27.04.1979
Neðri deild: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4261 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

70. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna ummæla hv. þm. Bjarna Guðnasonar. Raunar skýring á því, hvernig þetta gerist.

Það er þannig, að á hverju ári fá stofnlánasjóðirnir að vita hve mikið fjármagn þeir fá. Lengi var það þannig, að þeir vissu ekki með hvaða kjörum og hvers konar fjármagn þeir fengju. Þannig voru menn t. d. stjórn Stofnlánadeildarinnar, alltaf sammála um að bændur, sem keyptu jarðir, gætu síst allra tekið á sig t. d. verðtryggð lán. Nú er það svo, að á hverju ári eru lánskjörin ákveðin og stjórnirnar leggja fram tillögur sínar oft án þess að vita hvaða kjörum menn verða að sæta í sambandi við lánskjörin. Ríkisstjórn á hverjum tíma samþykkir slíkar tillögur. Þannig eru það ekki aðeins stjórnir stofnlánasjóðanna, þó að þær geri tillögur, heldur verður líka ríkisstjórn á hverjum tíma að samþykkja lánskjörin.

Það er ekkert sérstakt með lánstímamuninn, vegna þess að við vitum ekki til hvað langs tíma við fáum lánin. Það er ákveðið í lögum og reglum hvað lánin skuli vera til langs tíma. Það er ekki einsdæmi, eins og hv. þm. sagði, um veðdeildina. Það er lánstímamunur hjá líklega öllum stofnlánasjóðum. Það er óumflýjanlegt, vegna þess að eins og þetta er allt saman er varla hægt að hafa eitt árið allt annan lánstíma en hitt árið. Málið er leyst með því að taka lán aftur til þess að standa undir þeim mun. Það er auðvitað ákvörðunaratriði.

Í sambandi við landbúnaðinn vil ég taka það fram, að sá halli, sem verður á sjóðum hans, kemur þannig út að þeir sjóðir hafa verið að borga niður vöruverð í landinu. Ef verið hefðu önnur kjör hefði vöruverðið hlotið að verða hærra sem því nemur, nema ætlast sé til þess að bændastéttin sjálf borgi mismuninn. Það mundi stangast á við lög og — ég veit — réttlætiskennd hv. þm., því að þeir mundu þá verða enn lengra frá því að ná launum sínum en þeir hafa verið á undanförnum árum. Þetta var alveg það sama þegar hv. þm. studdi fyrrv. ríkisstj. Við vorum þá stundum saman í nefndum og komum okkur vel saman um hvernig ætti að leysa mál. Þetta er því ekki nýtt fyrir síðustu ríkisstj. eða þessa ríkisstj. Miklu lengra tímabil hefur þessi háttur verið hafður á þessum málum. En auðvitað hafa dýrtíðin og gengisfellingarnar, sem hafa verið enn þá meiri á undanförnum árum, raskað þessu svo að við hrökkvum allir við.