27.04.1979
Neðri deild: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4253 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

232. mál, veiting prestakalla

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Fyrir deildinni liggur stjfrv. um veitingu prestakalla. Það verður að segja eins og er, að hér er mál á ferðinni sem löngum hefur valdið deilum í þingsölum. Málið snýst um að afnema prestskosningar eða viðhalda óbreyttu kerfi. Þar hefur verið farin fyrst og fremst sú leið að leggja til að afnema prestskosningar og taka upp skipan eða veitingu í formi þess að fáeinir aðilar taki ákvarðanir, en nú er um beinar kosningar að ræða.

Ég held að það hafi verið árið 1947 sem fyrst kom fram á hv. Alþingi frv. til l. um afnám prestskosninga, flutt af þm. Gylfa Þ. Gíslasyni og Sigurði Bjarnasyni. Þeir lögðu til, að þegar prestakall losnaði skyldi kirkjumrh. auglýsa það með hæfilegum umsóknarfresti, að honum loknum skyldu biskupi Íslands sendar umsóknirnar til umsagnar og hann láti í ljós rökstutt álit sitt á því, hverjum skyldi veitt embættið — sem þýddi að kirkjumálarh. veitti embættið beint: Í umsögn frá kirkjuráði frá þessum tíma, 12. maí 1947, er bryddað á annarri hugmynd sem felst í því að þrír aðilar, þ. e. a. s. biskup, héraðsprófastur og sóknarnefnd, létu í ljós álit sitt á hvernig veita skyldi embættið og ef þessir aðilar yrðu samhljóða í úrskurði sínum bæri kirkjumálarh. að veita embættið í samræmi við það. Síðan hafa nokkrum sinnum komið fram tillögur á Alþ. um að afnema prestskosningarnar og taka upp ýmsa skipan í því formi að veita prestum embætti.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þess að gera breytingar á því kerfi sem nú er í gildi. Í framsöguræðu fór hæstv. kirkjumrh. nokkrum orðum um nauðsyn þess að gera nokkrar breytingar á núgildandi skipan mála. Einnig hefur komið fram í þinginu brtt. við frv. þar sem kirkjumrh. hefur lagt fram, fyrir henni verður gerð nokkur grein af hv. 1. flm., en ég er auk hans og nokkurra annarra þm. flm. að þeirri brtt. við frv. Það, sem fyrst og fremst felst í þeirri breytingu, er að kjósendum verði gefinn kostur á að láta fara fram undirskriftasöfnun áður en sóknarnefnd verði falið að fjalla um umsóknina. Í því frv. til l. sem hæstv. dómsmrh. leggur fram, felst að sóknarnefnd ásamt prófasti og biskupi hafi nokkuð með þessi mál að gera, en sóknarnefnd taki lokaákvörðun í málinu. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, en segja sem svo, að frv. í heild sinni feli í sér nokkra málamiðlun frá því sem nú er. Get ég í flestum atriðum sætt mig við frv., að því tilskildu að brtt. nái einnig fram að ganga. Þá tel ég að sé komin fram málamiðlun sem vel mætti við una.

En eitt atriði í frv. kirkjumrh. langaði mig til að nefna sérstaklega, en því er ég á móti, og það er um köllunina. Köllunarákvæði tíðkast sums staðar í nágrannalöndum okkar. Ég held ég megi segja að það tíðkist t. d. í lútersku kirkjunni í Bandaríkjunum og finna megi svipuð ákvæði í skipulagi bresku biskupakirkjunnar. Það er hætta á því, ef 7. gr., um köllun, tæki gildi, að það yrði ríkjandi stefna að köllunin yrði umfram hitt notuð, að sóknarnefndirnar ákveði hvernig kjósa skuli. Þess vegna tel ég brýnt, og raunverulega ekki breyta neinu um meginhugmyndina eins og hún kemur fram í frv., að þetta ákvæði falli út.

Það er rétt að fagna því, sem fram kemur í frv., að kosningarréttur, ef af kosningum verður, sé miðaður við 18 ár. Fyrr á þessu þingi lagði ég fram frv. til stjórnarskipunarlaga um að taka upp 18 ára kosningaraldur. Ég tel að ákvæði frv. þessa sé einn vottur þess, að menn eru að viðurkenna 18 ára kosningaraldurinn. Ég tel að þess verði ekki langt að bíða að 18 ára kosningaraldur nái einnig til sveitarstjórnarkosninga og alþingiskosninga, a. m. k. vona ég að svo verði, en ég vil sérstaklega undirstrika að ég fagna því, að við 18 ára kosningaraldur skuli miðað í frv.

Segja verður eins og er, að prestar í landinu eru margir hverjir óánægðir með þá skipan mála sem hefur ríkt varðandi prestskosningar á undanförnum árum. Það, sem fyrst og fremst mælir núgildandi skipan á móti, er það, að nokkuð virðist óljóst í flestum þeim prestskosningum, sem fram fara, um hvað raunverulega er kosið. Áhugi manna á kirkjunnar málefnum er misjafn, en oft og tíðum verður hann mikill þegar prestskosningar eru í nánd og prestskosningar fara fram. Kannske hafa menn ekki fyrst og fremst áhuga á kirkjunnar málefnum, heldur á persónunum sem um viðkomandi embætti bítast. Sjaldan ber á því að deilt sé um guðfræðikenningar eða um guðfræðileg efni þegar um þessi mál er fjallað í kosningum. Það er kannske líka dálítið afbrigðilegt að um þessi mál sé kosið í beinum kosningum. Það er erfitt að nota algildan mælikvarða á við hvað skuli miðað þegar hæfni presta er ákveðin. Þess vegna held ég að það mæli margt með því að rétt sé að afnema ríkjandi skipan.

Eigi að síður felur þetta frv. í sér að kjósendum er gefinn kostur á kosningum. Frv. felur í sér að kjósendur eigi kost á að safna undirskriftum minnst 25% atkvæðisbærra sóknarbarna innan 7 daga frá því að niðurstöður sóknarnefndar eru kynntar og óska kosninga. Er skylda að verða við því ef kjósendum tekst þetta. Í brtt. er tekið fram, að þessi tími verði miðaður við 20 daga og einungis 10% atkvæðisbærra sóknarbarna. Það má geta þess t. d., að í öðru prestakallinu í Hafnarfirði, ef ætti að fara að 5. gr. eins og hún er í frv., þyrfti að safna á 7 dögum rúmlega 1000 manns á lista. Verður að telja það mjög lítinn tíma til svo mikils stórvirkis. Þess vegna held ég að sú hugmynd, sem í brtt. felst, að gefa kjósendum fyrst kost á að safna undirskriftum til að óska kosninga áður en sóknarnefnd fjallar um málið, leysi ýmsan vanda, valdi t. d. ekki leiðindum og árekstrum eftir að sóknarnefnd hefur lagt sinn dóm á málið.

Í þessu frv. og ef brtt. ná samþykki felst að ef kjósendur hafa ekki áhuga á kosningum er sóknarnefnd falið að velja á milli þeirra frambjóðenda sem um embættið sækja. Í mörgum tilfellum er aðeins einn umsækjandi um viðkomandi embætti. Mundi mörgum finnast óeðlilegt að láta kjósa þá. Þannig mundi vera hægt að spara tíma, vinnu og fyrirhöfn ef kerfið, sem frv. og síðast en ekki síst brtt. kveður á um, næði hylli manna.

Ég hvet til að málið nái fram að ganga áður en þingi lýkur í vor. Þetta hefur tengi verið vandræðamál, þvælst fyrir þinginu og valdið miklum hitaumr., ef við getum orðað það svo. Ég vona að ef sú skipan mála kemst á, sem hér er núna til umræðu, megi leysa vanda, sem bæði kirkjuráð, kirkjuþing og prestastefnur hafa ályktað um á undanförnum árum, og koma manneskjulegri skipan á þau mál.

Ég held að hér sé um samkomulagsgrundvöll að ræða, sem menn ættu að geta sæst á, og hvet til þess að við notum tækifærið og göngum frá málinu í þessu formi og að brtt. nái fram að ganga. Þá held ég að kirkjunni í landinu megi betur vegna í framtíðinni.