27.04.1979
Efri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4249 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður um þetta mál að sinni.

Við höfðum pata af því, að lögin um heilbrigðisþjónustu, sem ekki eru nema ársgömul, væru í endurskoðun hjá rn. í vetur, og höfum beðið eftir þessu frv. með nokkurri óþreyju. Eins og hæstv. heilbrrh. nefndi er frv. einfalt í sniðum. Ég verð að taka undir það, ekki kannske alveg á jákvæðan hátt, heldur hið gagnstæða. Mér finnst það nefnilega of einfalt í sniðum þar sem ekki er tekið á nema litlu af því sem mér fyndist þurfa að taka á í sambandi við endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu. Það er m. a. s. dálítið vafasamt hvort þurfti að leggja þetta frv. eins og það er fyrir þingið. Þessi breyting er möguleg þótt ekkert frv. hefði verið lagt fram.

Það er eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, að þegar svona lög eru opnuð til umr. er afar hætt við að allmargir þurfi til málanna að leggja. En tíminn er skammur sem við höfum til umráða svo að ég er ekki mjög bjartsýnn á að hann nægi okkur. Hitt vil ég segja, að það er enginn skaði skeður þó að við flýtum ekki þessu plaggi í gegnum þingið. Við ættum strax í byrjun næsta þings að vinna að því, þm. sjálfir, að gera dálítið betur.

Ég tek undir með hv. þm. Helga F. Seljan er hann talaði um Eskifjörð sem H 2 stöð. Frv. um það liggur í n. N. ákvað að láta það frv. bíða þessa frv., sem við bjuggumst við. Það er alveg rétt, sem hv. þm. nefndi líka, að þær tvær umsagnir, sem leitað var eftir, hafi verið jákvæðar, bæði frá héraðslækni Austurlands og landlækni. Hins vegar skal ég ekki leyna því, að haft var samband við ráðuneytisstjóra heilbr.- og trmrn. og þar fengust neikvæð svör.

Ég þarf ekki að endurtaka það sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði um þá brtt. okkar sem hér er lögð fram. Ég vil þó strika undir það nokkuð ákveðið, að þurft hefði að athuga betur hvort hið gamla Reykhólahérað ætti ekki alfarið að hverfa inn í heilsugæslustöðvarsvæði Búðardals. Ég hef átt viðtöl við menn þarna vestra, aðallega í Búðardal reyndar. Það er komið út fyrir kjördæmi mitt þegar komið er í Reykhólana, svo að ég er þar ekki eins kunnugur málum. Í Búðardal er komin ný heilsugæslustöð sem mér sýnist að geti annað læknisþjónustu á þessu svæði með mikilli prýði, þó að vegalengdir séu þarna geysilega miklar.

Svo vil ég nefna að 20. gr. í lögum um heilbrigðisþjónustu hlýtur að koma til athugunar, þegar frv. þetta fer til skoðunar í n., og jafnframt 34. gr., sem sagt ákvæði um viðhald og endurnýjunarkostnað. Vil ég taka undir það sem hv. þm. Alexander Stefánsson minntist á um það. En ég óttast sem sagt að tíminn verði skammur til þess að ljúka þessu máli svo að menn geti vel við unað.