svo sem lagaskylda var þá að endurskoða, og ég býst við að þeir hafi flutt þingflokknum sínum nokkuð góðar fréttir af endurskoðuninni. Hins vegar varð önnur raun á með okkur í stjórnarandstöðunni, t. d. fulltrúana sem vorum í heilbr.- og trn. Ed., okkur Eggert G. Þorsteinsson. Við komum sem sagt að þessu frv. án þess að hafa heyrt neitt um það áður eða þær breytingar sem þar komu fram. Þ. á m. var ágreiningsefni sem kom upp í heilbr.- og trn. í fyrra og hv. síðasti ræðumaður var að tala um áðan, viðhald mannvirkjanna. Í því efni vorum við hv. þáv. þm. Eggert G. Þorsteinsson með ákveðinni brtt. sem fór í átt við þær ábendingar sem Samband ísl. sveitarfélaga hafði gefið, en þó að á það væri reynt tókst ekki að fá þáv. stjórnarflokka til að breyta því í neinu. Þeir vildu halda þessum ákvæðum eins og þau reyndar eru nú og héldu sig fast við það. Til viðbótar því var málið í því tímahraki sem var þá algert varðandi hin einstöku mál og fékk ekki í n. neina þá skoðun sem það hefði þurft að fá. Þess vegna er auðvitað full ástæða fyrir nýja ríkisstj. og nýjan ráðh. að marka nýja stefnu í þessum efnum og í raun og veru að fara miklu meira ofan í þessi mál vegna þeirra vinnubragða sem voru í fyrra varðandi endurskoðunina, þó að ég vanmeti ekkert þær breytingar sem þá urðu. Ég get alveg tekið undir að full ástæða sé til þessa.

Vitanlega hlýtur að verða svo þegar lög um heilbrigðisþjónustu eru opnuð af ríkisstj. með þessum hætti, sérstaklega varðandi umdæmin, að upp koma ýmsar spurningar og þá alveg sérstaklega þau ágreiningsefni sem áður hafa verið um hvernig þar skyldi skipa málum. Um eitt slíkt ágreiningsefni fór fram atkvgr. hér í hv. d. í fyrra, þ. e. a. s. brtt. sem við Halldór Ásgrímsson fluttum í Ed. um að á Eskifirði yrði H 2 stöð. Munaði mjög litlu í atkvgr. Lá nærri að sú till. færi í gegn. Það varð svo til þess að mjög snemma á þessu þingi fluttum við hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson frv. til l. um það atriði út af fyrir sig að Eskifjörður yrði H 2 stöð með sama starfssvæði. Ég þarf ekki að endurtaka neitt úr rökstuðningi mínum þá fyrir því frv. Það verður auðvitað tekið fyrir í heilbr.- og trn. og helst vildi ég að það fengi þá afgreiðslu að ég þyrfti ekki að vera að gera sérstakar brtt. við þetta frv., mér finnst það óeðlilegt, heldur taki n. það aðeins til athugunar. Ég veit að formaður n. vill það mjög gjarnan. Frv. frá okkur hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni liggur sem sagt fyrir þinginu og n. hlýtur að skoða það; ekki síst í ljósi þeirra umsagna sem hafa þegar fengist um það frv. Þær umsagnir eru annars vegar frá héraðslækninum í Austurlandsumdæmi, Guðmundi Sigurðssyni héraðslækni á Egilsstöðum, sem lýsir yfir algerum stuðningi við þessa skipan mála, og svo hins vegar frá landlækni sem einnig gefur jákvæða umsögn.

Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um annað af þessu tagi, en aðeins fagna ég því að nú er skrefið stigið til fulls í sambandi við Skeggjastaðahreppinn og varðandi Bakkafjörðinn, að setningarhlutarnir sem voru í ákvæðum til bráðabirgða „og þar til öðruvísi verður ákveðið skal heilsugæslustöð á Þórshöfn þjóna Skeggjastaðahreppi“ — falla nú brott og þær byggðir falla alfarið undir Vopnafjarðarumdæmi. Hins vegar er breyting gerð þar varðandi Bakkafjörðinn, líka vegna þess að það munu hafa orðið prentvillumistök í fyrra er frv. var samþykkt.